Hvað þarf mikið landssvæði af bómull til að búa til einar gallabuxur?Efnið í gallabuxum er bómull. Bómullarplantan er ræktuð víða um heim en stærstu bómullarframleiðendurnir eru Kína, Indland, Bandaríkin, Pakistan og Brasilía. Skilyrði til ræktunar eru afar mismunandi, ekki bara á milli landa heldur líka á milli svæða innan sama lands og því er breytilegt hversu mikil uppskeran er á hverja flatareiningu. Gallabuxur eru misþungar eftir því hversu stórar og efnismiklar þær eru og þetta tvennt, það er efnisnotkunin í hverjar buxur og hversu mikið tiltekið land gefur af sér gerir það að verkum að ekki er til eitt rétt svar við því hversu mikið landsvæði þarf til að búa til einar gallabuxur. Á vefsíðu National Cotton Council of America er hægt að sjá ýmsar tölulegar upplýsingar um bómullarframleiðslu í heiminum. Þar sem þetta er bandarísk síða er flatarmál lands gefið upp í ekrum (e. acre) og þyngd bómullar í pundum. Árið 2018 er reiknað með að hver ekra lands sem notuð er til bómullarræktunar í Kína gefi að meðaltali af sér 1.560 pund. Til samanburðar er meðaltals framleiðsla á hverja ekru í Bandaríkjunum 860 pund en 431 pund á Indlandi. Eitt pund er 0,453 kg. Ef við notum meðaltalsframleiðslu á flatareiningu í Bandaríkjunum þá gefur hver ekra um 390 kg af bómull. Hefðbundnar karlmannsgallabuxur eru oft um 0,8 kg. Miðað við það fengjust rétt rúmlega 487 slíkar buxur úr þeirri bómull sem ræktuð væri á einni ekru. Ein ekra er 4.046 m2. Við erum því með 487 buxur / 4.046 m2 lands, sem þýðir að fyrir hverjar buxur þarf rétt um 8,3 m2. Það er einnig áhugavert að skoða hvert vatnsspor gallabuxna er. Vatnsspor mælir hversu mikið vatn er notað til að framleiða tiltekna vöru. Meðal vatnsspor í heiminum við framleiðslu á bómullarefnum (ræktun, hreinsun og vinnsla) er 10.000 l af vatni fyrir hvert kg af bómull. Ef við miðum við sömu gallabuxur og áður, það er buxur sem vega 0,8 kg þá þýðir það að til þess að framleiða bómull í einar gallabuxur þarf 8.000 lítra af vatni. Heimildir og myndir:
- Harvested Area, Yield & Production Data - National Cotton Council of America.
- Cotton - Wikipedia.
- How cotton is made - production process, history, used, processing, parts, steps, industry, machine, History.
- What is a water footprint? - Water Footprint Network.
- Product gallery - Water Footprint Network.
- Vilmundur Hansen. Bómullarinnar blóði drifna slóð. Bændablaðið, 12 mars 2015.
- Stefán Gíslason. Ósýnilega vatnið sem við drekkum | RÚV. 1. janúar 2015.
- Fatasöfnun Rauða krossins - Sorpa.is.
- Cotton field kv32.jpg - Wikimedia Commons. Sótt 18. 12. 2018.
- Old Jeans Pile Of Recycling · Free photo on Pixabay. (Sótt 18.12.2018).