Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um rauðpöndur?

Jón Már Halldórsson

Rauðpandan (Ailurus fulgens) sem einnig er kölluð litla panda er smávaxin tegund af ætt rauðpanda (Ailuridae). Hún hefur einnig stundum verið kölluð kattbjörn þar sem hún minnir um margt á kött bæði í útliti og atferli. Hún var áður flokkuð til ættar hálfbjarna, en náttúrufræðingar töldu lengi vel að rauðpandan og risapandan (Ailuropoda melanoleuca) væru náskyldar tegundir. Rauðpandan gekk því lengi undir heitinu “litla pandan”. Frekari rannsóknir á erfðafræði þessara dýra leiddu í ljós að þessar tvær tegundir eru í raun fjarskyldar. Risapandan tilheyrir nú bjarnarætt en litla pandan eða rauðpandan er flokkuð í sér ætt.

Útlit og einkenni

Rauðpandan er mjög loðin með þéttan og mjúkan feld. Eyrun eru stíf og útstæð líkt og á ketti og augun stór. Fætur rauðpöndunnar eru stuttir og sterkbyggðir og er hún með klær sem hún getur dregið inn að hluta. Rauðpandan er ilfeti líkt og aðrir hálfbirnir og birnir og er afar flink við að klifra í trjám. Hún er gljárauð eða rauðbrún að ofan en svört að neðan. Þetta litarfar kalla dýrafræðingar öfugt litamynstur, það er þegar dýr eru dekkri að neðan en ofan. Þetta er frekar óalgengt litarfar en þekkist þó meðal nokkurra annarra tegunda svo sem hjá greifingjum og hömstrum.

Rauðpandan er með hvítar augabrúnir og út frá þeim eru hvítar rákir sem ná út á kinnar. Hún er einnig með hvítt inni í eyrunum. Augu og snoppa eru kolsvört sem gerir allt andlitsfall dýrsins afar sérkennilegt og fallegt. Gangþófar rauðpöndunnar eru afar loðnir líkt og hjá hvítabjörnum. Þetta einnkeni er talið vera aðlögun að því að ganga á blautum trjágreinum og svellbunkum í klettum háfjallanna.



Myndin sýnir útbreiðslusvæði rauðpöndunnar

Útbreiðsla

Rauðpandan lifir í suðurhluta Himalajafjalla og í fjallgörðum í Bútan, Nepal og norðurhluta Indlands. Einnig finnast stofnar í Búrma og í suðvesturhluta Kína í Yunan og Sezhwan fylkjum.

Kjörlendi rauðpöndunnar eru bambusskógar í 1800 til 4000 metra hæð yfir sjávarmáli. Rauðpandan er breytileg að stærð eftir búsvæði og eru minnstu dýrin vestast á útbreiðslusvæði hennar og verða þau stærri eftir því sem austar dregur. Stærstu rauðpöndurnar er að finna í Kína.

Lifnaðarhættir

Það er nokkuð breytilegt á hvaða tíma dags rauðpandan er mest á ferli. Þetta fer einkum eftir fæðuframboði, veðurfari eða hvort um er að ræða kvendýr með unga. Undir venjulegum kringumstæðum er rauðpandan mest á ferli í ljósaskiptunum við sólarupprás eða sólarlag og svo eitthvað fram í myrkur.

Rauðpandan gerir sér bæli í barrtrjám og heldur þar til yfir daginn. Oft hringar hún sig saman eins og köttur og notar þá stórt skottið ýmist sem kodda eða breiðir það eins og ábreiðu yfir hausinn. Líkt og kettir byrjar rauðpandan venjulega á að sleikja sig hátt og lágt þegar hún vaknar.



Rauðpandan á auðvelt með klifra í trjám en hún er með hvassar samsíða klær sem mynda eins konar kamb á þófunum.

Bambussprotar eru helsta fæða rauðpöndunnar líkt og risapöndunnar. Hér er því um hliðstæða þróun að ræða í fæðunámi og er þetta stór ástæða þess að dýrafræðingar töldu þessar tegundir vera skyldari en raun bar vitni. Auk bambusins á rauðpandan það til að éta fuglsegg, skordýr og jafnvel smávaxin nagdýr.

