Orðið atómskáld hef ég ekki búið til, ég heyrði það fyrst af vörum eins vinar míns. Það táknar yngsta hóp skálda vorra, sem hafa tileinkað sér nýjan stíl í ljóðagerð. Orðið atóm bendir fyrst og fremst til hins nýja tíma, því næst til tíma tilraunanna og tæknilegra framfara.[1]Sveinn átti raunar sjálfur eftir að nota hugtakið á neikvæðari hátt og gagnrýna ungu skáldin fyrir innihaldsleysi og fylgispekt við erlenda tískustrauma. Hugtakið „atómskáld“ hefur verið notað í fræðilegri umræðu um íslenska bókmenntasögu æ síðan, sem og í daglegu máli. Eysteinn Þorvaldsson (1932-2020) skrifaði árið 1980 bók sem nefndist Atómskáldin þar sem hann færir rök fyrir því að hin réttnefndu atómskáld séu Stefán Hörður Grímsson (1919-2002), Hannes Sigfússon (1922-1997), Sigfús Daðason (1928-1996), Einar Bragi (1921-2005) og Jón Óskar (1921-1998). Þessi afmörkun Eysteins hefur orðið býsna lífsseig í bókmenntasöguritum og kennslubókum.
- ^ Sveinn Bergsveinsson, „Sigfús Elíasson og atómskáldin“, Líf og list 1.6 1950, bls. 16.