Hvað þýðir nafnið Hekla (fjallið)? Er til útskýring á því hvers vegna fjöll hafa kvenkyns nöfn svo sem Katla, Esja og svo framvegis?Nafnið Hekla hefur oft verið talið merkja ‚kápa með hettu‘ en einnig ‚kambur til að kemba hör eða lín‘. Á þeim tíma sem fjallið fékk nafnið hefur það litið öðruvísi út en nú er. Endurtekin gos síðan hafa hækkað það en við landnám var það lægra og gígaröðin á því hefði getað minnt á kamb. Til frekari fróðleiks má benda á að Árni Hjartarson hefur rætt nafnið í Árbók Ferðafélags Íslands 1995, Á Hekluslóðum, bls. 8, og Tryggvi Gíslason nýlega í grein í vefritinu Nefni, www.nefnir.is.
Engin sérstök skýring er á því hvers vegna þessi fjöll bera kvenkyns nöfn. Eins má finna karlkyns fjallanöfn, til dæmi Bjólfur, Eilífur, Jörundur, Eggert, Hálfdan, Tálkni og Loðmundur. Á Vísindavefnum má finna fleiri svör um Heklu, til dæmis:
- Hversu gömul er Hekla?
- Hvers vegna er Hekla ílöng en ekki keila?
- Hefðu menn fyrr á öldum orðið varir við Heklugos eins og varð í febrúar 2000?