Rauðpandan er vön svölu og röku fjallalofti og er því tiltölulega viðkvæm fyrir hita. Ef heitt er í veðri leitar hún skjóls undir greinum, í holum trjám eða í klettaskorum. Oft liggur rauðpandan í makindum sínum á daginn á trjágreinum þar sem hún teygir úr sér og vegur salt. Þetta háttalag hefur gert rauðpönduna að einu vinsælasta dýri í dýragörðum um allan heim.

Afræningjar

Helsti afræningi rauðpöndunnar er snæhlébarðinn (Panthera uncia). Ef styggð kemur að rauðpöndunni reynir hún venjulega að flýja upp í tré. Hvassar klær hennar eru jafnar og hliðstæðar og mynda þannig beittan kamb sem auðvelda henni að hlaupa upp trjástofna. Rauðpandan getur einnig stokkið mjög hátt í loft upp, jafnvel allt að 1,5 m.

Ef rauðpöndunni er ógnað og hún sér ekki færi á að flýja rís hún upp á afturfæturna og reynir að klóra árásaraðilann. Þetta háttalag hefur oft þótt minna á hnefaleikamann í bardaga.

Verndun og ástand

Rauðpöndum hefur fækkað mikið undanfarin 30 ár vegna búsvæðaeyðingar, ólöglegra veiða og samkeppni við búfé um fæðu. Einnig færist það sífellt í vöxt að rauðpöndur endi lífdaga sína í gildrum sem lagðar eru fyrir moskus dádýr sem lifa víða á útbreiðslusvæði hennar. Rauðpandan er nú skráð hjá válista IUCN samtakanna sem í hættu (e. endangered).

Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:

Heimildir:
  • Gittleman, J. 1993. Carnivore Behavior, Ecology and Evolution. Cornell University Press.
  • Wilson, D. E., D. M. Reeder. 1993. Mammalian Species of the World: A Taxonomic and Geographic Reference. Smithsonian Institution Press, Washington.
  • Animal Diversity Web
  • IUCN Redlist

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

16.12.2007

Spyrjandi

Inga Bjarndís Ágústsdóttir

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um rauðpöndur?“ Vísindavefurinn, 16. desember 2007, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6963.

Jón Már Halldórsson. (2007, 16. desember). Hvað getið þið sagt mér um rauðpöndur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6963

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um rauðpöndur?“ Vísindavefurinn. 16. des. 2007. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6963>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um rauðpöndur?
Rauðpandan (Ailurus fulgens) sem einnig er kölluð litla panda er smávaxin tegund af ætt rauðpanda (Ailuridae). Hún hefur einnig stundum verið kölluð kattbjörn þar sem hún minnir um margt á kött bæði í útliti og atferli. Hún var áður flokkuð til ættar hálfbjarna, en náttúrufræðingar töldu lengi vel að rauðpandan og risapandan (Ailuropoda melanoleuca) væru náskyldar tegundir. Rauðpandan gekk því lengi undir heitinu “litla pandan”. Frekari rannsóknir á erfðafræði þessara dýra leiddu í ljós að þessar tvær tegundir eru í raun fjarskyldar. Risapandan tilheyrir nú bjarnarætt en litla pandan eða rauðpandan er flokkuð í sér ætt.

Útlit og einkenni

Rauðpandan er mjög loðin með þéttan og mjúkan feld. Eyrun eru stíf og útstæð líkt og á ketti og augun stór. Fætur rauðpöndunnar eru stuttir og sterkbyggðir og er hún með klær sem hún getur dregið inn að hluta. Rauðpandan er ilfeti líkt og aðrir hálfbirnir og birnir og er afar flink við að klifra í trjám. Hún er gljárauð eða rauðbrún að ofan en svört að neðan. Þetta litarfar kalla dýrafræðingar öfugt litamynstur, það er þegar dýr eru dekkri að neðan en ofan. Þetta er frekar óalgengt litarfar en þekkist þó meðal nokkurra annarra tegunda svo sem hjá greifingjum og hömstrum.

Rauðpandan er með hvítar augabrúnir og út frá þeim eru hvítar rákir sem ná út á kinnar. Hún er einnig með hvítt inni í eyrunum. Augu og snoppa eru kolsvört sem gerir allt andlitsfall dýrsins afar sérkennilegt og fallegt. Gangþófar rauðpöndunnar eru afar loðnir líkt og hjá hvítabjörnum. Þetta einnkeni er talið vera aðlögun að því að ganga á blautum trjágreinum og svellbunkum í klettum háfjallanna.



