Ef að tveir menn lenda í slagsmálum og valda jafnmiklum áverkum á hvorn annan, geta báðir kært og fengið jafnþungan dóm hvor um sig eða teljast þeir kvittir?Hér er spurt um slagsmál eða einhvers konar líkamsárás tveggja aðila og þá koma til skoðunar greinar nr. 217 og 218 í almennum hegningarlögum. Mál sem varða almenn hegningarlög sæta málsmeðferð á grundvelli laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og það er því ákæruvaldið sem sækir þau. Einstaklingar sem taka þátt í slagsmálum hafa því ekki tök á að fara í einkamál við aðra sem tóku þátt í áflogunum. Bardagamennirnir gætu hins vegar kært líkamsárás til lögreglu og þá gæti ákæruvaldið gefið út ákæru vegna refsiverðs verknaðs. Sökin myndi ekki falla niður milli þeirra tveggja, enda eru ofbeldisbrot af þessu tagi talin annars eðlis en til dæmis einkamál um greiðslu skuldar sem mætti afgreiða með skuldajöfnuði aðilanna. Bardagamennirnir gætu hins vegar hafa samþykkt að taka þátt í slagsmálunum og gert sér grein fyrir hættunni. Slíkt samþykki gæti skv. 2. mgr. 218. gr. c almennra hegningarlaga, orðið til refsilækkunar eða valdið því að ekki sé refsað fyrir verknaðinn ef afleiðingar líkamsárásarinnar eru ekki alvarlegar.
- 19/1940: Almenn hegningarlög. (Sótt 25.11.2021).
- Jónatan Þórmundsson. Afbrot og refsiábyrgð III. Háskólaútgáfan 2004. 175-176.
- File:Street fighting.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 25.11.2021).