Hver er munurinn á bundnu og óbundnu máli? Ég finn ekki svar á Vísindavefnum um muninn á þessu tvennu. Er það eitthvað sem væri hægt að fá svar við með góðum dæmum. Það er stundum að vefjast fyrir syni mínum sem er í leiklist, sérstaklega ef bundið mál er á ljóðformi en ekki í hefðbundnum reglum ljóðformsins, stuðlar, höfuðstafir og rím. Einnig texti Shakespeares til dæmis „Að vera eða ekki vera“Bundið mál er texti sem fylgir bragreglum að meira eða minna leyti. Andstæðan er svokallað laust mál, en með því er átt við texta sem ekki fylgir bragreglum. Í sjálfu sér er ekki flókið að átta sig á hvort texti sé á bundnu máli. Í prentuðum bókum þekkist bundinn texti helst á braglínum sem einnig nefnast ljóðlínur. Ljóðlína er einfaldlega lína í ljóði. Ekki er heldur flókið að heyra hvort texti sem lesinn er upp sé á bundnu máli. Ef upplesinn texti hefur hrynjandi sem minnir á upplestur kvæðis er um bundið mál að ræða. Rétt er að taka fram að bundið mál þarf alls ekki að hafa rím eða stuðlasetningu eða skiptast í erindi. Aðalatriði bundins mál er skipuleg hrynjandi, en með því er átt við að einhvers konar reglu er komið á hljómfall orðanna. Alþjóðlega orðið fyrir hrynjandi er rhythm, dregið af gríska orðinu rhythmos sem merkir ‚reglubundin og endurtekin hreyfing‘. Sumar kveðskapargreinar eru lausari í böndunum en aðrar. Í eddukvæðum er hrynjandi til dæmis óreglulegri en í mörgum öðrum kveðskapargreinum. Það sama er hægt að segja um mörg nútímaljóð. Um ljóð sem eru óbundin nota menn yfirleitt hugtakið prósaljóð. Þar sem spurt var sérstaklega um leikrit Shakespeares má geta þess að bragarháttur þeirra nefnist stakhenda (e. blank verse). Í stakhendu eru jafnar, rímlausar braglínur og engin skipting í erindi. Hver lína er 10 eða 11 atkvæði og í hverri línu er fimm stígandi tvíliðir, venjulega með áherslulausri endingu á eftir síðasta risi. Um tvíliði og almennt um bragliði er hægt að lesa meira í svari við spurningunni Hvað eru jambar og hvernig tengjast þeir sonnettu? Rétt er að taka fram að mörk á milli bundins máls og lauss eru ekki niðurnjörfuð. Hægur vandi er til dæmis að taka fyrstu málsgreinina úr efnisgreininni hér fyrir ofan og bæði skrifa hana og lesa upp eins og um bundið mál væri að ræða.
Þar sem spurt varHeimild og frekara lesefni:
um leikrit Shakespeares
má geta þess
að bragarháttur
þeirra nefnist
stakhenda.
- Jakob Benediktsson (ritstj.), Hugtök og heiti í bókmenntafræði, Mál og menning, Reykjavík 1989.
- Bækur.is - Edda Snorra Sturlusonar =. (Sótt 10.03.2016).