Svokölluð raftæknistýrð kveikja (e. electronic ignition) var kannski eitt fyrsta skrefið í átt til sjálfstýringar sem byggist á raftækni og tölvutækni nútímans, en hún leysti af hólmi eldri búnað sem var afar erfiður í viðhaldi og rekstri. Um er að ræða stýringuna á því hvenær og hvernig neistinn hleypur í kertið í strokk bílvélarinnar, en það er að sjálfsögðu mikilvægt og fylgir því mikið álag á efnin í kring. Í kjölfarið á nýjum kveikjubúnaði kom svo raftæknistýrð innspýting eða innsprautun (e. injection) á eldsneytinu og þetta hvort tveggja hefur gert bíla til muna sparneytnari en áður, auk þess sem það sparar viðhald. Hemlalæsivörn (ABS, e. anti-lock braking system) er líka eins konar sjálfstýring þar sem raftækni og tölvutækni nútímans koma við sögu. Þessi búnaður kemur í veg fyrir að hjól bílsins fari að renna eða "skrensa" við hemlun. Þegar það gerist verður hemlunin mun minni en ella og bíllinn rennur lengra en ella. Margir lítt vanir bílstjórar átta sig ekki á þessu. Þeim hættir þá til að reyna að "negla" bílinn eins og það er kallað, það er að segja að spyrna hemlafetlinum (e. brake pedal) í botn í þeirri von að bíllinn stöðvist þá nær samstundis. En ef bíllinn svarar því viðbragði með því að læsa öllum hjólum, þá rennur hann enn lengra og verður enn stjórnlausari en ef hemlað er með gætni eða búnaður kemur í veg fyrir að hjólin læsist. Svokölluð spólvörn (e. slip control og fleiri orð) er af svipuðum toga þar sem segja má að sjálfvirkur búnaður í bílnum taki stjórnina af bílstjóranum til þess að gera það sem hann virðist ætlast til en framkvæmir ekki rétt. Þegar menn vilja "taka af stað" með sem mestri hröðun (e. acceleration, það er að segja með sem örastri hraðaaukningu) gefa margir "bensínið í botn" þannig að bíllinn fer að spóla, en þetta verkar þveröfugt: Hröðun bílsins er mest þegar hjólin hafa veggrip en eru þó nálægt því að missa það, og hún er töluvert minni þegar bíllinn spólar. Þess vegna eru margir bílar nú á dögum með raftæknibúnað sem kemur í veg fyrir það að miklu leyti. Raunar er á enn fleira að líta en hemlun og hröðun þegar bíll missir veggrip; þá lætur hann líka verr að stjórn frá stýrinu. Margir kannast við þá reglu að bílstjóri eigi ekki að hemla og beygja samtímis. Hún á rætur að rekja til þess ekki er hægt að hafa áhrif á stefnu bílsins með stýrinu ef hjólin hafa ekki veggrip. Öryggispúðar eða líknarbelgir (e. air bags) eru líka sjálfvirkur búnaður sem stjórnast af hreyfingum bílsins án þess að bílstjórinn komi þar nálægt. Bakkvörn (e. backing sensor og fleiri orð) er ein nýjasta tæknin sem er að ryðja sér til rúms í bílum á markaði þegar þetta er skrifað árið 2007. Þetta er búnaður sem skynjar umhverfi bílsins og segir bílstjóranum til ef komið er of nálægt hlutum kringum bílinn. Þetta getur til dæmis átt við um aðra bíla þegar verið er að bakka í stæði. Enn má nefna búnað sem fáir hafa líklega gert sér grein fyrir ennþá en það er svokölluð raftæknistýrð stöðugleikastýring (e. electronic stability control). Þessi búnaður bregst við þegar bíll fer að haga sér á óæskilegan hátt í beygju og getur þá til dæmis hemlað á einu hjóli til að rétta bílinn af miðað við þá stefnu sem bílstjórinn virðist ætlast til að bíllinn hafi. Einnig getur svipaður búnaður brugðist við því að bíllinn fari að hallast of mikið til hliðar í beygju eða á hallandi undirlagi.
- Hver var fyrstur til þess að fjöldaframleiða bíla? eftir Gylfa Magnússon.
- Hvað eru til margir bílar í öllum heiminum? eftir Gylfa Magnússon.
- Af hverju takast kappakstursbílar ekki á loft þegar þeir eru komnir á fulla ferð? eftir Þorstein Vilhjálmsson.
- Er líklegt að hægt verði að smíða flugbíla í framtíðinni? eftir Þorstein Vilhjálmsson.
Höfundur þakkar Einari Erni Þorvaldssyni aðstoð við fyrstu drög að þessu svari og þeim Ívari Kristleifssyni og Ólafi Torfa Yngvasyni sem skrifað hafa sjálfstætt nemendaverkefni um aflfræði bifreiðar í beygju.