Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fjölmargir hafa sent Vísindavefnum spurningar um það af hverju svo langt er um liðið síðan menn fóru síðast til tunglsins. Á meðal spurninga sem þessu tengjast eru:
Hversu oft hafa menn farið til tunglsins? Ef bara einu sinni 1969, af hverju hafa menn ekki farið aftur?
Af hverju hefur enginn stigið á tunglið í hálfa öld?
Hvers vegna hefur mönnuð geimferja ekki farið til tunglsins síðan Apollo 17 fór?
Fór maður til tunglsins fyrir 50 árum? Ef hann fór af hverju er þá ekki hægt að senda mann til tunglsins í dag?
Gætu menn farið til tunglsins í dag?
Af hverju höfum við ekki sent fleiri fólk til þess að lenda á tunglinu ? Gerðist eitthvað hættulegt þegar fyrst var lent þannig að þau vildu ekki að neinn annar mundi lenda í því sama?
Á tímabilinu frá desember 1968 til desember 1972 fóru Bandaríkjamenn í níu tunglferðir. Í þrígang var farið án þess að lenda á tunglinu (Apollo 8, 10 og 13) en í sex skipti var lent (Apollo 11, 12, 14, 15, 16, 17). Í hverri tunglferð voru þrír geimfarar um borð. Í þau skipti sem lent var á tunglinu stigu tveir geimfaranna á tunglið en sá þriðji flaug geimferjunni á meðan. Í heild hafa því tólf menn gengið á tunglinu.
Bill Anders einn af þremur geimförum um borð í Apollo 8 tók þessa frægu mynd af jarðarupprás 24. desember 1968 í fyrstu tunglferðinni.
Helstu ástæður þess að tunglferðum var hætt eftir árið 1972 eru einkum tvær: Kostnaður og skortur á pólitískum vilja. Í grunninn snerust tunglferðirnar ekki um vísindi heldur að sýna fram á tæknilega yfirburði Bandaríkjanna yfir Sovétríkjunum á tímum kalda stríðsins.
Á árunum eftir seinna stríð hófst mikið kapphlaup milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um að koma mönnum út í geim. Sovétmenn náðu forystunni þegar Yuri Gagarín (1934-1968) var skotið á loft á braut um jörðu í Vostok 1 geimfarinu þann 12. apríl 1961. Skömmu seinna, eða í maí sama ár ávarpaði John F. Kennedy Bandaríkjaforseti báðar deildir Bandaríkjaþings og bað þingið um stórauknar fjárveitingar til geimrannsókna. Hann kvað nauðsynlegt að sameina alla mögulega krafta þjóðarinnar til stórframkvæmda á því sviði enda hefði það sannast að undanförnu hve mikil áhrif geimferðir hefðu í huga manna. Kennedy sagði að áætlanir Bandaríkjanna í geimrannsóknum hefðu verið í endurskoðun en tími væri kominn til að horfa til framtíðar og gera langtímaáætlun til að ná forystunni af Sovétmönnum.
Kennedy gaf þjóðinni níu ár til að ná því markmiði að lenda mönnum á tunglinu og snúa aftur til jarðar heilir á húfi. Hvatning um aukið fjármagn bar árangur og voru framlög til bandarísku geimferðastofnunarinnar stóraukin. Þegar mest lét, árið 1965, fékk NASA 4,5% af bandarískum fjárlögum. Til samanburðar nema fjárveitingar til NASA í dag um 0,5% af heildarfjárlögum Bandaríkjanna.
Eugene Cernan (á þessari mynd) og Harrison Schmitt (myndasmiðurinn) eru síðustu mennirnir sem hafa gengið á tunglinu en þeir voru alls um 75 klukkustundir á tunglinu í desember 1972.
Áætlunin um að komast til tunglsins fékk heitið Apollo. Verkefnið var gríðarlega kostnaðarsamt og var þróun og smíði Satúrnus 5 tunglflaugarinnar stærsti kostnaðarliður þess. Eldflaugin var sú langöflugasta sem menn hafa smíðað og sú eina sem var fær um að flytja menn og búnað til tunglsins. Frá 1972, þegar tunglferðum var hætt, hafa einfaldlega ekki verið til nógu öflugar eldflaugar til að flytja menn til tunglsins.
Mannaðar tunglferðir eru dýrar, sér í lagi þegar hvorki var hægt að endurnýta eldflaugarnar né geimförin. Kostnaður við tunglferðir hleypur því á tugum milljarða Bandaríkjadala og getur verið erfitt fyrir stjórnmálamenn að réttlæta kostnaðinn fyrir skattgreiðendum sem sjá ekki endilega mikilvægi tunglferða eða jafnvel lengri ferða eins og til Mars.
Ný fótspor hafa ekki sést á tunglinu í áratugi. Þetta er hins vegar með fyrstu sporunum sem sáust þar, þau tilheyra Buzz Aldrin.
Milli 1960 og 1970 var pólitískur vilji fyrir tunglferðum og fjárveitingar fylgdu með vegna þess að hagsmunir þjóðarinnar voru undir. Ætlunin var að sýna heiminum fram á tæknilega yfirburði einnar hugmyndafræði yfir annarri. Í dag skortir bæði pólitískan vilja og fjárveitingar fyrir frekari tunglferðum þótt uppi séu áætlanir um að hefja þær aftur með nýjum og öflugum eldflaugum í kringum árið 2025.
Myndir:
Sævar Helgi Bragason. „Af hverju hefur enginn stigið fæti á tunglið í hálfa öld?“ Vísindavefurinn, 29. maí 2020, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68628.
Sævar Helgi Bragason. (2020, 29. maí). Af hverju hefur enginn stigið fæti á tunglið í hálfa öld? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68628
Sævar Helgi Bragason. „Af hverju hefur enginn stigið fæti á tunglið í hálfa öld?“ Vísindavefurinn. 29. maí. 2020. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68628>.