Hver er uppruni orðsins köflótt og til hvaða mynstra nær hugtakið? Getur skákborð verið köflótt?Lýsingarorðið köflóttur er leitt af nafnorðinu kafli 'hluti af einhverju, þáttur í bók, tímabil'. Það er myndað með viðskeytinu –óttur og hljóðvarpi rótarsérhljóðs (a > ö). Orðið virðist ekki gamalt í málinu. Elsta dæmi í ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru frá 1890 og er verið að tala um köflótt rúmteppi. Þá er átt við að teppið sé þannig ofið að mynstrið myndi kafla. Sú merking er mjög algeng þegar átt er við fataefni (til dæmis köflótt pils, köflótt skyrta), áklæði, gluggatjaldaefni, borðdúka og fleira þess háttar. Efnið getur verið stórköflótt eða smáköflótt og allt þar á milli.
Orðið er einnig notað um veður þegar tíð er rysjótt. Ef veður er köflótt skiptast til dæmis á skin og skúrir, rigning og él, kuldakast og hlýindi. Í raun er köflóttur notað um hvað sem er sem skiptist í kafla og þá oft fremur í neikvæðri merkingu. Ef talað er um að bók sé köflótt er ekki átt við að hún skiptist í fyrirfram ákveðna kafla heldur að höfundi hafi tekist misvel upp, efnið stundum gott og stundum síðra. Taflborð skiptist í ákveðna jafnstóra kafla og venjan er að nota um þá kafla orðið reitur. Það á bæði við um skákborð og kotruborð. Engu að síður er hægt að segja að þessi borð séu köflótt, þó að það sé ekki málvenja. Mynd: