Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hver er saga sælgætismolanna "Mackintosh" (Quality Street) hér á Íslandi. Það er hvenær byrjaði innflutningur á þeim og var það aðeins tengt jólunum? Okkur langar svo að vita þetta í sögulegu samhengi, þar sem við erum með endurminningahópa á öldrunarheimilum og gaman er að rifja upp þær minningar sem fólk á tengt þessum sælgætismolum og dósunum sem þeir komu í, sem vekja oft upp minningar.
Velflestir Íslendingar kannast við Mackintosh-sælgætið, það er áberandi í kringum jól, vinsælt í skreytingar á kransakökum og boðið upp á það við ýmis tækifæri. Dósirnar undan Mackintoshi eru líka til á mörgum heimilum og gjarnan notaðar undir smákökur eða annað góðgæti. Mackinthos heitir í raun Quality Street eins og fram kemur á öllum umbúðum þess, en á Íslandi skapaðist fljótt sú hefð að kenna sælgætið við fyrirtækið sem framleiddi það í upphafi. Í þessu svari verður íslenska hefðin notuð.
Eitt af því sem hefur skapað Mackintosh sérstöðu eru myndskreyttar dósirnar sem hægt er að nota löngu eftir að síðasti molinn hefur verið borðaður.
Beint eða óbeint má rekja sögu Mackintosh-sælgætisins allt aftur til ársins 1890 þegar John nokkur Mackintosh ásamt konu sinni Violet, hóf framleiðslu á karamellum í bænum Halifax í Yorkshire á Englandi. Karamellurnar fengu góðar viðtökur og nokkrum árum seinna hafði starfsemin vaxið það mikið að þau stofnuðu karmelluverksmiðju til þess að sinna framleiðslunni. Fyrirtækið óx og dafnaði næstu áratugi og næsta kynslóð tók við.
Mackintosh-sælgætið kom fyrst á markað árið 1936. Á þeim tíma var konfekt munaðarvara og helst á færi þeirra sem betur voru stæðir að gæða sér á slíku. Harold Mackintosh, sem þá hafði tekið við fyrirtækinu af föður sínum, vildi setja konfekt á markað sem hægt væri að selja á verði sem almúginn réði við. Niðurstaðan varð sú að hjúpa mismunandi karamellur með súkkulaði og nota ódýrar umbúðir þar sem hverjum mola var pakkað þannig að hægt væri að hafa þá lausa í boxinu. Lögð var áhersla á litríkar umbúðir, bæði utan um hvern mola og dósirnar, sem áttu að gefa til kynna gæði og höfða til einhvers konar fortíðarþrár.
Hluti af ímynd Mackintosh eru litríkar umbúðir sælgætismolanna.
Eins og áður sagði þá heitir sælgætið Quality Street alls staðar annars staðar en á Íslandi. Heitið er sótt í samnefnt leikrit eftir J. M. Barrie (1860–1937), en hann er best þekktur í dag sem skapari Péturs Pan. Hugmyndin að parinu sem lengi vel prýddi allar dósir og pakkningar Mackintosh, er sótt í aðalpersónur leikritsins, majórinn Valentine Brown og ungfrúna Phoebe Throssel en parið á boxunum var gjarnan kallað Major Quality og Miss Sweetly.
Sælgætið náði fljótt miklum vinsældum og er með mest selda sælgæti í heimi. Mackintosh-fyrirtækið sameinaðist sælgætisfyrirtækinu Rowntree árið 1969 og lengi eftir það var framleiðslan undir merkinu Rowntree-Mackintosh. Árið 1988 keypti Nestle fyrirtækið Rowntree og nú kemur nafnið Mackintosh hvergi fram á umbúðum sælgætisins. Engu að síður lifir það nafn góðu lífi meðal Íslendinga.
Íslendingar hafa sjálfsagt eitthvað kynnst Mackintoshi á ferðum sínum erlendis, sérstaklega til Bretlands um eða eftir miðja síðustu öld. Í auglýsingu í Morgunblaðinu 8. mars 1946, er kaupmönnum bent á töggur og annað sælgæti frá Mackintosh og hugsanlega er þar átt við Macintosh-sælgætið sem hér er til umfjöllunar. Fyrirtækið framleiddi þó fleiri tegundir sælgætis en Quality Street-konfektið.
Þrátt fyrir þessa auglýsingu var flest erlent sælgæti, þar með talið Mackintosh, sjaldséð í búðum hér á landi og ekki á hvers manns borði. Áratugum saman var Mackintosh líka í hugum margra nátengt heimkomu frá útlöndum og hafði þá verið keypt annað hvort erlendis eða í fríhöfninni eftir að það varð mögulegt. Fríhöfnin var opnuð árið 1958 og fór fljótlega að selja sælgæti, þar á meðal Mackintosh. Hins vegar gátu komufarþegar til landsins ekki átt viðskipti í fríhöfninni fyrr en árið 1970 en þá tók landinn líka heldur betur við sér. Í frétt í Vísi í september 1971 kemur fram að sala á Mackintosh í fríhöfninni hafi verið um þrjú og hálft tonn á mánuði.
Auglýsing í Morgunblaðinu 8. mars 1946. Af þessu má ráða að Íslendingar hafi þekkt til sælgætis frá fyrirtækinu Mackintosh á þessum tíma. Fyrirtækið framleiddi þó fleiri tegundir en Quality Street-konfektið og af auglýsingunni er ekki hægt að ráða hvort þarna er átt við hið eina sanna Mackintosh.
Það hafa þó ekki allir farið löglega leið til þess að koma Mackintoshi inn í landið því frá því segir í frétt í Morgunblaðinu í júní 1971 að lögreglan hafi fundið og gert upptækan ótollskoðaðan varning í bifreið í Reykjavík. Var þar um að ræða 11 kjúklinga og 36 dósir af Mackintosh.
Snemma á 8. áratug síðustu aldar byrjaði aðeins að rýmkast um innflutning á erlendu sælgæti en innflutningur var mjög takmarkaður til að byrja með, kvótar voru í gangi og tollar mjög háir. Það er því ekki ólíklegt að innflutningur hafi að miklu leyti verið tengdur hátíðisdögum fyrst um sinn eins og jólum. Smám saman varð innflutningur þó auðveldari og síðustu áratugi hafa Íslendingar getað keypt eins mikið af Mackintoshi og þá langar í, hvenær sem er og í nánast hverri einustu matvöruverslun. Það breytir því þó ekki að í hugum margra er þetta sælgæti tengt jólum og ræður þar sjálfsagt bæði hefð og markaðssetning.
Heimildir:
Robert Fitzgerald. Markets, Management, og Merger: John Mackintosh & Sons, 1890-1969. The Business History Review Árg. 74, tbl. 4 (Vetur, 2000), bls. 555-609.
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hver er saga Mackintosh-sælgætismolanna (Quality Street) hér á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 23. desember 2014, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68762.
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2014, 23. desember). Hver er saga Mackintosh-sælgætismolanna (Quality Street) hér á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68762
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hver er saga Mackintosh-sælgætismolanna (Quality Street) hér á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 23. des. 2014. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68762>.