Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er hægt að gera ekki neitt?

Ólafur Páll Jónsson

Áður en við getum tekist á við þessa spurningu þurfum við að taka afstöðu til þess hvort það að gera ekki neitt megi leggja að jöfnu við að vera ekki að gera neitt. Á svipaðan hátt gætum við spurt hvort það að segja ekki neitt sé það sama og ekki að segja neitt. Sá sem þegir, hann er ekki að segja neitt. En er líka rétt að hann sé að segja ekki neitt? Er „ekki neitt“ það sem hinn þegjandi segir? Og þá „ekki neitt“ það sem hinn fullkomlega aðgerðalausi gerir?

En „ekki neitt“ er ekki neitt, og það sem er ekki neitt getur því ekki verið eitthvað sem maður ýmist segir eða gerir. Í þessum skilningi er ekki hægt að gera ekki neitt. En þá stendur eftir hvort hægt sé að gera ekki neitt í þeim skilningi að vera fullkomlega aðgerðalaus.

Í fljótu bragði virðist ekki erfitt að gera ekki neitt: Sá sem vill ekki gera neitt hættir bara að gera það sem hann er að gera þá stundina. Að vísu er maður oft að gera ansi margt í einu: ganga, hugsa um hvað verði í kvöldmat, virða fyrir sér útsýnið, rjátla við smámynt í buxnavasanum, efna áramótaheit og svo framvegis. En þetta er endanlega margt og öllu þessu má hætta. Og þegar öllu þessu hefur verið hætt, má þá ekki ætla að maður sé ekki að gera neitt?


Göngufólk hættir að ganga og íhugar hvort það sé þá að gera ekki neitt.

Svarið er ekki alveg svona einfalt. Maður getur hætt að ganga ýmist með því að hlaupa, valhoppa, standa kyrr, setjast eða leggjast. En hætti maður að ganga með því að setjast, hefur maður þá ekki hætt einu með því að byrja á öðru, hætt að ganga með því að byrja að sitja? Og hætti maður að hugsa um kvöldmatinn, er eins víst að hugurinn hvarfli að öðru, og hætti maður að virða fyrir sér útsýnið, er eins víst að maður fari að horfa á aðra hluti. Maður gæti hætt að horfa yfirleitt með því að loka augunum, en hefur maður þá ekki hætt að horfa með því að taka upp á öðru, nefnilega því að hafa augun lokuð.

Það er því ekki ljóst að yfirleitt sé hægt að gera ekki neitt, þótt maður geti hætt að gera hvað svo sem maður er að gera þá og þá stundina. En aftur er málið ekki alveg einfalt, því ekki er ljóst að það að sitja sé að gera eitthvað, vegna þess að það að sitja þarf ekki að vera athöfn. Maður getur hæglega verið þátttakandi í margvíslegum kringumstæðum án þess að vera gerandi í þeim. Orða­lagið „Guðmundur situr“ kann að gefa til kynna að Guðmundur sé að gera eitthvað, rétt eins og orðalagið „Guðmundur étur“ gefur til kynna athöfn, nefnilega át. En orðin blekkja stundum. Þetta sjáum við ef við hugum að orðalagi eins og „Guðmundur sekkur“. Að sökkva er ekki að gera eitthvað.

Til að komast áfram með spurninguna um hvort hægt sé að gera ekki neitt, er því nauðsynlegt að huga að greinarmun þess að vera gerandi og hins að vera þolandi. Ef hundur bítur mig, þá er það eitthvað sem hundurinn gerir en ég verð fyrir. Hundurinn er gerandi og ég er þolandi. Þessi greinarmunur er stundum markaður málfræðilega. Nefnifall, til dæmis í setningunni „ég borða“, gefur þá til kynna geranda en þolfall, til dæmis í setningunni „mig hungrar“, gefur til kynna þolanda. En þetta er þó ekki einhlítt eins og setning „ég sekk“ sýnir. Hvað með setninguna „ég hugsa“? Oft er óljóst hver staða manns er gagnvart eigin hugsunum. Er maður gerandi í eigin hugsanagangi eða koma hugsanir manns kannski yfir mann án þess að maður ráði þar miklu um? Kannski væri nær lagi að segja „mig hugsar“ frekar en „ég hugsa“. Og hvað með svitann? Þegar maður svitnar, er það þá eitthvað sem maður gerir eða eitthvað sem maður verður fyrir?

Til að flækja málið enn frekar er svo hægt að gera hluti án þess í raun að gera neitt. Flugumferðar­stjóri sem sofnaði á vaktinni gæti valdið skelfilegu slysi með því að gera ekki neitt. Hann yrði líklega dreginn fyrir dóm og ákærður fyrir alvarlega yfirsjón, vanrækslu í starfi. Í slíku máli væri engin vörn að benda á að hann gæti ekki verið sekur því hann hefði ekki gert neitt. Það sem hann væri sakaður um að hafa gert væri einmitt að hafa gert eitthvað hræðilegt með því að gera ekki neitt.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Ólafur Páll Jónsson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

15.1.2008

Spyrjandi

Fritz Hendrik Berndsen, f. 1993
Anna Bjarnsteinsdóttir, f. 1997

Tilvísun

Ólafur Páll Jónsson. „Er hægt að gera ekki neitt?“ Vísindavefurinn, 15. janúar 2008, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7005.

