Listamaðurinn tekur svolitla helluflís og kastar henni út á sjó eða vatn. Ef steinninn hoppar eptir yfirborði vatnsins, áður en hann sekkur, þá flytur hann kellíngar og eins margar og steinninn hoppar opt upp. Bezt er að flísarnar séu sem flatastar og sléttastar og verður listamaðurinn að kasta þeim á ská eða með vatnsyfirborðinu, en ekki beint út í það, því þá sekkur steinninn þegar í stað.Ólafur taldi að það væri austfirsk venja að tala um að fleyta kerlingar og ef til vill hefur það verið svo á hans dögum en nú er það samband þekkt um allt land og virðist algengara en að flytja kerlingar.
Í seðlasafni Orðabókar Háskólans eru dæmi um bæði samböndin frá lokum 19. aldar og er þar oft um að ræða víðari merkingu, til dæmis að bátur fleyti kerlingar á sjó ef öldugangur er mikill. Ólafur Davíðsson gefur þá skýringu á orðasambandinu að menn teldu að ,,kellíngum hæfði ekki betri flutningur“ og er líklegast eitthvað til í því. Til eru dæmi um að steinninn, eða helluflísin eins og Ólafur nefndi hann, sé nefndur kerling og er þá hugsunin að koma kerlingunni sem lengst. Þess má geta að Ólafur hefur eftir heimildarmanni að það sé líka nefnt að flytja eða fleyta kerlingar þegar róðrarmaður dettur aftur fyrir sig af þóftunni við það að árin hljóp upp úr keipnum eða árartakið varð of grunnt. Mynd: Picasa Web Albums - Phillus.
Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hvers vegna talar maður um að "fleyta kerlingar", þegar maður lætur steina skoppa á vatnsfleti?