Fær maður pening ef maður finnur fornmun og lætur Fornleifastofnun vita af fundinum?Þeir sem finna forngripi á víðavangi eiga að hafa samband við Minjastofnun Íslands sem hefur yfirumsjón með verndun fornleifa- og byggingararfs á Íslandi. Stofnunin er með skrifstofu á Suðurgötu 39 í Reykjavík og er að auki með sex svæðisskrifstofur, í Stykkishólmi, í Bolungarvík, á Sauðárkróki, á Akureyri, á Djúpavogi og á Selfossi. Síminn á Minjastofnun Íslands er 570 1300 og það er líka hægt að senda tölvupóst þangað á netfangið postur@minjastofnun.is. Samkvæmt lögum um menningarminjar (nr. 80/2012) er skylda að láta vita ef maður finnur forngripi á víðavangi. Maður á helst ekki að taka gripinn með sér því hann getur verið hluti af stærri fornleifafundi og fornleifafræðingar fá meiri upplýsingar ef þeir sjá í hvaða samhengi gripurinn er í jörðinni. Ef gripurinn er í hættu, til dæmis vegna þess að hann liggur í fjöru eða það er hætta á að hann týnist aftur, má taka hann með sér en alltaf ætti að reyna að skrá nákvæmlega hvar hann fannst. Forngripir eru allir manngerðir hlutir sem eru orðnir eldri en 100 ára. Ef gripurinn er úr góðmálmi eða eðalsteinum, eins og til dæmis silfri, gulli eða demöntum, á Þjóðminjasafn Íslands að leggja mat á verðgildi gripsins, það er að segja, hvað hann myndi kosta. Ríkissjóður borgar síðan þeim sem fann gripinn helminginn af peningnum og þeim sem á jörðina sem gripurinn fannst á, hinn helminginn. Ekki er greitt fyrir forngripi sem eru ekki úr eðalmálmum eða -steinum, en það er samt nauðsynlegt að láta vita ef maður finnur slíka gripi því þeir geta mögulega vísað fornleifafræðingum á merkilegar fornleifar. Mynd:
- Myndina tók Sigurður Bergsteinsson, Minjastofnun. Hún er birt með góðfúslegu leyfi.