Ólafur Páll Jónsson. (2008, 15. janúar). Er hægt að gera ekki neitt? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7005

Ólafur Páll Jónsson. „Er hægt að gera ekki neitt?“ Vísindavefurinn. 15. jan. 2008. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7005>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er hægt að gera ekki neitt?
Áður en við getum tekist á við þessa spurningu þurfum við að taka afstöðu til þess hvort það að gera ekki neitt megi leggja að jöfnu við að vera ekki að gera neitt. Á svipaðan hátt gætum við spurt hvort það að segja ekki neitt sé það sama og ekki að segja neitt. Sá sem þegir, hann er ekki að segja neitt. En er líka rétt að hann sé að segja ekki neitt? Er „ekki neitt“ það sem hinn þegjandi segir? Og þá „ekki neitt“ það sem hinn fullkomlega aðgerðalausi gerir?

En „ekki neitt“ er ekki neitt, og það sem er ekki neitt getur því ekki verið eitthvað sem maður ýmist segir eða gerir. Í þessum skilningi er ekki hægt að gera ekki neitt. En þá stendur eftir hvort hægt sé að gera ekki neitt í þeim skilningi að vera fullkomlega aðgerðalaus.

Í fljótu bragði virðist ekki erfitt að gera ekki neitt: Sá sem vill ekki gera neitt hættir bara að gera það sem hann er að gera þá stundina. Að vísu er maður oft að gera ansi margt í einu: ganga, hugsa um hvað verði í kvöldmat, virða fyrir sér útsýnið, rjátla við smámynt í buxnavasanum, efna áramótaheit og svo framvegis. En þetta er endanlega margt og öllu þessu má hætta. Og þegar öllu þessu hefur verið hætt, má þá ekki ætla að maður sé ekki að gera neitt?


Göngufólk hættir að ganga og íhugar hvort það sé þá að gera ekki neitt.

Svarið er ekki alveg svona einfalt. Maður getur hætt að ganga ýmist með því að hlaupa, valhoppa, standa kyrr, setjast eða leggjast. En hætti maður að ganga með því að setjast, hefur maður þá ekki hætt einu með því að byrja á öðru, hætt að ganga með því að byrja að sitja? Og hætti maður að hugsa um kvöldmatinn, er eins víst að hugurinn hvarfli að öðru, og hætti maður að virða fyrir sér útsýnið, er eins víst að maður fari að horfa á aðra hluti. Maður gæti hætt að horfa yfirleitt með því að loka augunum, en hefur maður þá ekki hætt að horfa með því að taka upp á öðru, nefnilega því að hafa augun lokuð.

Það er því ekki ljóst að yfirleitt sé hægt að gera ekki neitt, þótt maður geti hætt að gera hvað svo sem maður er að gera þá og þá stundina. En aftur er málið ekki alveg einfalt, því ekki er ljóst að það að sitja sé að gera eitthvað, vegna þess að það að sitja þarf ekki að vera athöfn. Maður getur hæglega verið þátttakandi í margvíslegum kringumstæðum án þess að vera gerandi í þeim. Orða­lagið „Guðmundur situr“ kann að gefa til kynna að Guðmundur sé að gera eitthvað, rétt eins og orðalagið „Guðmundur étur“ gefur til kynna athöfn, nefnilega át. En orðin blekkja stundum. Þetta sjáum við ef við hugum að orðalagi eins og „Guðmundur sekkur“. Að sökkva er ekki að gera eitthvað.

Til að komast áfram með spurninguna um hvort hægt sé að gera ekki neitt, er því nauðsynlegt að huga að greinarmun þess að vera gerandi og hins að vera þolandi. Ef hundur bítur mig, þá er það eitthvað sem hundurinn gerir en ég verð fyrir. Hundurinn er gerandi og ég er þolandi. Þessi greinarmunur er stundum markaður málfræðilega. Nefnifall, til dæmis í setningunni „ég borða“, gefur þá til kynna geranda en þolfall, til dæmis í setningunni „mig hungrar“, gefur til kynna þolanda. En þetta er þó ekki einhlítt eins og setning „ég sekk“ sýnir. Hvað með setninguna „ég hugsa“? Oft er óljóst hver staða manns er gagnvart eigin hugsunum. Er maður gerandi í eigin hugsanagangi eða koma hugsanir manns kannski yfir mann án þess að maður ráði þar miklu um? Kannski væri nær lagi að segja „mig hugsar“ frekar en „ég hugsa“. Og hvað með svitann? Þegar maður svitnar, er það þá eitthvað sem maður gerir eða eitthvað sem maður verður fyrir?

Til að flækja málið enn frekar er svo hægt að gera hluti án þess í raun að gera neitt. Flugumferðar­stjóri sem sofnaði á vaktinni gæti valdið skelfilegu slysi með því að gera ekki neitt. Hann yrði líklega dreginn fyrir dóm og ákærður fyrir alvarlega yfirsjón, vanrækslu í starfi. Í slíku máli væri engin vörn að benda á að hann gæti ekki verið sekur því hann hefði ekki gert neitt. Það sem hann væri sakaður um að hafa gert væri einmitt að hafa gert eitthvað hræðilegt með því að gera ekki neitt.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:...