Hafa rafbylgjur áhrif á heilsu manna? Er satt að börn sem búa nálægt rafstöðvum fái frekar hvítblæði en önnur börn?Um þetta efni er fjallað í svari Þorgeirs Sigurðssonar frá 2004 við spurningunni: Hversu nálægt háspennulínum er talið óhætt að búa? Eins og þar kemur fram eru bæði rafsvið og segulsvið umhverfis rafmagnsmannvirki, en þau myndast líka í kringum rafmagnslagnir og raftæki á heimilum. Þessi svið eru breytileg í tíma og sveiflast með tíðni sem ræðst af uppruna þeirra. Við framleiðslu og notkun rafmagns er tíðnin oftast 50-60 Hz og flokkast þessi svið sem lágtíðnisvið[1]. Segulsvið dofnar hratt með fjarlægð en til dæmis byggingarefni hafa lítil áhrif á það, öfugt við rafsvið sem auðvelt er að verjast[2]. Meðal annars þess vegna beinast augu manna frekar að mögulegri skaðsemi segulsviðs en rafsviðs umhverfis rafmagnsmannvirki. Faraldsfræðilegar rannsóknir hafa tengt aukna tíðni hvítblæðis hjá börnum við langtímabúsetu í segulsviði (>0,3 µT) af þeirri tíðni sem myndast í raforkumannvirkjum. Enn vantar þó lífeðlisfræðilegar skýringar á því hvernig lágtíðnisegulsvið eins og þetta gæti valdið hvítblæði. Sérfræðingar Alþjóðaráðs um varnir gegn ójónandi geislun (ICNIRP)[3] og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO)[4] telja að samspil valbjögunar, einhverrar samþáttunar og tilviljunar gæti skýrt þessar niðurstöður. Nýjasta álit vísindamanna í þessum efnum er frá vísindanefnd Evrópusambandsins um nýgreinda og vaxandi heilbrigðisáhættu (SCENIHR). Þar er fullyrt að hvorki hafi tekist að skýra þessa auknu tíðni né sýna fram á með tilraunum að segulsviðið sé í raun það sem veldur. Frekari rannsókna sé því þörf til að sanna eða afsanna samhengi milli búsetu í lágtíðnisegulsviði og aukinnar tíðni hvítblæðis[5]. Tilvísanir:
- ^ ICNIRP - Low Frequency (1 Hz-100 kHz). (Sótt 20.03.2016)
- ^ ICNIRP - Power Lines: Low Frequency. (Sótt 20.03.2016).
- ^ ICNIRP Guidelines for Limiting Exposure to Time-Varying Electric and Magnetic Fields (1 Hz – 100 kHz). Birt í Health Physics 99(6):818-836;2010. (Sótt 07.04.2016).
- ^ World Health Organization. Environmental Health Criteria 238. Extremely low frequency (ELF) fields. Geneva: World Health Organization; 2007a.
- ^ Scientific Committee on Emerging and Newly Identified Health Risks (SCENIHR). 2015. Opinion on Potential Health Effects of Exposure to Electromagnetic Fields (EMF). Luxemburg, European Commission.
- Georgia Power Tramsformer Station | Flickr - Photo Sharing!. (Sótt 8.04.2016). Myndin er birt undir leyfinu Attribution-ShareAlike 2.0 Generic (CC BY-SA 2.0).