Ekkert er væntanlega litlaust. Ef við gerum ráð fyrir að "ekkert" hljóti að vera það sem er ekki neitt, þá hefur það ekki lit. Þetta þýðir þó ekki að þetta ekkert sé gegnsætt, þar sem orðið gegnsætt felur í sér að til staðar sé einhver hlutur sem við sjáum gegnum. Ekkert er sem sagt litlaust, en samt ekki glært eða gegnsætt. Ekkert er svart. Við sjáum liti þegar ljós endurvarpast af hlutum. Svartir hlutir eru þeir sem endurvarpa engu (eða nánast engu) ljósi. Það sem er ekki neitt endurvarpar engu ljósi og hlýtur því að vera svart. Þessu til stuðnings má benda á að í myrkri sjáum við ekkert og myrkur sýnist einmitt svart. Hér bendir ritrýnir á að það er ekki eina einkenni svartra hluta að endurvarpa engu, heldur ekki síður hitt að drekka í sig alla geislun sem á þá fellur. Þar sem ekkert getur varla drukkið neitt í sig sýnist honum/henni að það geti ekki verið svart. Með tilliti til þessarar athugasemdar ritrýnis setjum við því fram nýja tilgátu: ekkert er hvítt. Hvítir hlutir endurvarpa ljósi af öllum bylgjulengdum vegna þess að yfirborð þeirra drekkur ekki í sig ljós af neinni bylgjulengd. Það sem er ekki neitt drekkur ekki í sig ljós af neinni bylgjulengd og þar af leiðandi hlýtur það að vera hvítt. Aftur er hinn smámunasami ritrýnir óánægður og gerir þá athugasemd að ekkert geti varla endurvarpað neinu, hvorki ljósi né öðru. Þess vegna sýnist honum/henni að ekkert geti ekki verið hvítt þar sem hvítir hlutir endurvarpa ljósi. Þar höfum við það: ekkert er hvorki svart né hvítt. Líklega er þá upphaflega tilgátan, sú að ekkert sé litlaust, sennilegust. Þó er á henni sá galli að það er ýmislegt sem er litlaust sem er samt sem áður eitthvað en ekki ekkert. Ef til er eitthvað sem heitir réttlæti hefur það til dæmis engan lit, eins má nefna þjóðarstolt Íslendinga, hugsanir okkar og símanúmer leigubílastöðva. Þetta eru allt saman litlaus fyrirbæri og því getur verið villandi að segja að ekkert sé litlaust þar sem fólk gæti þá ályktað að ekkert eigi eitthvað sameiginilegt með ofangreindum hlutum. Besta tilgátan um litinn á engu er eftir allt saman kannski þessi: Þar sem ekkert er ekki til og er í eðli sínu ekki neitt er ekkert vit í að reyna að lýsa því. Lýsingar á því hljóta alltaf í besta falli að vera ósannar og í versta falli merkingarlausar. Það að segja "ekkert er appelsínugult með bleikum doppum" er því ekkert verra en að segja "ekkert er litlaust" þar sem báðar staðhæfingarnar fela í sér þau mistök að reynt er að lýsa einhverju sem engin lýsing getur átt við. Í svörunum hér að ofan hefur spurningin "hvernig er ekkert á litinn?" verið túlkuð sem "hvernig er það sem er ekki neitt á litinn?" en hana má líka skilja öðruvísi. Spyrjandi er kannski að velta því fyrir sér hvaða litur það er sem enginn hlutur hefur. Sem svör við því má nefna fjólugulan, appelsínubláan og rauðgrænan. Ef einhver heldur því fram að hlutur sé fjólugulur (gulur með fjólubláum blæ) á litinn hlýtur viðkomandi að segja ósatt. Enginn hlutur í heiminum getur nokkurn tíma verið fjólugulur á litinn. Þetta kemur til af því að í hugum okkar gilda reglur um það hvernig litirnir geta verið og hvernig þeir tengjast innbyrðis. Það að kalla eitthvað fjólugult er brot á reglum okkar um litina. Það má svo sem kalla eitthvað fjólugult en við erum þá ekki að tala um lit í þeim skilningi sem við höfum komið okkur saman um að leggja í það orð. Ýmislegt fleira brýtur reglur okkar um liti, til að mynda "bæði rautt og blátt en jafnframt einlitt." Svo má ekki gleyma þeim ótal lýsingarorðum sem ná yfir eitthvað annað en liti. Til að mynda getur ekkert verið kringlótt á litinn og ekki getur neitt heldur verið svangt á litinn. Lesendur geta svo leikið sér að því að hugsa upp fleiri slík dæmi.
Hvernig er ekkert á litinn?
