Hvar og hvenær voru hnífapörin fundin upp og hvenær fór almenningur að nota þau?Yfirleitt er átt við hníf og gaffal þegar talað er um hnífapör, þó skeiðar séu stundum taldar með eins og lesa má um í svari Guðrúnar Kvaran við spurningunni Af hverju tölum við um hnífapör en ekki gafflapör? Í þessu svari munum við skoða uppruna allra þriggja, það er hnífs, gaffals og skeiðar. Ekki er hægt að rekja uppruna hnífaparanna til ákveðinna einstaklinga þar sem um langa þróun er að ræða. Talið er að skeiðin hafi fyrst komið til sögunnar þar sem hendur manna gátu komið í stað hnífs og gaffals en erfiðara er að nota þær til að halda vökva á sínum stað. Fyrir hundruðum þúsunda ára voru skeljar og dýrahorn forverar skeiðarinnar. Forn-Egyptar voru líklega fyrstir til að nota skeiðar líkar þeim sem við þekkjum í dag. Þær voru til dæmis gerðar úr dýrabeinum, tinnusteini og viði. Á eftir skeiðinni kom hnífurinn fram, einnig fyrir hundruðum þúsunda ára. Hnífurinn var raunar aðaláhaldið við matarborðið, fyrir utan hendurnar, langt fram eftir öldum. Hnífurinn var einnig notaður til veiða og það hefur því ef til vill legið beint við að nota hann einnig til að borða bráðina. Fundist hafa beittir steinar, líkir hnífsblöðum, sem notaðir hafa verið til veiða fyrir um 500.000 árum. Þeir eru því eldri en elstu þekktu áhöldin sem notuð voru í sama tilgangi og skeiðar. Ekki er þó vitað hvort steinarnir hafi verið notaðir í annað en veiðar. Gaffallinn hefur verið þekktur að minnsta kosti frá tímum Rómverja þó hann hafi ekki náð almennri útbreiðslu fyrr en á 16. öld. Nokkurs konar lítil heykvísl var þó notuð lengi vel til að bera fram heitt kjöt og annan mat sem hægt var að stinga í. Það var ekki fyrr en á 17. öld sem gaffallinn fór að þykja mönnum sæmandi en eftir það má segja að hnífapörin eins og við þekkjum þau í dag hafi tekið að líta dagsins ljós. Gafflar voru þó ekki orðnir algengir í Bandaríkjunum fyrr en um 1850. Hnífapör eru þó ekki notuð alls staðar í heiminum og til dæmis eru matprjónar mikið notaðar í Asíu. Heimildir:
- Spoon - Wikipedia. (Skoðað 06.07.2017).
- Knife - Wikipedia. (Skoðað 06.07.2017).
- Fork - Wikipedia. (Skoðað 06.07.2017).
- cutlery | Britannica.com. (Skoðað 06.07.2017).
- Knives and Spoons Are Ancient. Not Forks. - Slate. (Skoðað 06.07.2017).
- Of Knives and Forks - Hungry History. (Skoðað 06.07.2017).
- A History of Western Eating Utensils, From the Scandalous Fork to the Incredible Spork | Arts & Culture | Smithsonian. (Skoðað 06.07.2017).
- Oldest Stone Blades Uncovered | Science | AAAS. (Skoðað 06.07.2017).
- Spoon - Wikipedia. Myndrétthafi er Rama. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 06.07.2017).
- Cutlery - Wikipedia. Myndrétthafi er Hopefulromntic. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 06.07.2017).
Þetta svar er eftir nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2017.