Nú vil eg það ráð gefa, að þú vakir í nótt og yrkir lofkvæði um Eirík konung; þætti mér þá vel, ef það yrði drápa tvítug og mættir þú kveða á morgun, er við komum fyrir konung. Svo gerði Bragi, frændi minn, þá er hann varð fyrir reiði Bjarnar Svíakonungs, að hann orti drápu tvítuga um hann eina nótt og þá þar fyrir höfuð sitt; nú mætti vera, að vér bærum gæfu til við konung, svo að þér kæmi það í frið við konung.Lofkvæði um konunga eiga sér fornar rætur, bæði með germönskum þjóðum og öðrum. Erlend hugtök yfir lofkvæði eru 'panegyric' og 'eulogy'. Þau geta bæði merkt lofkvæði og lofræða. Hugtakið eulogy er nú aðallega notað um útfararræður eða eftirmæli. Af þessu má sjá hvaða áhrif stjórnarfar getur haft á einstakar bókmenntagreinar. Fyrr á tíð þegar einveldi var víða við lýði tíðkaðist að flytja lofkvæði eða lofræður um tignarfólk sem gegndi valdamiklum embættum, sér í lagi um einvaldana sjálfa. Nú eru lofræður helst fluttar um þá sem annað hvort falla frá eða láta af sínum embættum. Heimildir:
- Jakob Benediktsson (ritstj.), Hugtök og heiti í bókmenntafræði, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík, 1983.
- Egils saga. (Skoðað 5.12.2014).
- Eric Bloodaxe - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 5.12.2014).