Er eitthvað líffræðilegt hjá hundum sem gerir það að verkum að þeir verði ekki þunglyndir?Í mjög einföldu máli má skilgreina þunglyndi sem ójafnvægi í boðefnabúskap í heila svo sem í seretóníni eða öðrum taugaboðefnum. Slíkt hendir ekki bara okkur mennina heldur einnig önnur spendýr, til dæmis hunda. Hundaeigendur þekkja vel að hundar geta sýnt svipað tilfinningalegt litróf og menn; þeir geta orðið afbrýðissamir, til dæmis ef nýtt barn kemur inn á heimilið, glaðir og auðvitað reiðir en þeir geta líka orðið daprir, til dæmis ef náinn fjölskyldumeðlimur hverfur eða deyr. Langvarandi depurð mætti líkja við þunglyndi og slíkt ástand er þekkt hjá hundum. Til dæmis geta hundar dregið sig til baka og orðið óvirkir. Svefn- og matarvenjur þeirra geta breyst, til að mynda geta þeir misst matarlyst og hætt að hafa gaman af hlutum sem þeir nutu áður, svo sem að fara út að ganga með eiganda sínum. Ástæður breyttrar hegðunar geta þó verið aðrar en þunglyndi. Ef hundur sýnir til dæmis ekki lengur áhuga á göngutúr getur allt eins verið að hann finni til einhvers staðar og reyni því að forðast hreyfingu. Því er nauðsynlegt að leita til dýralæknis ef hundurinn sýnir slíka hegðun. Mynd:
- Pixabay. (Sótt 18. 9. 2015).