Þú ert hreinlífis dygðar dúfa, / dóttir guðs og lækning sótta, / giftu vegur og geisli lofta, / gimsteinn brúða og drottning himna, / guðs herbergi og gleyming sorga, / gleðinnar past og eyðing lasta / líknar æður og lífgan þjóða, / lofleg mær, þú ert englum hærri.[1]Eins og þetta erindi er kvæðið allt mikið listaverk enda var lengi haft á orði að „allir vildu Lilju kveðið hafa“. Orðatiltækið gæti annaðhvort bent til þess að önnur skáld hafi reynt að stæla Lilju eða átt sér þann draum að geta ort á borð við Eystein munk. Ljóst er að Eysteinn var ekki einungis gott skáld heldur einnig hálærður. Þekking hans á öðrum kveðskap kemur fram í því að Lilja þykir að mörgu leyti hefðbundið helgikvæði þótt það sé á hinn bóginn sérlega vel ort. Ekki er vitað nákvæmlega hvaða ár Eysteinn orti Lilju en þar sem mikillar iðrunar gætir í kvæðinu gæti hann hafa ort það í afplánun sinni í Þykkvabæjarklaustri - að því gefnu að um sama mann sé að ræða. Bent hefur verið á að áhrifa frá Lilju gæti í Guðmundardrápu (Guðmundarkvæði biskups) eftir Arngrím Brandsson sem hann orti árið 1345 og muni Lilja þá væntanlega vera eldri. Það er engu að síður erfitt að útiloka þann möguleika að Eysteinn hafi orðið fyrir áhrifum frá Arngrími en ekki öfugt. Vegna yfirburða Lilju er þó yfirleitt talið að drápa Arngríms bergmáli hina. Af öðrum kvæðum sem hafa greinilega orðið fyrir áhrifum frá Lilju má nefna Guðmundardrápu eftir Árna Jónsson (d. e. 1379) ábóta á Munkaþverá. Þriðja skáldið, Einar Gilsson (d. 1369), orti tvö kvæði um Guðmund biskup og af þessu má ljóst vera að Guðmundur hefur höfðað mjög til hinna lærðu skálda. Um Eystein er fjallað nánar í svari við spurningunni Hver var Eysteinn Ásgrímsson sem talinn er höfundur helgikvæðisins Lilju? Tilvísun:
- ^ Chase, Martin (útg.), „Anonymous, Lilja,“ Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages: Poetry on Christian Subjects II, Margaret Clunies Ross (ritstj.), Turnhout 2007, 662.
- ÍB 200 8vo | Handrit.is. (Sótt 23.11.2022).