Gögn sem safnað hefur verið bæði í mönnuðum og ómönnuðum tunglferðum gefa til kynna að gígar á yfirborði tunglsins, yfir einn metri í þvermál, nemi þremur billjónum að tölu (3.000.000.000.000). Stærstu gígar tunglsins nema hundruðum kílómetra að þvermáli. Flestir gígarnir hafa orðið til við árekstur loftsteina við tunglið, aðrir kunna að vera til komnir af eldvirkni en það er þó óvíst.Við þetta má bæta að talið er að um hálf millljón gíga á tunglinu sé yfir 1 km í þvermál. Þó gígarnir á tunglinu séu flestir ævafornir þá eru þeir það ekki allir. Til dæmis náðist mynd af því þegar lítill árekstrargígur varð til þann 2. maí 2006. Gígur þessi reyndist vera um 14 m í þvermál og um 3 m á dýpt. Með því að smella hér má sjá áreksturinn á mynd. Á Wikipedia er að finna lista yfir hluta þeirra gíga sem eru á tunglinu, nöfn þeirra, þvermál og við hvað eða hvern þeir eru kenndir. Ef spyrjendur eiga hins vegar við dökku svæðin á tunglinu, höfin, þegar þeir tala um “göt” þá er fjallað um þau í svari Sævars Helga Bragasonar og Tryggva Þorgeirssonar við spurningunni Eru vötn á tunglinu? Þar segir meðal annars:
Tunglhöfin þekja um 16% af yfirborði tunglsins. Þau urðu til við geysimikla árekstra geimgrýtis eða smástirna við tunglið. Við árekstrana mynduðust stórar dældir, sem síðar fylltust af blágrýtishrauni meðan tunglið var enn eldvirkt ... Dökkleitt bergið í höfunum endurkastar ekki eins miklu sólarljósi og bergið á hálendissvæðunum og virðast því höfin dekkri.Á Wikipedia er líka að finna lista yfir höfin á tunglinu, stór og smá. Samkvæmt þeim lista eru 23 fyrirbæri á tunglinu sem flokkast sem höf (lunar maria og oceanus), 20 fyrirbæri sem kalla mætti vötn (lunar lacus) en það eru basaltbreiður af svipuðum uppruna og höfin bara minni að flatarmáli og 14 skyld fyrirbæri sem kannski mætti kalla flóa (lunar sinus og palus). Ef hægt er að kalla öll þessi fyrirbæri göt þá eru þau 57. Mynd: Flickr. Mynd birt af NASA Goddard Space Flight Center. (Sótt 27.6.2018). Birt undir leyfinu Creative Commons 2.0.
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.