Pityriasis rosea byrjar oftast með bleikum, egglaga flekk sem oft er kallaður „móðurflekkur”. Hann er venjulega 3-6 cm að stærð og kemur oftast fram á baki eða brjóstum. Á næstu 1-2 vikum eftir að móðurflekkurinn myndast koma fram smærri blettir af sama toga á bol, hálsi og handleggi. Útbrotin eru vel afmörkuð, aðeins upphleypt og í miðju þeirra verður húðin stundum þurr og hreisturkennd.
Hér sjást einkennandi útbrot fyrir sjúkdóminn bleikjuhreistur eða rósahnapp.
Engar forvarnir eru þekktar gegn bleikjuhreistri. Saga og skoðun nægir venjulega til að greina sjúkdóminn. Vegna þess hve sjúkómurinn líkist öðrum sjúkdómum, sérstaklega ef hann kemur ekki fram í sínu dæmigerðasta formi, er nauðsynlegt að útiloka fyrst aðra sjúkdóma svo sem sveppasýkingu. Hægt er að taka sýni úr húð til greiningar sjúkdómsins. Meðferð
Ekki er þörf á meðferð við vægum sjúkdómseinkennum. Varast ber að klóra eða skrúbba húðina en nota þess í stað rakakrem til að mýkja hana og einnig má nota krem sem draga úr kláða. Mild sterakrem má nota til að minnka bólgu og einnig er hægt að taka andhistamín (ofnæmislyf) í töfluformi við miklum kláða. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver er munurinn á bakteríu og veiru? Eru sýklar og bakteríur það sama? eftir Evu Benediktsdóttur
- Er húðin líffæri? eftir Stefán B. Sigurðsson
- Hvað er skarlatssótt? eftir Dag Snæ Sævarsson
- Hver eru áhrif mismunandi fæðutegunda á húðsjúkdóminn sóra (psoriasis)? eftir Ólöfu Guðnýju Geirsdóttur
Þessi grein birtist upphaflega á vefsetrinu Doktor.is og birtist hér með góðfúslegu leyfi.