Hvaða þættir eru ráðandi í vexti plöntusvifs á íslenska hafsvæðinu og að hvaða leyti er hafsvæðið frábrugðið hér við land en á svipuðum breiddargráðum?Það sem helst ræður þeim þörungablóma sem verður á grunnsævinu við landið og öðrum svæðum í Norðaustur-Atlantshafi og sambærilegum svæðum á Kyrrahafinu, er sólarljósið og ólífræn næringarefni. Á veturna þegar efstu lög sjávar kólna og vindar gnauða á hafinu blandast yfirborðssjórinn niður á mikið dýpi og næringarefni úr neðri lögum sjávar berast til yfirborðsins. Hins vegar er sólarljós mjög takmarkað á þessum árstíma og vöxtur þörunga verður að þeim sökum hverfandi auk þess sem sviflægir þörungar haldast ekki nægilega lengi í efstu lögum sjávarins (ljóstillífunarlaginu) til að vöxtur og blómi verði. Aðstæður breytast nokkuð þegar vorið gengur í garð. Þá hlýnar yfirborðssjórinn og blandast ekki djúpsjónum eins og á veturna heldur verður sjórinn lagskiptur. Við þessar aðstæður skapast kjörskilyrði fyrir þörunga og þeim fjölgar þá afar hratt. Fjöldinn getur orðið nokkrar milljónir svifþörunga í hverjum millilítra og heilu hafsvæðin geta þá breytt um lit, eins og til dæmis gerist á hverju vori á grunnsævinu við strendur Íslands. Þörungablóminn eða vorhámarkið í vexti svifþörunga hér við land er mjög mikill enda er frumframleiðnin og afrakstursgeta vistkerfisins á landgrunninu umhverfis Ísland með því mesta sem gerist á norðurhveli jarðar. Þessar aðstæður sem myndast hér við land eru að einhverju leyti sérstakar en ekki einstakar. Mikil frumframleiðni þekkist víðar á þessum svæðum, svo sem við stendur Noregs og í Norðursjónum, við strendur Alaska og við Kyrrahafsströnd Kanada. Rétt er að hafa í huga að það er breytileiki í frumframleiðslu hér við land og þar af leiðandi breytingar á afrakstursgetu vistkerfisins milli ára og milli tímabila. Þetta er tilkomið vegna breytinga á sjávarhita, seltu og vindafari á Norðaustur-Atlantshafi, auk þess sem styrkur næringarefna í efstu lögum getur einnig verið breytilegur. Mynd:
- NASA Visible Earth: Phytoplankton Bloom off Iceland. (Sótt 12. 11. 2015).