hafnín -s, hafníum -s HK eðlis/efnafr. Er rétt að nota þessi íslenskuðu form á heitum efna en ekki -íum-formin? Eða ber að nota hvort tveggja, til dæmis við samningu orðabóka?Orðanefnd Eðlisfræðifélagsins tók þá ákvörðun á sínum tíma að hafa -ín-myndirnar í sinni orðaskrá: Helín, natrín, kalín og svo framvegis. Enn fremur orðmyndir eins og úran og plúton. Þetta má til að mynda sjá í Orðaskrá um eðlisfræði og skyldar greinar. Ákvörðun þessi var byggð á heildstæðum tillögum frá Þorsteini Sæmundssyni. Frá upphafi hefur Vísindavefurinn leitast við að nota þessar orðmyndir en hver textahöfundur eða þýðandi tekur síðan væntanlega sína ákvörðun um hvað hann notar eða mælir með. Í orðabók teljum við hins vegar réttast að sýna báðar gerðir, það er plúton/plútoníum, helín/helíum og svo framvegis. Það er gert í bæði Stafsetningarorðabókinni og Íslenskri orðabók. Aftur á móti má benda á að í Hugtakasafni þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins er farið bil beggja. Þar er úran og plúton notað í stað úraníum og plútoníum en helíum, natríum og kalíum notað í stað helín, natrín og kalín. Heimildir:
- Hugtakasafn þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins. (Skoðað 23.09.2016).
- Íslensk orðabók. 2007. Mörður Árnason (ritstjóri), 4. útgáfa, byggð á 3. prentun frá 2005 með allnokkrum breytingum. Reykjavík: Edda.
- Orðaskrá um eðlisfræði og skyldar greinar. 1996. Viðar Guðmundsson og Þorsteinn Vilhjálmsson (ritstjórar), Orðanefnd Eðlisfræðifélags Íslands. Reykjavík: Heimskringla, háskólaforlag Máls og menningar.
- Stafsetningarorðabókin. 2006. Dóra Hafsteinsdótir (ritstjóri). Reykjavík: Íslensk málnefnd: JPV útgáfa.
- Þorsteinn Sæmundsson. Nöfn frumefnanna. (Skoðað 23.09.2016).
- Bellefonte Nuclear Generating Station - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 22.09.2016).
- Dictionary - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 21.09.2016).