Friðun hlébarða er með ólíkum hætti í mismunandi Afríkuríkjum. Á sumum svæðum eru gefnir út veiðikvótar ef menn telja að stofnarnir þoli takmarkaðar veiðar. Veiðimenn vilja yfirleitt eiga eitthvað til minja um veiðina og þá eru dýrin gjarnan stoppuð upp. Ætli menn að flytja uppstoppaðan hlébarða til Íslands þarf að fylgja vottorð um að dýrið hafi verið löglega veitt. Margir hafa gagnrýnt hlébarðaveiðarnar, bæði af siðferðilegum ástæðum og vegna þess að dregið hefur verið í efa að útgefnir kvótar standist vísindaleg rök. Fjölmargir vísindamenn og verndunarsinnar telja að mörg fjárvana Afríkuríki séu beitt þrýstingi af öflugum samtökum veiðimanna. Dæmi eru um að framámenn í Bush-stjórninni hafi beitt stjórnvöld í Botsvana þrýstingi til aflétta veiðibanni á ljónum í landinu. Stjórnvöld létu undan þeim þrýstingi. Flókin hagsmunatengsl eru samofin verndarmálum rándýra víða um heim, ekki síst í Afríku. Mörg svæði í álfunni eru í einkaeigu og menn reka þau með útgáfu veiðikvóta. Ýmislegt jákvætt er við þennan rekstur. Meðal annars skilar hluti af tekjunum sér til samfélaga á þessum svæðum. Einnig felst náttúruvernd í þessu að vissu marki. Menn hafa tekjur af dýralífi og óspilltri náttúru svæðisins og hafa þess vegna ekki hvata til að nýta það á annan hátt, eins og til dæmis sem ræktarland. Veiðar á hlébörðum eru margvíslegar. Sú aðferð sem er hvað ógeðfelldust að mati flestra nefnist á ensku 'canned leopard hunt'. Þá er hlébarðinn lokkaður í búr með tálbeitu og síðan svæfður. Því næst er hlébarðinn fluttur sofandi úr búrinu á meðan veiðimaðurinn kemur sér fyrir í öruggri fjarlægð. Þegar hlébarðinn vaknar hrekja hundar hann upp í tré og þá mundar veiðimaðurinn byssuna og skýtur hlébarðann. Þessar veiðar njóta mikilla vinsælda enn þann dag í dag og eru stundaðar víða um heim á stórum afrískum kattadýrum. Þó að mörg dýr séu friðuð er friðunin oft háð ýmsum skilyrðum. Sum dýr eru alfriðuð sökum þess að þau eru talin vera í útrýmingarhættu, eins og til dæmis tígrisdýr og nashyrningar. Önnur njóta friðunar en gefnir eru út árlegir kvótar sökum veiðihefðar frumbyggja eða vegna sportveiða, eins og gildir til dæmis um hvítabirni og ljón. Friðun er því ekki einsleitt hugtak í verndun dýra og oftar en ekki er friðunin háð milliríkjasamkomulagi. Sá alþjóðasamningur sem hefur hvað mest að segja um friðun dýra er samningur um alþjóðaverslun með dýr og plöntur í útrýmingarhættu. Ísland er eitt þeirra 172 ríkja sem hafa undirritað hann. Í samningnum eru lífverur flokkaðar í þrjá viðauka eftir því hversu strangar reglur gilda um alþjóðlega verslun með þær. Í fyrsta viðauka eru um 1.000 tegundir dýra og plantna og er alþjóðleg verslun með þær bönnuð, nema í undantekningartilvikum. Dæmi um tegundir í þessum flokki eru tígrisdýr (Panthera tigris), allar tegundir nashyrninga og pandabjörn. Eina íslenska tegundin í þessum flokki er fálki (Falco rusticulus). Í öðrum viðauka eru rúmlega 32 þúsund tegundir, þar af 28 þúsund tegundir plantna. Þetta eru tegundir sem kunna að vera í útrýmingarhættu ef alþjóðlegri verslun með þær er ekki stjórnað. Alþjóðleg verslun með þessar tegundir er heimiluð með því skilyrði að útflutningsleyfi sé fyrir hendi. Nokkur aðildarríki, þar á meðal Ísland og ríki Evrópusambandsins krefjast einnig innflutningsleyfis fyrir þessar tegundir. Hlébarði er ein af þeim 4 þúsund tegundum dýra sem teljast til þessa flokks. Í þriðja viðauka eru svo tegundir sem verndaðar eru í einstökum aðildarríkjum samningsins. Hægt er að lesa meira um samninginn og viðaukana á vef Umhverfisráðuneytisins. Undirritaður vill benda áhugasömum um þetta efni að kynna sér heimasíðu CITES eða vef Umhverfisstofnunar. Heimildir og mynd:
Friðun hlébarða er með ólíkum hætti í mismunandi Afríkuríkjum. Á sumum svæðum eru gefnir út veiðikvótar ef menn telja að stofnarnir þoli takmarkaðar veiðar. Veiðimenn vilja yfirleitt eiga eitthvað til minja um veiðina og þá eru dýrin gjarnan stoppuð upp. Ætli menn að flytja uppstoppaðan hlébarða til Íslands þarf að fylgja vottorð um að dýrið hafi verið löglega veitt. Margir hafa gagnrýnt hlébarðaveiðarnar, bæði af siðferðilegum ástæðum og vegna þess að dregið hefur verið í efa að útgefnir kvótar standist vísindaleg rök. Fjölmargir vísindamenn og verndunarsinnar telja að mörg fjárvana Afríkuríki séu beitt þrýstingi af öflugum samtökum veiðimanna. Dæmi eru um að framámenn í Bush-stjórninni hafi beitt stjórnvöld í Botsvana þrýstingi til aflétta veiðibanni á ljónum í landinu. Stjórnvöld létu undan þeim þrýstingi. Flókin hagsmunatengsl eru samofin verndarmálum rándýra víða um heim, ekki síst í Afríku. Mörg svæði í álfunni eru í einkaeigu og menn reka þau með útgáfu veiðikvóta. Ýmislegt jákvætt er við þennan rekstur. Meðal annars skilar hluti af tekjunum sér til samfélaga á þessum svæðum. Einnig felst náttúruvernd í þessu að vissu marki. Menn hafa tekjur af dýralífi og óspilltri náttúru svæðisins og hafa þess vegna ekki hvata til að nýta það á annan hátt, eins og til dæmis sem ræktarland. Veiðar á hlébörðum eru margvíslegar. Sú aðferð sem er hvað ógeðfelldust að mati flestra nefnist á ensku 'canned leopard hunt'. Þá er hlébarðinn lokkaður í búr með tálbeitu og síðan svæfður. Því næst er hlébarðinn fluttur sofandi úr búrinu á meðan veiðimaðurinn kemur sér fyrir í öruggri fjarlægð. Þegar hlébarðinn vaknar hrekja hundar hann upp í tré og þá mundar veiðimaðurinn byssuna og skýtur hlébarðann. Þessar veiðar njóta mikilla vinsælda enn þann dag í dag og eru stundaðar víða um heim á stórum afrískum kattadýrum. Þó að mörg dýr séu friðuð er friðunin oft háð ýmsum skilyrðum. Sum dýr eru alfriðuð sökum þess að þau eru talin vera í útrýmingarhættu, eins og til dæmis tígrisdýr og nashyrningar. Önnur njóta friðunar en gefnir eru út árlegir kvótar sökum veiðihefðar frumbyggja eða vegna sportveiða, eins og gildir til dæmis um hvítabirni og ljón. Friðun er því ekki einsleitt hugtak í verndun dýra og oftar en ekki er friðunin háð milliríkjasamkomulagi. Sá alþjóðasamningur sem hefur hvað mest að segja um friðun dýra er samningur um alþjóðaverslun með dýr og plöntur í útrýmingarhættu. Ísland er eitt þeirra 172 ríkja sem hafa undirritað hann. Í samningnum eru lífverur flokkaðar í þrjá viðauka eftir því hversu strangar reglur gilda um alþjóðlega verslun með þær. Í fyrsta viðauka eru um 1.000 tegundir dýra og plantna og er alþjóðleg verslun með þær bönnuð, nema í undantekningartilvikum. Dæmi um tegundir í þessum flokki eru tígrisdýr (Panthera tigris), allar tegundir nashyrninga og pandabjörn. Eina íslenska tegundin í þessum flokki er fálki (Falco rusticulus). Í öðrum viðauka eru rúmlega 32 þúsund tegundir, þar af 28 þúsund tegundir plantna. Þetta eru tegundir sem kunna að vera í útrýmingarhættu ef alþjóðlegri verslun með þær er ekki stjórnað. Alþjóðleg verslun með þessar tegundir er heimiluð með því skilyrði að útflutningsleyfi sé fyrir hendi. Nokkur aðildarríki, þar á meðal Ísland og ríki Evrópusambandsins krefjast einnig innflutningsleyfis fyrir þessar tegundir. Hlébarði er ein af þeim 4 þúsund tegundum dýra sem teljast til þessa flokks. Í þriðja viðauka eru svo tegundir sem verndaðar eru í einstökum aðildarríkjum samningsins. Hægt er að lesa meira um samninginn og viðaukana á vef Umhverfisráðuneytisins. Undirritaður vill benda áhugasömum um þetta efni að kynna sér heimasíðu CITES eða vef Umhverfisstofnunar. Heimildir og mynd: