Langar að vita merkingu Þeist eða þeista en þar á ég við hvernig nafnið Þeistareykir er komið til.Nafnið er skrifað „þeistareykia land“ í máldaga Múlakirkju í Auðunarmáldögum 1318 (Ísl. fornbréfasafn II, 434) og er elsta dæmi um jörðina í heimildum. Nafnið er „Þeistar Reyker eður Þestar Reyker“ í Jarðabók Árna og Páls árið 1712 (XI:211). Það er talið dregið af orðinu þeista kv. eða þeisti k., sem er nafn á fugli af svartfuglaætt og heitir á nútímamáli teista. Ólíklegt er þó að fuglinn sá hafi verið á bæ þeim sem um ræðir, sem er alllangt frá sjó en jörðin er fornt eyðibýli í Suður-Þingeyjarsýslu, suður af Reykjaheiði, hálfa þingmannaleið (það er um 19 km) frá næstu byggð, samkvæmt Árna og Páli. Fleiri Þeista-örnefni eru til í landinu. Þeistavogur er nefndur undir Vallanesi í Norður-Múlasýslu (Ísl. fornbréfasafn III:238 (1367); IV:205 (1397), 271 (1419)), en ekki er vitað nákvæmlega hvar hann er, ef til vill á Héraðssandi. Þeisthólmur í Berufirði er nefndur 1370 í Ísl. fornbréfasafni (VIII:10), nefndur Þeisthólmi hjá Þorvaldi Thoroddsen (Ferðabók I:75nm). Sömuleiðis er að nefna Þeistá (Þeistuá) = Teistá í landi Karlskála í Reyðarfirði (Árbók Ferðafélagsins 2005:71). Líklegra er að nafn fuglsins sé í fyrri lið þessara örnefna en í bæjarnafninu Þeistareykir. Elof Hellquist nefndi þá skýringu á nafni fuglsins að það væri hljóðhermunafn (Svensk etymologisk ordbok, bls. 1172), og Ásgeir Blöndal Magnússon nefnir þá skýringu hans í orðsifjabók sinni.

Örnefnið Þeistareykir hefur meðal annars verið talið dregið af nafni fugls sem heitir teista á nútímamáli. Ólíklegt er þó að sjófuglinn teista hafi sést á bænum Þeistareykjum, enda er hann alllangt frá sjó.
- Árni Magnússon og Páll Vídalín. Jarðabók. XI. bindi. Kaupmannahöfn 1943.
- Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
- Byggðir og bú Suður-Þingeyinga. Húsavík 1985.
- Hellquist, Elof. Svensk etymologisk ordbok. Tredje upplagan. Lund. 1966.
- Hjörleifur Guttormsson. Árbók Ferðafélags Íslands. Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar. Reykjavík 2005.
- Íslenzkt fornbréfasafn. I-XVI. Kaupmannahöfn – Reykjavík. 1857-1972.
- Norsk stadnamnleksikon. Jørn Sandnes og Ola Stemshaug (útg.). Oslo 1976.
- Sigurður Ægisson. Ísfygla. Grenjaðarstaður 1996.
- Sigurður Ægisson. Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin. Reykjavík 2020.
- Þorvaldur Thoroddsen. Ferðabók. Skýrslur um rannsóknir á Íslandi 1882-1898. I. Kaupmannahöfn 1913.
- Mynd: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 12. 5. 2016).
- black guillemot or tystie (Cepphus grylle), Vigur | Flickr - Photo Sharing!. (Sótt 17.05.2016).