Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Samkvæmt flokkun grasafræðinnar er Cannabis sativa ein tegund sem skiptist í tvær undirtegundir: C. sativa og C. indica. Upprunaleg heimkynni plöntunnar eru í Mið-Asíu og við Himalajafjöll. Undirtegundirnar urðu til þegar menn tóku að rækta plöntuna til mismunandi nota. Norðarlega á útbreiðslusvæði sínu var plantan notuð til textílgerðar og þar varð undirtegundin C. sativa til. Sunnar var plantan notuð sem vímugjafi og þar varð C. indica til. Til aðgreiningar eru plönturnar kallaðar hampur og kannabis.
Hampur (C. sativa) er einær, einkynja planta með öflugri trefjarót og stinnum og trefjaríkum stöngli sem getur náð sex metra hæð. Blöðin eru stakstæð, handskipt og grófsagtennt. Fjöldi smálaufa á hverju blaði eykst eftir því sem plantan eldist. Aðeins er eitt lauf í fyrstu en þau geta orðið þrettán. Algengast er þó að blöðin séu sjö til níu. Smáblöðum á laufum fækkar að jafnaði í eitt næst blómunum. Blómin eru lítil, grænleit og mörg saman í hnapp á toppi plöntunnar eða blaðöxlum. Einstaka planta ber bæði karl- og kvenblóm. Plantan er vindfrjóvgandi í náttúrunni. Fræin eru olíurík, þrír til fjórir millimetrar að lengd.
Hampur í Frakklandi.
Saga hampræktunar nær aldir og árþúsundir aftur í tímann. Samkvæmt kínverskri goðsögn færðu guðirnir mannkyninu eina plöntu að gjöf sem átti að uppfylla alla þarfir þess og var plantan sú formóðir allra kannabis- og hampplantna í heiminum.
Fornminjar benda til að nytjar á Cannabis sp. nái að minnsta kosti tólf þúsund ár aftur í tímann og að fræ plöntunnar hafi verið nýtt til matar. Talið er að Kínverjar hafi manna fyrstir ofið léreft úr hampi fyrir um 4.500 árum.
Mikilvægi hamps og notagildi hans hefur ekki síst legið í því hversu trefjaríkir stofnar plöntunnar eru. Trefjarnar mátti nota í klæði, segl, reipi, pappír og margt fleira. Sem dæmi var hampur notaður bæði í segl og kaðla á tímum landafundanna miklu.
Stofn hampplöntunnar er mjög trefjaríkur.
Á 17. og 18. öld réðu Rússar stórum hluta verslunar með hamp í heiminum og framleiddu þjóða mest af seglum og köðlum. Kaðlar úr hampi voru algengir í hengingarsnúrur við aftökur og eru það líklega enn í dag.
Spánverjar fluttu hampfræ með sér vestur yfir haf og hófu ræktun á honum í Síle 1545 en fyrsta hampinum var sáð í Norður-Ameríku 1607.
Í frelsisstríði Bandaríkjanna undan Bretum (1775-1783) bönnuðu hinir síðarnefndu innflutning á hampi til nýlendunnar og var hampræktun í Bandaríkjunum því mikil allt frá stofnun þeirra. Bæði George Washington (1732–1799) og Thomas Jefferson (1743–1826), fyrsti og þriðji forseti Bandaríkjanna, ræktuðu hamp til iðnaðar. Því hefur verið haldið fram að sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna sé skrifuð á pappír sem unninn var úr hampi. Það mun aðeins vera að hluta til rétt því pappírinn var gerður úr blöndu af þráðum úr líni, hampi og bómull.
Hampur var sem sagt þó nokkuð ræktaður í Bandaríkjunum fyrr á öldum en þegar leið á 19. öld og snemma á 20. öld var ræktun hans þar farin að dragast saman, enda ýmis önnur efni komin fram á sjónarsviðið sem mátti nota í stað hamptrefja. Árið 1937 voru sett lög í Bandaríkjunum sem gerðu ráð fyrir að sérstakt leyfi þyrfti til að rækta og nota hamp (og kannabis), en þar sem leyfið var aldrei veitt var í raun um bann að ræða. Viðhorf stjórnvalda í Bandaríkjunum breyttust þó um tíma í seinni heimsstyrjöldinni og var almenningur þá hvattur til að rækta iðnaðarhamp undir slagorðinu „Hemp For Victory“. Fatnaður bandarískra hermanna í því stríði var að mestu ofinn úr hampi. Ræktunin var stöðvuð aftur árið 1957.
