Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um Skeiðarárjökul?

Helgi Björnsson

Skeiðarárjökull (1.370 km2) er stærsti skriðjökull sunnan úr Vatnajökli og fellur úr 1.650 m hæð niður í 100 m. Hann takmarkast að vestan af Grænafjalli, eldfjöllunum Þórðarhyrnu, Háubungu og Grímsfjalli upp að Grímsvötnum og nær yfir á Kverkfjallahrygg og suðaustur í Esjufjallahrygg og loks suðvestur í Miðfell og Skaftafellsfjöll að austan. Frá 40 km breiðu safnsvæði fer jökullinn um 8,6 km breitt haft milli Súlutinda og Færness og breiðir úr sér á Skeiðarársandi eins og hálfhringlaga tunga, 28 km breiður fjallsrótarjökull. Hann fellur 75 km langur niður á Skeiðarársand, 40 km frá sporði upp að hjarnmörkum, en 60 km að ísaskilum við Dyngjujökul í 1.650 m hæð.

Skeiðarárjökull er stærsti skriðjökull sunnan úr Vatnajökli og fellur úr 1.650 m hæð niður í 100 m.

Frá upptökum sínum fer jökullinn suður þrjá dali, sem skerast inn í miðhálendi undir jöklinum. Þeir eru aðgreindir af tveimur fjallahryggjum, sem stefna eftir botni suður frá austanverðri Háubungu og Grímsfjalli og ná suður á móts við Þórðarhyrnu. Vestasti dalurinn er um 5 km breiður milli hlíða eldstöðvanna Þórðarhyrnu og Háubungu. Miðdalurinn nær frá ísstíflu Grímsvatna og fellur suður um 2 km breiðan dalbotn. Austurarmurinn, sem er stærstur, fellur frá meginísaskilum Vatnajökuls að Dyngjujökli og Brúarjökli og að suðaustan að Hermannaskarði. Þar er þykkasti og hraðskreiðasti jökullinn, og fer meginstraumur íss niður á sporð. Jökularmarnir þrír sameinast, þar sem dalirnir þrír mætast, og botnhæð er um 300 m, en yfirborð jökulsins er í um 800 m hæð. Sunnar hallar botni hratt og myndar um 5 km breiða rennu á austurhlutanum, sem á 20 km langri leið nær allt að 270 m niður fyrir sjávarmál. Um 13 km upp frá jökulsporðinum er 600 m þykkur ís. Þessi dalur, grafinn af ísaldarjöklum, heldur áfram til sjávar við Skeiðarárdjúp. Endurkastsmælingar sýna, að hann sést undir farvegi Skeiðarár sunnan Skaftafells sem 100 m djúpur setfylltur dalur í berggrunni. Ef jökullinn færi nú, yrði til stöðuvatn, sem grynntist og hyrfi, eftir að land tæki að rísa, þegar jökulfargi létti af því.

Frá upptökum sínum fer jökullinn suður þrjá dali, sem skerast inn í miðhálendi undir jöklinum.

Þessi renna undir austanverðum sporðinum hefur grafist að mestu við framskrið jökulsins á litlu ísöld. Jafndreift yfir allan Skeiðarársand jafngildir framburðurinn 20 m þykku sandlagi. Tilurð rennunnar gæti skýrt, hvers vegna Skeiðará tók að koma undan austanverður jöklinum á 16. öld og hefur gert það síðan, eftir að hafa fram til þess runnið fram á miðjan sandinn eða vestar. Grímsvatnahlaup fara fyrst um miðdalinn og síðan yfir austurdal.

Mestur hluti vestanverðs suðursporðsins er yfir sjávarmáli. Tíu km langur kafli 1-2 km breiður, neðst á vesturhlutanum, er þó undir sjávarmáli. Hefur austurarmur skriðjökulsins verið mun afkastameiri en sá vestari. Aðstreymi íss að vesturhluta sporðsins er mun minna og grynnra svæði. Þessi mismunur á aðstreymi íss skýrir hvers vegna vesturhlutinn hefur hopað mun meira en austurhlutinn á hlýindaskeiði 20. aldar.

