Hvað er það sem er utan um pylsur eða pulsur, þ.e.a.s. húðin? Getgátur hafa verið uppi um að þetta séu grísaþarmar er það satt?Pylsugerð er gömul aðferð til þess að nýta afurðir sláturdýra og auka geymsluþol þeirra. Pylsugerð þekktist bæði meðal Grikkja og Rómverja og oft er talið að í Babýlóníu til forna hafi fyrstu pylsurnar verið gerðar. Til er eins konar uppskrift af pylsum á fornri leirtöflu frá tímum Hammúrabís, en hann var konungur Babýlóníumanna og ríkti um 1750 fyrir okkar tímatal. Í uppskriftinni er mælt með að troða elduðu kjöti inn í geitarvambir. Pylsa er hakkað eða brytjað kjöt sem búið er að krydda og troða inn í görn, áður fyrr raunverulega görn úr sláturdýri, en nú yfirleitt verksmiðjuframleidda. Garnir er annað orð yfir þarma sem er sá hluti meltingarvegarins sem liggur milli maga og endaþarmsops.

Pylsugerð í heimahúsi. Himnubelgurinn utan um pylsur getur verið úr görnum, hann getur einnig verið unnin úr kollageni sem kemur úr skinni, beinum og sinum dýra. Utan um vínarpylsur er iðulega notað beðmi sem er byggingarefni plöntufruma. Plastefni eru einnig notuð utan um sumar pylsur.
Í 18. aldar heimildum er sagt frá því að pylsur sem kallist bjúgu á Íslandi séu gerðar úr mjóstu görnunum og þurfi að hengja þær upp á báðum endum því að þær valdi ekki eigin þunga. Það séu einkum þær sem menn reyki, en annars séu pylsur yfirleitt etnar upp úr súr.Bjúgu eru þó ekki eins algeng á borðum Íslendinga og áður fyrr og fjölbreytnin er ekki mikil. Þess má að lokum geta að orðið pylsa er tökuorð í íslensku, líklegast úr dönsku pølse, eins og fram kemur í svari Guðrúnar Kvaran við spurningunni Hvort er réttara að segja og rita pylsa eða pulsa? Það þekkist í málinu frá því á 17. öld. Miðað við uppruna er rétt að skrifa pylsa með -y- en orðmyndin pulsa er framburðarmynd, hugsanlega fyrir áhrif frá dönsku. Heimildir og mynd:
- Nanna Rögnvaldsdóttir, 1998. Matarást. Reykjavík: Iðunn.
- Hallgerður Gísladóttir, 1999. Íslensk matarhefð. Reykjavík: Mál og menning/Þjóðminjasafn Íslands.
- Joris J. Wijnker, 2009, Aspects of quality assurance in processing natural sausage casings. Utrecht: Utrecht University. (Sótt 12.01.2016).
- Sausage - Britannica Online Encyclopedia. (Skoðað 11. 1. 2016).
- Sausage - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 11. 1. 2016).
- The 6th floor food hall at KaDeWe in Berlin | davidlansing.com. (Sótt 11. 1. 2016).
- Sausage - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 12.01.2016).