Hampur hefur verið notaður í kaðla um margra alda skeið.
Í dag er ræktun á iðnaðarhampi leyfð í um 30 löndum og hefur samanlögð framleiðsla þeirra verið í kringum 175 milljón tonn á ári. Árið 2010 framleiddu Kínverjar mest og Suður-Kórea næstmest. Í kjölfar þeirra komu svo lönd eins og Úkraína, Rúmenía, Ungverjaland, Spánn, Síle og Frakkland.
Iðnaðarhampur er nýttur á ótrúlega marga og ólíka vegu og hátt í 25 þúsund mismunandi vöruflokkar framleiddir úr honum. Úr trefjum hamps er til dæmis búinn til pappír og vefnaðarvara. Þess má til gamans geta að fyrstu Levi‘s gallabuxurnar voru saumaðar úr striga sem var ofinn úr hampi og markaðssettar fyrir gullgrafara vegna þess hversu endingargóðar þær voru. Í dag er fatnaður sem í er hampþráður yfirleitt blanda af hampi, bómull eða silki til að mýkja áferðina. Hampþræðir eru notaðir sem íblöndunarefni við trefjaplast og er að finna í gólfteppum, áklæði húsgagna og sem byggingarefni og einangrun í húsum og hjólhýsum. Þá eru bílaframleiðendur í síauknum mæli farnir að nota hamp við framleiðslu á innra og ytra borði bifreiða.
Hampur er meðal annars notaður í bílaiðnaði, hér í bland við plast sem hluti af innra byrði í hurð.
Plöntuhlutar hamps eru einnig notaðir sem dýrafóður og sem þekja til að halda niðri illgresi í gróðurhúsum. Tilraunir með að framleiða lífdísil úr hampi lofa góðu.
Úr fræjum hamps er unnin olía sem er notuð í lækningaskyni og sem íblöndunarefni í málningu, snyrtivörur og í iðnaði. Olían er notuð til matargerðar, sem íblandað fæðubótarefni í matvælum og í hampmjólk. Þurrkuð og mulin fræ þykja ágæt til baksturs. Auk þess sem fræin eru gefin sem dýra- og fuglafóður.
Ísland á líka sína hampsögu. Fyrstu skráðu heimildir um ræktun á hampi á Íslandi er að finna í bréfi sem Vísi-Gísli sendi syni sínum árið 1670 þar sem hann segir frá tilraunum sínum með að rækta innfluttar plöntur. Á listanum er meðal annars að finna bygg, kúmen, spínat og hamp.
Hampur er nefndur sem hugsanleg ræktunarplanta í Íslenskri urtagarðsbók sem Ólafur Olavius þýddi úr dönsku og gaf út árið 1770. Í Garðagróðri eftir Ingólf Davíðsson og Ingimar Óskarsson, sem kom fyrst út árið 1950, segir meðal annars um hamp:
Úr stöngultrefjunum er unninn hampur, sem er hafður í kaðla, snæri, striga o.s.frv. Jurtin er ræktuð til skrauts, vegna þess hve blaðfalleg hún er. Þarf skjól. Gott er að binda hana við prik til stuðnings. Þrífst vel. Fjölgað með sáningu.
Fyrir tæpum áratug var gerð tilraun með ræktun á iðnaðarhampi í Eyjafirði og gekk ræktunin vel en áform um áframhaldandi ræktun gengu ekki eftir.
Myndir:
Vilmundur Hansen. „Hvað er hampur, í hvað er hann notaður og er hann ræktaður á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 5. nóvember 2015, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70725.
Vilmundur Hansen. (2015, 5. nóvember). Hvað er hampur, í hvað er hann notaður og er hann ræktaður á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70725
Vilmundur Hansen. „Hvað er hampur, í hvað er hann notaður og er hann ræktaður á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 5. nóv. 2015. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70725>.