Hver, ef einhver, er helsti munurinn á atómljóðum annars vegar og prósaljóðum hins vegar?Í stuttu máli er helsti munurinn sá að prósaljóð er alþjóðlegt hugtak en atómljóð séríslenskt. Hugtakið prósaljóð er alþjóðlegt hugtak um skáldlegan texta sem ekki er á bundnu máli. Eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvað er prósaljóð? eru fyrstu nútímaprósaljóðin frá miðri 19. öld en fyrirrennara þeirra er að finna bæði hjá forverum rómantísku stefnunnar og rómantískum skáldum. Hugtakið atómljóð eða atómkveðskapur er hins vegar einskorðað við íslenskar bókmenntir. Það kemur fyrst fram í skáldsögu Halldórs Laxness, Atómstöðinni árið 1948 og vísar til ákveðins skeiðs í íslenskri bókmenntasögu. Eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvað er átt við með hugtakinu atómskáld? er það aðallega notað um skáldskap eftir höfundana Stefán Hörð Grímsson (1919-2002), Hannes Sigfússon (1922-1997), Sigfús Daðason (1928-1996), Einar Braga (1921-2005) og Jón Óskar (1921-1998).
- Kendra Jean Willson (26.04.2018). Splitting the Atom, í Orð og tunga. (Sótt 18.09.2023).