Svarið er ekki alveg svona einfalt. Maður getur hætt að ganga ýmist með því að hlaupa, valhoppa, standa kyrr, setjast eða leggjast. En hætti maður að ganga með því að setjast, hefur maður þá ekki hætt einu með því að byrja á öðru, hætt að ganga með því að byrja að sitja? Og hætti maður að hugsa um kvöldmatinn, er eins víst að hugurinn hvarfli að öðru, og hætti maður að virða fyrir sér útsýnið, er eins víst að maður fari að horfa á aðra hluti. Maður gæti hætt að horfa yfirleitt með því að loka augunum, en hefur maður þá ekki hætt að horfa með því að taka upp á öðru, nefnilega því að hafa augun lokuð. Það er því ekki ljóst að yfirleitt sé hægt að gera ekki neitt, þótt maður geti hætt að gera hvað svo sem maður er að gera þá og þá stundina. En aftur er málið ekki alveg einfalt, því ekki er ljóst að það að sitja sé að gera eitthvað, vegna þess að það að sitja þarf ekki að vera athöfn. Maður getur hæglega verið þátttakandi í margvíslegum kringumstæðum án þess að vera gerandi í þeim. Orðalagið „Guðmundur situr“ kann að gefa til kynna að Guðmundur sé að gera eitthvað, rétt eins og orðalagið „Guðmundur étur“ gefur til kynna athöfn, nefnilega át. En orðin blekkja stundum. Þetta sjáum við ef við hugum að orðalagi eins og „Guðmundur sekkur“. Að sökkva er ekki að gera eitthvað. Til að komast áfram með spurninguna um hvort hægt sé að gera ekki neitt, er því nauðsynlegt að huga að greinarmun þess að vera gerandi og hins að vera þolandi. Ef hundur bítur mig, þá er það eitthvað sem hundurinn gerir en ég verð fyrir. Hundurinn er gerandi og ég er þolandi. Þessi greinarmunur er stundum markaður málfræðilega. Nefnifall, til dæmis í setningunni „ég borða“, gefur þá til kynna geranda en þolfall, til dæmis í setningunni „mig hungrar“, gefur til kynna þolanda. En þetta er þó ekki einhlítt eins og setning „ég sekk“ sýnir. Hvað með setninguna „ég hugsa“? Oft er óljóst hver staða manns er gagnvart eigin hugsunum. Er maður gerandi í eigin hugsanagangi eða koma hugsanir manns kannski yfir mann án þess að maður ráði þar miklu um? Kannski væri nær lagi að segja „mig hugsar“ frekar en „ég hugsa“. Og hvað með svitann? Þegar maður svitnar, er það þá eitthvað sem maður gerir eða eitthvað sem maður verður fyrir? Til að flækja málið enn frekar er svo hægt að gera hluti án þess í raun að gera neitt. Flugumferðarstjóri sem sofnaði á vaktinni gæti valdið skelfilegu slysi með því að gera ekki neitt. Hann yrði líklega dreginn fyrir dóm og ákærður fyrir alvarlega yfirsjón, vanrækslu í starfi. Í slíku máli væri engin vörn að benda á að hann gæti ekki verið sekur því hann hefði ekki gert neitt. Það sem hann væri sakaður um að hafa gert væri einmitt að hafa gert eitthvað hræðilegt með því að gera ekki neitt. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Er hægt að skilja sinn eigin heila?
- Hvernig er ekkert á litinn?
- Þegar þið segið að "ekkert" sé fyrir utan heiminn ef hann er endanlegur, hvað er þá "ekkert"?
- Korcula WALKING & HIKING Korcula Croatia. Sótt 15.1.2008.