Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju roðnum við þegar eitthvað vandræðalegt gerist?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Roði í kinnum, til dæmis þegar við blygðumst okkar eða erum feimin, kemur fram við svonefnt flótta- eða árásarviðbragð (e. flight-or-fight response). Við verðum líka rjóð í vöngum þegar við reynum á okkur og eins fáum við stundum roða í kinnarnar eftir fullnægingu og þá má nefna roðann kynroða eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvað er fullnæging? Þegar við reiðumst þá roðnum við líka. Í fornritum kemur það ósjaldan fyrir. Í Hávarðar sögu Ísfirðings segir til dæmis: "Hávarður roðnaði og mátti engu svara. Fór hann þegar í brott og var stórlega reiður".

Allur þessi roði í kinnum stafar af seyti hormónanna adrenalíns, noradrenalíns og kortisóls. Þegar við reiðumst, verðum feimin, eða blygðumst okkar seytir líkaminn þessum hormónum og þau hafa ýmis áhrif eins og hægt er að lesa um í svari við spurningunni Er hægt að deyja úr hræðslu?


Einhverjum gæti þótt vandræðalegt að kasta af sér vatni á þessu almenningsklósetti. Þá fer adrenlínflæði af stað og menn roðna.

Hormónin valda því meðal annars að blóðið í líkamanum þynnist, við það eykst blóðflæði og meira súrefni berst um æðakerfið. Æðarnar í andlitinu á okkur víkka einnig og enn meira blóð flæðir þar um en ella. Þetta aukna blóðflæði sjáum við beinlínis sem roða í kinnum.

Það er athyglisvert að einu æðarnar sem víkka svona við flótta- og árásarviðbragðið eru í andlitinu á okkur. Æðar annars staðar í líkamanum víkka ekki, þó svo að blóðflæði verði meira um þær vegna þess að blóðið er þynnra og rennur hraðar.

En af hverju gerist þetta? Gegnir roði í kinnum einhverjum sérstökum tilgangi?

Sálfræðingurinn Ray Crozier hefur skrifað bók um kinnroða sem heitir Blushing and Social Emotions (Kinnroði og félagslegar tilfinningar). Hann heldur því fram að kinnroði vegna blygðunar eða feimni, sé eins konar þögul líkamstjáning. Með roðanum erum við að biðjast afsökunar án þess að segja nokkuð. Ef við móðgum einhvern á mannamóti en sjáum svo eftir því og skömmumst okkar þá er kinnroðinn tákn um eftirsjána. Roðinn er merki um það að við viljum ekki vera ruddar.

Crozier telur að roði í kinnum sé merki um svonefnda tilfinningagreind fólks og hæfileikann til að setja sig í spor annarra. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt að roðna stundum innan um annað fólk og ekkert að því. Ef eitthvað er, þá er það einfaldlega eðlilegt merki um kurteisi.

Kenning Croziers virðist ekki útskýra beint af hverju við roðnum þegar við reiðumst. Það ætti þó að vera nokkuð ljóst að þegar við roðnum af reiði gefa önnur tákn yfirleitt til kynna að roðinn stafar af reiði en ekki blygðun. Ef einhver móðgar okkar og við reiðumst gætum við til dæmis rokið á brott eins Hávarður hér í dæminu efst í svarinu. Ef það fyki virkilega í okkur gætum við gert eitthvað vanhugsað, eins og að löðrunga viðkomandi. Þá mundum við væntanlega blygðast og roðna af skömm.

Heimildir og mynd:

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

17.1.2008

Spyrjandi

Viktoría Alexandra Halldórsdóttir, f. 1992
Hreinn Sverrisson, f. 1993
Auður Guðnadóttir, f. 1993 og fjölmargir aðrir

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Af hverju roðnum við þegar eitthvað vandræðalegt gerist?“ Vísindavefurinn, 17. janúar 2008, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7010.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2008, 17. janúar). Af hverju roðnum við þegar eitthvað vandræðalegt gerist? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7010

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Af hverju roðnum við þegar eitthvað vandræðalegt gerist?“ Vísindavefurinn. 17. jan. 2008. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7010>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju roðnum við þegar eitthvað vandræðalegt gerist?
Roði í kinnum, til dæmis þegar við blygðumst okkar eða erum feimin, kemur fram við svonefnt flótta- eða árásarviðbragð (e. flight-or-fight response). Við verðum líka rjóð í vöngum þegar við reynum á okkur og eins fáum við stundum roða í kinnarnar eftir fullnægingu og þá má nefna roðann kynroða eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvað er fullnæging? Þegar við reiðumst þá roðnum við líka. Í fornritum kemur það ósjaldan fyrir. Í Hávarðar sögu Ísfirðings segir til dæmis: "Hávarður roðnaði og mátti engu svara. Fór hann þegar í brott og var stórlega reiður".

Allur þessi roði í kinnum stafar af seyti hormónanna adrenalíns, noradrenalíns og kortisóls. Þegar við reiðumst, verðum feimin, eða blygðumst okkar seytir líkaminn þessum hormónum og þau hafa ýmis áhrif eins og hægt er að lesa um í svari við spurningunni Er hægt að deyja úr hræðslu?


Einhverjum gæti þótt vandræðalegt að kasta af sér vatni á þessu almenningsklósetti. Þá fer adrenlínflæði af stað og menn roðna.

Hormónin valda því meðal annars að blóðið í líkamanum þynnist, við það eykst blóðflæði og meira súrefni berst um æðakerfið. Æðarnar í andlitinu á okkur víkka einnig og enn meira blóð flæðir þar um en ella. Þetta aukna blóðflæði sjáum við beinlínis sem roða í kinnum.

Það er athyglisvert að einu æðarnar sem víkka svona við flótta- og árásarviðbragðið eru í andlitinu á okkur. Æðar annars staðar í líkamanum víkka ekki, þó svo að blóðflæði verði meira um þær vegna þess að blóðið er þynnra og rennur hraðar.

En af hverju gerist þetta? Gegnir roði í kinnum einhverjum sérstökum tilgangi?

Sálfræðingurinn Ray Crozier hefur skrifað bók um kinnroða sem heitir Blushing and Social Emotions (Kinnroði og félagslegar tilfinningar). Hann heldur því fram að kinnroði vegna blygðunar eða feimni, sé eins konar þögul líkamstjáning. Með roðanum erum við að biðjast afsökunar án þess að segja nokkuð. Ef við móðgum einhvern á mannamóti en sjáum svo eftir því og skömmumst okkar þá er kinnroðinn tákn um eftirsjána. Roðinn er merki um það að við viljum ekki vera ruddar.

Crozier telur að roði í kinnum sé merki um svonefnda tilfinningagreind fólks og hæfileikann til að setja sig í spor annarra. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt að roðna stundum innan um annað fólk og ekkert að því. Ef eitthvað er, þá er það einfaldlega eðlilegt merki um kurteisi.

Kenning Croziers virðist ekki útskýra beint af hverju við roðnum þegar við reiðumst. Það ætti þó að vera nokkuð ljóst að þegar við roðnum af reiði gefa önnur tákn yfirleitt til kynna að roðinn stafar af reiði en ekki blygðun. Ef einhver móðgar okkar og við reiðumst gætum við til dæmis rokið á brott eins Hávarður hér í dæminu efst í svarinu. Ef það fyki virkilega í okkur gætum við gert eitthvað vanhugsað, eins og að löðrunga viðkomandi. Þá mundum við væntanlega blygðast og roðna af skömm.

Heimildir og mynd:...