Skeiðarárjökull hefur gengið fram eftir landnám og grafið bæli sitt.

Skeiðarárjökull hefur gengið fram eftir landnám og grafið bæli sitt. Oft hafa bylgjur sést fara niður hann, jökullinn sprungið og jaðarinn færst fram tugi metra, en einnig hefur hann hlaupið fram hundruð metra og farvegir vatnsfalla breyst. Síðast hljóp hann fram árið 1991 og þá um einn kílómetra. Í mars 1991 varð vart við mikið sprungusvæði um 10 km uppi á jöklinum, og síðan breiddist það bæði niður og upp jökulinn. Svo fór, að jökull sprakk allur langleiðina norður að Grímsvötnum um sumarið. Þegar umbrotasvæðið náði niður að jaðrinum, skreið hann fram og huldi jökullaust land, en að ofan lækkaði jökullinn um tugi metra, þegar ísinn fluttist fram. Mánuðum saman kom lítið vatn í Skeiðará, en að sama skapi óx það í Gígjukvísl á miðjum sandinum. Vatn rann niður Skeiðarársand eftir löngu þurrum farvegum, og lá við, að það skæri skörð í þjóðveginn, en það náði að safnast fyrir í gömlum farvegum, sem voru brúaðir. Aurburður tífaldaðist í jökulánum. Framhlaupið stóð í nokkra mánuði, en að því loknu kom vatn aftur undan jöklinum á sömu slóðum og fyrr. Svipað framhlaup varð 1929, er unnið var að lagningu símalínu yfir Skeiðarársand. Árnar á sandinum breyttu þá oft um farveg, svo að símamenn vissu ekki, á hverju þeir áttu von. Á árunum 1784 til 1890 fór Skeiðarárjökull fjórum sinnum fram um 1 km í hvert sinn og hopaði þess á milli. Þessi framskrið tóku 5 til 10 ár og voru væntanlega framhlaup.

Myndir:
  • © Snævarr Guðmundsson. Myndirnar voru teknar 17. ágúst 2006 og eru birtar hér með góðfúslegu leyfi.


Þetta svar er úr bókinni Jöklar á Íslandi og birt með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Helgi Björnsson

prófessor emeritus í jöklafræði

Útgáfudagur

11.3.2019

Síðast uppfært

26.4.2021

Spyrjandi

Njáll Halldórsson

Tilvísun

Helgi Björnsson. „Hvað getið þið sagt mér um Skeiðarárjökul?“ Vísindavefurinn, 11. mars 2019, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68147.

Helgi Björnsson. (2019, 11. mars). Hvað getið þið sagt mér um Skeiðarárjökul? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68147

Helgi Björnsson. „Hvað getið þið sagt mér um Skeiðarárjökul?“ Vísindavefurinn. 11. mar. 2019. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68147>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um Skeiðarárjökul?
Skeiðarárjökull (1.370 km2) er stærsti skriðjökull sunnan úr Vatnajökli og fellur úr 1.650 m hæð niður í 100 m. Hann takmarkast að vestan af Grænafjalli, eldfjöllunum Þórðarhyrnu, Háubungu og Grímsfjalli upp að Grímsvötnum og nær yfir á Kverkfjallahrygg og suðaustur í Esjufjallahrygg og loks suðvestur í Miðfell og Skaftafellsfjöll að austan. Frá 40 km breiðu safnsvæði fer jökullinn um 8,6 km breitt haft milli Súlutinda og Færness og breiðir úr sér á Skeiðarársandi eins og hálfhringlaga tunga, 28 km breiður fjallsrótarjökull. Hann fellur 75 km langur niður á Skeiðarársand, 40 km frá sporði upp að hjarnmörkum, en 60 km að ísaskilum við Dyngjujökul í 1.650 m hæð.

Skeiðarárjökull er stærsti skriðjökull sunnan úr Vatnajökli og fellur úr 1.650 m hæð niður í 100 m.

