Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Einhverjar breytingar hafa orðið á öllum þáttum tungumálsins frá forníslensku og fram á okkar daga, mismiklar þó. Skipta má þessum þáttum í orðaforða, orðmyndun, hljóðkerfi og beygingarkerfi. Ýmsar breytingar hafa einnig orðið á setningagerð og er um það efni vísað til bókarinnar Íslensk tunga III eftir Höskuld Þráinsson og fleiri.
Ef fyrst er litið á orðaforðann, sem tungumálið er myndað af, hefur hann tekið miklum breytingum frá fornmáli til nútímamáls. Með orðaforða tungumáls er átt við öll þau orð sem eru eða hafa verið notuð á tilteknum tíma. Oft er talað um orðaforða fornmáls og orðaforða nútímamáls þegar fjallað er um orðanotkun á ákveðnu tímabili en öll eru þessi orð hluti af sögulegum orðaforða tungunnar. Þau orð sem verið hafa í málinu frá upphafi og eru sameiginleg öðrum skyldum málum eru nefnd erfðaorð.
Íslenskt mál hefur orðið fyrir margvíslegum áhrifum á löngum tíma, bæði utanaðkomandi og vegna þjóðfélagsbreytinga. Ný orð hafa stöðugt bæst við orðaforðann, jafnt tökuorð sem nýyrði. Með tökuorðum er átt við orð sem eitt tungumál fær að láni hjá öðru. Sum þessara orða geta aðlagast málinu vel eins og dúkur og klæði, önnur eru framandlegri eins og vídeó og stereó.
Ýmislegt veldur því að orðaforðinn breytist. Sum orð missa merkingarsvið sitt og úreldast. Vinnuaðferðir, tæki og tól breytast og orðin falla í gleymsku. Í öðrum tilvikum er þörf á nýjum orðum yfir ný hugtök. Þetta sést afar vel ef bornar eru saman orðabók yfir forna málið og orðabók yfir samtímamálið.
Íslenskar orðmyndunarreglur eru að mestu leyti hinar sömu nú og í forna málinu. Um er að ræða grunnorð, það er orð sem hvorki er afleitt né samsett, afleidd orð, það er orð sem leidd eru af öðrum orðum með forskeyti og/eða viðskeyti og samsett orð sem mynduð eru af tveimur eða fleiri rótum. Helstu breytingar í orðmyndun felast í notkun forskeyta og viðskeyta sem einu nafni nefnast aðskeyti. Sum aðskeyti eru ekki lengur notuð í virkri orðmyndun þótt þau séu notuð í lærðri orðmyndun eins og viðskeytið –ald í folald, gímald, kerald og í nýyrðinu mótald fyrir módem. Önnur, sem ekki voru notuð í fornu máli eru virk í nútímamáli eins og –ó í styttingunum menntó, kvennó, versló og mörgum fleiri.
Einna mestar breytingar hafa orðið á hljóðkerfi málsins. Í elsta skeiði íslensku er talið að 27 mismunandi sérhljóð hafi verið í málinu auk tvíhljóðanna au, sem líklegast hefur verið borið fram eins og á nú, ei sem borið var fram sem ei nú og ey sem líklegast hefur verið borið fram sem au nú. Aðgreinandi þættir voru til dæmis hljóðlengd og löngu sérhljóðin voru ýmist kveðin í nef eða munn. Helst er unnt að styðjast við rím og bragfræðileg atriði í skáldskap og við stafsetningu handrita þegar ályktað er um fornan framburð. Íslendingar búa svo vel að eiga góða lýsingu á framburði í svokallaðri Fyrstu málfræðiritgerð frá miðri 12. öld sem er ómetanleg heimild varðandi sögu íslenska hljóðkerfisins.
Þegar á 12. öld fór sérhljóðum að fækka. Þá misstu til dæmis nefkveðnu sérhljóðin sitt hlutverk og ýmis sérhljóð féllu saman. Um 1200 er talið að sérhljóðin hafi verið 16 auk tvíhljóðanna þriggja. Áfram fækkaði þeim er fram liðu stundir. Stutt og langt y, ý og ey afkringdist og þau féllu saman við i, í og ei. Þessi breyting hófst á síðari hluta 15. aldar og henni var að mestu lokið um 1700. Þá voru sérhljóðin orðin 14. Einföldun sérhljóðakerfisins hafði í för með sér breytingar á framburði einstakra hljóða. Sérhljóð sem voru mismunandi að lengd en höfðu sama hljóðgildi breyttust að hljóðgildi þannig að fleira greindi þau að en lengdin ein. Þannig varð til dæmis munur á myndunarhætti i og í eins og finna má með því að bera sérhljóðin fram hvort um sig.
