Hormónin valda því meðal annars að blóðið í líkamanum þynnist, við það eykst blóðflæði og meira súrefni berst um æðakerfið. Æðarnar í andlitinu á okkur víkka einnig og enn meira blóð flæðir þar um en ella. Þetta aukna blóðflæði sjáum við beinlínis sem roða í kinnum. Það er athyglisvert að einu æðarnar sem víkka svona við flótta- og árásarviðbragðið eru í andlitinu á okkur. Æðar annars staðar í líkamanum víkka ekki, þó svo að blóðflæði verði meira um þær vegna þess að blóðið er þynnra og rennur hraðar. En af hverju gerist þetta? Gegnir roði í kinnum einhverjum sérstökum tilgangi? Sálfræðingurinn Ray Crozier hefur skrifað bók um kinnroða sem heitir Blushing and Social Emotions (Kinnroði og félagslegar tilfinningar). Hann heldur því fram að kinnroði vegna blygðunar eða feimni, sé eins konar þögul líkamstjáning. Með roðanum erum við að biðjast afsökunar án þess að segja nokkuð. Ef við móðgum einhvern á mannamóti en sjáum svo eftir því og skömmumst okkar þá er kinnroðinn tákn um eftirsjána. Roðinn er merki um það að við viljum ekki vera ruddar. Crozier telur að roði í kinnum sé merki um svonefnda tilfinningagreind fólks og hæfileikann til að setja sig í spor annarra. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt að roðna stundum innan um annað fólk og ekkert að því. Ef eitthvað er, þá er það einfaldlega eðlilegt merki um kurteisi. Kenning Croziers virðist ekki útskýra beint af hverju við roðnum þegar við reiðumst. Það ætti þó að vera nokkuð ljóst að þegar við roðnum af reiði gefa önnur tákn yfirleitt til kynna að roðinn stafar af reiði en ekki blygðun. Ef einhver móðgar okkar og við reiðumst gætum við til dæmis rokið á brott eins Hávarður hér í dæminu efst í svarinu. Ef það fyki virkilega í okkur gætum við gert eitthvað vanhugsað, eins og að löðrunga viðkomandi. Þá mundum við væntanlega blygðast og roðna af skömm. Heimildir og mynd:
- Josh Clark, Why do people blush? Vefsvæði HowStuffWorks. Sótt 16.1.2007.
- Sean Coughlan, Too hot to handle. Vefsvæði: BBC: News. Sótt 16.1.2007.
- Textasafn Orðabókar Háskólans
- Lopez@Large