Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Mjög litlar líkur eru á því núorðið að einhver hópur fólks geti lifað í þess konar einangrun að hægt sé að telja hann „ófundinn“ eða „týndan“. Það er margt sem mælir gegn því. Landsvæði hafa víðast verið þaulkönnuð með tilliti til mögulegra auðlinda og trúboðar eru mjög kappsamir um að ná til fólks á afskekktum svæðum. Það er líka afar óhagkvæmt fyrir fólk að lifa í einangrun til lengri tíma í vistkerfi með takmarkaða möguleika, mun farsælla er að vera í viðskiptum við nágranna.
Ég tek hér Nýju-Gíneu sem dæmi, en þar í fjöllunum þóttust menn hafa fundið týndan ættbálk árið 1993. Hópurinn var nefndur Liawep og um hann skrifaði breskur blaðamaður bókina The Lost Tribe: A Harrowing Passage into New Guinea’s Heart of Darkness (Marriot 1997). Bókin fékk harða gagnrýni frá mannfræðingi sem hefur stundað rannsóknir á svæðinu og þekkir vel til þess fólks sem Marriot skrifar um (Brutti 1998). Lesandinn getur kynnt sér þá deilu á netinu með því að gúggla Liawep.
Kwermin-fólkið sem höfundur þessa svars dvaldi hjá, sagði oft sögur af týndu fólki.
Árið 1993 var ég sjálfur við rannsóknir á Nýju-Gíneu og frétti þar af þessum meintu mannafundum. Mér bárust fyrirspurnir frá fræðimönnum um þetta fólk og til að geta svarað þeim varð ég mér úti um skýrslu af opinberum leiðangri sem farinn var til Liawep-fólksins í maí þetta sama ár. Þar kom fram að umrætt fólk hafði flust á núverandi landsvæði einum tuttugu árum áður. Fólkið „fannst“ svo þegar unglingspiltur úr hópnum fór að leita frændfólks sem hann hafði frétt frá eldra fólki að væri að finna í byggðum, sex dagleiðir til vesturs. Samkvæmt þessu var Liawep ekki tiltakanlega týnt fólk, en leiðangursmenn töluðu þó um discovered people. Þess ber að geta að þrír af sex leiðangursmönnum voru papúanskir trúboðar og þeirra skilgreining á týndu fólki gæti verið önnur en leikmanna.
Sögur af týndu fólki – eða fólki í felum – voru oft sagðar af Kwermin-fólkinu sem ég dvaldi hjá á Nýju-Gíneu. Stundum var fólkinu lýst sem skelfilegum mannætum, stundum sem hálfgildings dýrum með hala, stundum sem hræddu fólki sem þyrði ekki að hafa samskipti við umheiminn. Sögurnar áttu stundum rætur í upplifun fólksins sjálfs, sem kynntist evrópskum áhrifum seint. Ótti við flugvélar var eitt af því sem oft var minnst á í sögunum en fullorðnir menn höfðu upplifað slíkan ótta sjálfir. Sams konar ótti er heimfærður upp á Liawep-fólkið í skýrslu leiðangursmanna og það sagt hlaupa í felur ef flugvéla verður vart (Yasaro 1993). Mannfræðingur fólksins segir það hins vegar hafa verið við flugbrautargerð þegar það „fannst“ (Brutti 1998).
Þegar svonefnt Tasaday-fólk „fannst“ töldu mannfræðingar í fyrstu að um stórviðburð væri að ræða. Síðan komu fram miklar efasemdir og margir fóru að hallast að því að um gabb væri að ræða.
Margt ýtir undir það að fólki sé lýst sem mun „ósnortnara“ eða „frumstæðara“ en það er. Það má segja að forvitni okkar um okkur sjálf, sem tegund, hafi þar nokkur áhrif. Sú forvitni skapar markað fyrir bækur, líkt og þá sem skrifuð var um Liawep-fólkið. Rúmum tuttugu árum áður en sá meinti fundur átti sér stað, vakti annar slíkur á Filippseyjum heimsathygli. Þá fannst svonefnt Tasaday-fólk. Mannfræðingar töldu í fyrstu að þar væri um stórviðburð að ræða og Tasaday-fólkið var um tíma áberandi í kennslubókum í mannfræði. Mannfræðingurinn Marshall Sahlins hafði mynd af nokkrum þeirra á forsíðu bókar sinnar Stone Age Economics. Síðan komu fram miklar efasemdir og margir fóru að hallast að því að um gabb væri að ræða. En jafnframt var bent á að Tasaday hefðu, hvernig svo sem sannleikanum væri annars háttað, gefið heimsbyggðinni jákvæða mynd af mögulegum forverum okkar sem friðelskandi fólki (Persoon 2003:315-17). Tasaday voru dæmi um það sem heimspekingurinn Rousseau nefndi göfuga villimenn og ef forverar okkar eru göfugir á mannkynið sér kannski nokkra von. Það virðist að minnsta kosti betri kostur en sá sem fólginn er í líkingunni í bókartitli Marriots, Hjarta myrkursins, sem er fenginn að láni frá rithöfundinum Joseph Conrad (2002).
Heimildir:
Brutti, L. 1998. Papua New Guinea: ‘Lost tribe’ book debunked. Pacific media watch. http://www.pmw.c2o.org/docs98/p42png.html. Sótt 31. janúar 2008.
Conrad, J. 2002. Heart of darkness. London: Bentley Pub.
Marriot, E. 1997. The Lost Tribe: A Harrowing Passage into New Guinea’s Heart of Darkness. New York: Henry Holt & Co.
Persoon, G.A. 2003. The fascination with Siberut. Í Framing Indonesian Realities. Ritstjórar P. Nas, G. Persoon og R. Jaffe. Leiden: KITLV Press.
Sahlins, M. 1972. Stone Age Economics. London, New York: Routledge.
Yasaro, P.T. 1993. Patrol into Liawep area of Oksapmin sub-district. Oksapmin, 09/06/93-67-1-0.
Sveinn Eggertsson. „Eru einhverjar líkur á því að enn séu til ættbálkar frumbyggja sem hafa ekki fundist?“ Vísindavefurinn, 4. febrúar 2008, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7046.
Sveinn Eggertsson. (2008, 4. febrúar). Eru einhverjar líkur á því að enn séu til ættbálkar frumbyggja sem hafa ekki fundist? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7046
Sveinn Eggertsson. „Eru einhverjar líkur á því að enn séu til ættbálkar frumbyggja sem hafa ekki fundist?“ Vísindavefurinn. 4. feb. 2008. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7046>.