Á 16. öld varð talsverð breyting sem nefnd hefur verið hljóðdvalarbreytingin.
Hún fór af stað eftir að breyting var orðin á framburði sérhljóðanna. Eftir breytinguna gátu áhersluatkvæði verið stutt (stutt sérhljóð og stutt samhljóð á eftir (lak)) eða löng (langt sérhljóð og eitt eða fleiri samhljóð á eftir (kápa, slæddi, rýndi)) eða sérhljóð gat verið stutt og á eftir fór langt samhljóð eða samhljóðaklasi (kenni, seldi). Eftir hljóðdvalarbreytinguna voru sérhljóðin í málinu ýmis stutt eða löng í áhersluatkvæði og lengdin fór eftir því sem á eftir fór.
Ýmsar stöðubundnar breytingar urðu á sérhljóðum. Þær verða þó ekki raktar hér en þeim sem vilja lesa meira er bent á grein Stefáns Karlssonar ,,Tungan“ sem birtist í afmælisriti hans Stafkrókar 2000:19–75.
Samhljóðakerfið er að mestu hið sama og í fornu máli en talsverðar breytingar hafa orðið á framburði einstakra samhljóða eftir því hvert umhverfi þeirra er.
Beygingarkerfið sjálft er að mestu leyti hið sama og í fornu máli þótt einstök orð hafi flust milli beygingarflokka, nafnorð, lýsingarorð og sagnir. Ein mesta breyting á formkerfinu varð þegar sérstök tvítala persónufornafna var ekki lengur notuð í daglegu máli. Áður var við og þið (vit og þit), okkar og ykkar (okkarr og ykkarr) notað um tvo, vér og þér (vér og ér), vor og yðar (várr og yðvarr) um fleiri en tvo. Aðgreiningin hélst að mestu fram á 17. öld, sums staðar þó lengur og í Biblíunni fram til 2007 að breytt var að hluta.
Í stað gömlu eignarfornafnanna okkarr, ykkarr og yðvarr var farið að nota eignarfall samsvarandi persónufornafna og var sú breyting um garð gengin þegar á 16. öld.
Ýmsar áhrifsbreytingar hafa orðið í persónubeygingu sagna frá fornmáli til nútímamáls og endingar miðmyndar hafa tekið allmiklum breytingum Miðmynd endaði um 1200 á –umk í 1. persónu þar sem –mk er til orðið úr mik (nú mig) en -sk, -zk, úr sik, í öðrum beygingarmyndum. Fljótlega upp úr 1200 fær 1. persóna einnig endinguna –sk, -zk. Um 1300 er hætt að nota –sk en –z í staðinn. Á 14. öld koma fram endingarnar –zt og –zst en á 15. öld verður endingin –zt einráð að kalla. Breytingin er því í frá 13. og fram á 15. öld þessi í 1. persónu: berjumsk > berjumzk > berjumz > berjumzt. Á 15. öld koma fram nýjar endingar, -nzt og –zt og síðar –nst og –st, berjunst, berjust. Á 17. öld var farið að bæta við endinguna –st þannig að hún varð –ustum (berjustum) og varð hún ríkjandi í talmáli og lifir eitthvað enn. Málhreinsunarmenn á 18. öld endurvöktu gömlu miðmyndarendinguna –umst og er það sú ending sem ríkjandi er í dag (köllumst, komumst, hittumst og svo framvegis).
Um allt það efni sem hér hefur verið drepið á má benda á bækurnar Íslensk tunga I–III sem komu út hjá Almenna bókafélaginu 2005. Í I. bindi eftir Kristján Árnason og Jörgen Pind er fjallað um hljóðkerfið að fornu og nýju. Í II. bindi eftir Guðrúnu Kvaran er rætt um orðaforðann og sögu hans, íslenska orðmyndun að fornu og nýju og beygingarkerfið að fornu og nýju. III. bindi eftir Höskuld Þráinsson og fleiri fjallar um setningafræði frá ýmsum hliðum.
Guðrún Kvaran. „Á hvaða sviði málfræðinnar hafa mestar breytingar orðið frá forníslensku til dagsins í dag?“ Vísindavefurinn, 7. janúar 2008, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6986.
Guðrún Kvaran. (2008, 7. janúar). Á hvaða sviði málfræðinnar hafa mestar breytingar orðið frá forníslensku til dagsins í dag? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6986
Guðrún Kvaran. „Á hvaða sviði málfræðinnar hafa mestar breytingar orðið frá forníslensku til dagsins í dag?“ Vísindavefurinn. 7. jan. 2008. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6986>.