Myndin sýnir útbreiðslusvæði rauðpöndunnar

Útbreiðsla

Rauðpandan lifir í suðurhluta Himalajafjalla og í fjallgörðum í Bútan, Nepal og norðurhluta Indlands. Einnig finnast stofnar í Búrma og í suðvesturhluta Kína í Yunan og Sezhwan fylkjum.

Kjörlendi rauðpöndunnar eru bambusskógar í 1800 til 4000 metra hæð yfir sjávarmáli. Rauðpandan er breytileg að stærð eftir búsvæði og eru minnstu dýrin vestast á útbreiðslusvæði hennar og verða þau stærri eftir því sem austar dregur. Stærstu rauðpöndurnar er að finna í Kína.

Lifnaðarhættir

Það er nokkuð breytilegt á hvaða tíma dags rauðpandan er mest á ferli. Þetta fer einkum eftir fæðuframboði, veðurfari eða hvort um er að ræða kvendýr með unga. Undir venjulegum kringumstæðum er rauðpandan mest á ferli í ljósaskiptunum við sólarupprás eða sólarlag og svo eitthvað fram í myrkur.

Rauðpandan gerir sér bæli í barrtrjám og heldur þar til yfir daginn. Oft hringar hún sig saman eins og köttur og notar þá stórt skottið ýmist sem kodda eða breiðir það eins og ábreiðu yfir hausinn. Líkt og kettir byrjar rauðpandan venjulega á að sleikja sig hátt og lágt þegar hún vaknar.



Rauðpandan á auðvelt með klifra í trjám en hún er með hvassar samsíða klær sem mynda eins konar kamb á þófunum.

Bambussprotar eru helsta fæða rauðpöndunnar líkt og risapöndunnar. Hér er því um hliðstæða þróun að ræða í fæðunámi og er þetta stór ástæða þess að dýrafræðingar töldu þessar tegundir vera skyldari en raun bar vitni. Auk bambusins á rauðpandan það til að éta fuglsegg, skordýr og jafnvel smávaxin nagdýr.

Rauðpandan er vön svölu og röku fjallalofti og er því tiltölulega viðkvæm fyrir hita. Ef heitt er í veðri leitar hún skjóls undir greinum, í holum trjám eða í klettaskorum. Oft liggur rauðpandan í makindum sínum á daginn á trjágreinum þar sem hún teygir úr sér og vegur salt. Þetta háttalag hefur gert rauðpönduna að einu vinsælasta dýri í dýragörðum um allan heim.

Afræningjar

Helsti afræningi rauðpöndunnar er snæhlébarðinn (Panthera uncia). Ef styggð kemur að rauðpöndunni reynir hún venjulega að flýja upp í tré. Hvassar klær hennar eru jafnar og hliðstæðar og mynda þannig beittan kamb sem auðvelda henni að hlaupa upp trjástofna. Rauðpandan getur einnig stokkið mjög hátt í loft upp, jafnvel allt að 1,5 m.

Ef rauðpöndunni er ógnað og hún sér ekki færi á að flýja rís hún upp á afturfæturna og reynir að klóra árásaraðilann. Þetta háttalag hefur oft þótt minna á hnefaleikamann í bardaga.

Verndun og ástand

Rauðpöndum hefur fækkað mikið undanfarin 30 ár vegna búsvæðaeyðingar, ólöglegra veiða og samkeppni við búfé um fæðu. Einnig færist það sífellt í vöxt að rauðpöndur endi lífdaga sína í gildrum sem lagðar eru fyrir moskus dádýr sem lifa víða á útbreiðslusvæði hennar. Rauðpandan er nú skráð hjá válista IUCN samtakanna sem í hættu (e. endangered).

Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:

Heimildir:
  • Gittleman, J. 1993. Carnivore Behavior, Ecology and Evolution. Cornell University Press.
  • Wilson, D. E., D. M. Reeder. 1993. Mammalian Species of the World: A Taxonomic and Geographic Reference. Smithsonian Institution Press, Washington.
  • Animal Diversity Web
  • IUCN Redlist
...