Ekkert er væntanlega litlaust. Ef við gerum ráð fyrir að "ekkert" hljóti að vera það sem er ekki neitt, þá hefur það ekki lit. Þetta þýðir þó ekki að þetta ekkert sé gegnsætt, þar sem orðið gegnsætt felur í sér að til staðar sé einhver hlutur sem við sjáum gegnum. Ekkert er sem sagt litlaust, en samt ekki glært eða gegnsætt. Ekkert er svart. Við sjáum liti þegar ljós endurvarpast af hlutum. Svartir hlutir eru þeir sem endurvarpa engu (eða nánast engu) ljósi. Það sem er ekki neitt endurvarpar engu ljósi og hlýtur því að vera svart. Þessu til stuðnings má benda á að í myrkri sjáum við ekkert og myrkur sýnist einmitt svart. Hér bendir ritrýnir á að það er ekki eina einkenni svartra hluta að endurvarpa engu, heldur ekki síður hitt að drekka í sig alla geislun sem á þá fellur. Þar sem ekkert getur varla drukkið neitt í sig sýnist honum/henni að það geti ekki verið svart. Með tilliti til þessarar athugasemdar ritrýnis setjum við því fram nýja tilgátu: ekkert er hvítt. Hvítir hlutir endurvarpa ljósi af öllum bylgjulengdum vegna þess að yfirborð þeirra drekkur ekki í sig ljós af neinni bylgjulengd. Það sem er ekki neitt drekkur ekki í sig ljós af neinni bylgjulengd og þar af leiðandi hlýtur það að vera hvítt. Aftur er hinn smámunasami ritrýnir óánægður og gerir þá athugasemd að ekkert geti varla endurvarpað neinu, hvorki ljósi né öðru. Þess vegna sýnist honum/henni að ekkert geti ekki verið hvítt þar sem hvítir hlutir endurvarpa ljósi. Þar höfum við það: ekkert er hvorki svart né hvítt. Líklega er þá upphaflega tilgátan, sú að ekkert sé litlaust, sennilegust. Þó er á henni sá galli að það er ýmislegt sem er litlaust sem er samt sem áður eitthvað en ekki ekkert. Ef til er eitthvað sem heitir réttlæti hefur það til dæmis engan lit, eins má nefna þjóðarstolt Íslendinga, hugsanir okkar og símanúmer leigubílastöðva. Þetta eru allt saman litlaus fyrirbæri og því getur verið villandi að segja að ekkert sé litlaust þar sem fólk gæti þá ályktað að ekkert eigi eitthvað sameiginilegt með ofangreindum hlutum. Besta tilgátan um litinn á engu er eftir allt saman kannski þessi: Þar sem ekkert er ekki til og er í eðli sínu ekki neitt er ekkert vit í að reyna að lýsa því. Lýsingar á því hljóta alltaf í besta falli að vera ósannar og í versta falli merkingarlausar. Það að segja "ekkert er appelsínugult með bleikum doppum" er því ekkert verra en að segja "ekkert er litlaust" þar sem báðar staðhæfingarnar fela í sér þau mistök að reynt er að lýsa einhverju sem engin lýsing getur átt við. Í svörunum hér að ofan hefur spurningin "hvernig er ekkert á litinn?" verið túlkuð sem "hvernig er það sem er ekki neitt á litinn?" en hana má líka skilja öðruvísi. Spyrjandi er kannski að velta því fyrir sér hvaða litur það er sem enginn hlutur hefur. Sem svör við því má nefna fjólugulan, appelsínubláan og rauðgrænan. Ef einhver heldur því fram að hlutur sé fjólugulur (gulur með fjólubláum blæ) á litinn hlýtur viðkomandi að segja ósatt. Enginn hlutur í heiminum getur nokkurn tíma verið fjólugulur á litinn. Þetta kemur til af því að í hugum okkar gilda reglur um það hvernig litirnir geta verið og hvernig þeir tengjast innbyrðis. Það að kalla eitthvað fjólugult er brot á reglum okkar um litina. Það má svo sem kalla eitthvað fjólugult en við erum þá ekki að tala um lit í þeim skilningi sem við höfum komið okkur saman um að leggja í það orð. Ýmislegt fleira brýtur reglur okkar um liti, til að mynda "bæði rautt og blátt en jafnframt einlitt." Svo má ekki gleyma þeim ótal lýsingarorðum sem ná yfir eitthvað annað en liti. Til að mynda getur ekkert verið kringlótt á litinn og ekki getur neitt heldur verið svangt á litinn. Lesendur geta svo leikið sér að því að hugsa upp fleiri slík dæmi.
Útgáfudagur
8.9.2002
Spyrjandi
Sólveig Hauksdóttir, f. 1988
Tilvísun
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvernig er ekkert á litinn?“ Vísindavefurinn, 8. september 2002, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2692.
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2002, 8. september). Hvernig er ekkert á litinn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2692
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvernig er ekkert á litinn?“ Vísindavefurinn. 8. sep. 2002. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2692>.