Góðan dag, við erum að ræða það í skólanum hver sé stærsti jökull í Evrópu. Einn samnemandi minn segir að það sé jökull í norður Rússlandi, faðir hennar heldur því fram en hann er frægur sagnfræðingur og fróður mjög. En kennarinn minn og allir aðrir sem ég tala við segja að það sé Vatnajökull og bókin mín í landafræði segir það líka. Hverju á ég að trúa? Kær kveðja, Júlía Birna, krakkarnir og kennarinn í 5. HS í Hlíðó.Það er rétt að Severny-jökulbreiðan á nyrsta hluta Novaja Semlja (einnig skrifað Novaya Zemlya) er stærsti samfelldi hveljökull í Evrópu að flatarmáli ef Norðuríshafseyjar eru taldar sem hluti álfunnar. Þær eru vissulega hluti af heimskautalöndum Rússlands. Severny-ísbreiðan er um 20 þúsund ferkílómetrar að flatarmáli, um 400 km löng og 50 km breið. Samanlagt er flatarmál jökla á þessum íshafseyjum um 50 þúsund ferkílómetrar (Novaja Semlja, Franz Josef Land og Severnaja Semlja sem einnig er skrifað Severnaya Zemlya). Á Svalbarða þekja jöklar um 36 þúsund ferkílómetra og þar af hylur einn hveljökull, Austfonna, rúmlega fimmtung af heildarflatarmálinu. Ef Norðuríshafseyjar eru ekki taldar tilheyra Evrópu þá er Vatnajökull stærsti jökull í álfunnar. Hann er nú um 7,900 ferkílómetrar (km2) að flatarmáli, um 3,000 rúmkílómetrar (km3) að rúmmáli og því að meðaltali 380 m þykkur. Jökullinn Austfonna á Svalbarða er næstur í röðinni, 7,800 km2 að flatarmáli og um 2,500 km3, því 320 m þykkur að meðaltali. Flatarmál jökla er nú á dögum mælt af myndum sem teknar eru úr gervitunglum sem svífa umhverfis jörðina. Rúmmálið er hins vegar metið með því að mæla þykkt þeirra með svonefndri íssjá. Tækið sendir rafsegulbylgju niður á jökulbotn og hún endurkastast upp á yfirborð. Tíminn sem það tekur er mældur og þannig má reikna dýpið vegna þess að við þekkjum hraða bylgjunnar. Ekið er með íssjána um allan jökulinn svo að finna má meðalþykkt jökulsins og með því að margfalda meðalþykkt með flatarmáli finnum við heildarrúmmál jökulsins. Myndir:
- Severny Island ice cap - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 6.02.2016).
- File:Grimsvotn sat.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 4.02.2016).
- File:Norway on the globe (Svalbard special) (Europe centered).svg - Wikimedia Commons. (Sótt 3.02.2016).