Af hverju keppa karlar og konur ekki saman í skák? Skák er hugaríþrótt og þar ættu líkamsburðir ekki að gefa forskot, er annað kynið þá heimskara en hitt að mati skáksambanda?Á mótum eins og Ólympíuskákmótum, sem er liðakeppni, heimsmeistaramótum og landsmótum, til dæmis á Íslandsmótum, er yfirleitt teflt í tveimur flokkum. Annars vegar í opnum flokki og hins vegar í kvennaflokki. Í opnum flokki tefla karlar og konur sem hafa til þess styrk. Konurnar eru enn tiltölulega fáar en til dæmis hafa Judit Polgar, frá Ungverjalandi, og Hou Yifan, frá Kína, náð að komast í fremstu röð. Judit var um tíma á meðal 10 sterkustu skákmanna heims og hefur lengi teflt með liði Ungverjalands í opnum flokki á Ólympíuskákmótum en ekki með kvennalandsliðinu. Þá hafa Lenka Ptácníková og Guðlaug Þorsteinsdóttir báðar teflt í landsliðsflokki Íslandsmótsins í skák, sem er efsti flokkur mótsins. Lenka hefur áunnið sér rétt til að tefla í landsliðsflokknum í ár og á hún því möguleika á að verða Íslandsmeistari í báðum flokkum, landsliðsflokki og kvennaflokki, árið 2015. Saga karla við skákborðið er mun lengri en saga kvenna, sem hafa af einhverjum ástæðum gefið sig minna að skák. Í viðleitni til að hvetja konur að skákborðinu hefur Alþjóðaskáksambandið (FIDE) og flest önnur skáksambönd, til dæmis Skáksamband Íslands, boðið upp á sérstök mót fyrir konur. Fide veitir konum líka sérstakar nafnbætur, eða titla, svo sem WIM (alþjóðameistari kvenna) og WGM (stórmeistari kvenna). Þetta virðist hafa borið árangur því hlutfall kvenna á skákmótum hefur aukist síðustu ár, bæði hérlendis og erlendis, og heldur þróunin vonandi áfram í þá átt. Mynd:
- Hou Yifan 2005 - Hou Yifan - Wikipedia, the free encyclopedia. Höfundur: Yitzak Levi.
Flestar íþróttir hafa kven- og karlflokka vegna mismunandi líkamsburðar. Af hverju eru bæði til kvenna- og karlaflokkar í skák?