Frá upptökum sínum fer jökullinn suður þrjá dali, sem skerast inn í miðhálendi undir jöklinum. Þeir eru aðgreindir af tveimur fjallahryggjum, sem stefna eftir botni suður frá austanverðri Háubungu og Grímsfjalli og ná suður á móts við Þórðarhyrnu. Vestasti dalurinn er um 5 km breiður milli hlíða eldstöðvanna Þórðarhyrnu og Háubungu. Miðdalurinn nær frá ísstíflu Grímsvatna og fellur suður um 2 km breiðan dalbotn. Austurarmurinn, sem er stærstur, fellur frá meginísaskilum Vatnajökuls að Dyngjujökli og Brúarjökli og að suðaustan að Hermannaskarði. Þar er þykkasti og hraðskreiðasti jökullinn, og fer meginstraumur íss niður á sporð. Jökularmarnir þrír sameinast, þar sem dalirnir þrír mætast, og botnhæð er um 300 m, en yfirborð jökulsins er í um 800 m hæð. Sunnar hallar botni hratt og myndar um 5 km breiða rennu á austurhlutanum, sem á 20 km langri leið nær allt að 270 m niður fyrir sjávarmál. Um 13 km upp frá jökulsporðinum er 600 m þykkur ís. Þessi dalur, grafinn af ísaldarjöklum, heldur áfram til sjávar við Skeiðarárdjúp. Endurkastsmælingar sýna, að hann sést undir farvegi Skeiðarár sunnan Skaftafells sem 100 m djúpur setfylltur dalur í berggrunni. Ef jökullinn færi nú, yrði til stöðuvatn, sem grynntist og hyrfi, eftir að land tæki að rísa, þegar jökulfargi létti af því.

Frá upptökum sínum fer jökullinn suður þrjá dali, sem skerast inn í miðhálendi undir jöklinum.

Þessi renna undir austanverðum sporðinum hefur grafist að mestu við framskrið jökulsins á litlu ísöld. Jafndreift yfir allan Skeiðarársand jafngildir framburðurinn 20 m þykku sandlagi. Tilurð rennunnar gæti skýrt, hvers vegna Skeiðará tók að koma undan austanverður jöklinum á 16. öld og hefur gert það síðan, eftir að hafa fram til þess runnið fram á miðjan sandinn eða vestar. Grímsvatnahlaup fara fyrst um miðdalinn og síðan yfir austurdal.

Mestur hluti vestanverðs suðursporðsins er yfir sjávarmáli. Tíu km langur kafli 1-2 km breiður, neðst á vesturhlutanum, er þó undir sjávarmáli. Hefur austurarmur skriðjökulsins verið mun afkastameiri en sá vestari. Aðstreymi íss að vesturhluta sporðsins er mun minna og grynnra svæði. Þessi mismunur á aðstreymi íss skýrir hvers vegna vesturhlutinn hefur hopað mun meira en austurhlutinn á hlýindaskeiði 20. aldar.

Skeiðarárjökull hefur gengið fram eftir landnám og grafið bæli sitt.

Skeiðarárjökull hefur gengið fram eftir landnám og grafið bæli sitt. Oft hafa bylgjur sést fara niður hann, jökullinn sprungið og jaðarinn færst fram tugi metra, en einnig hefur hann hlaupið fram hundruð metra og farvegir vatnsfalla breyst. Síðast hljóp hann fram árið 1991 og þá um einn kílómetra. Í mars 1991 varð vart við mikið sprungusvæði um 10 km uppi á jöklinum, og síðan breiddist það bæði niður og upp jökulinn. Svo fór, að jökull sprakk allur langleiðina norður að Grímsvötnum um sumarið. Þegar umbrotasvæðið náði niður að jaðrinum, skreið hann fram og huldi jökullaust land, en að ofan lækkaði jökullinn um tugi metra, þegar ísinn fluttist fram. Mánuðum saman kom lítið vatn í Skeiðará, en að sama skapi óx það í Gígjukvísl á miðjum sandinum. Vatn rann niður Skeiðarársand eftir löngu þurrum farvegum, og lá við, að það skæri skörð í þjóðveginn, en það náði að safnast fyrir í gömlum farvegum, sem voru brúaðir. Aurburður tífaldaðist í jökulánum. Framhlaupið stóð í nokkra mánuði, en að því loknu kom vatn aftur undan jöklinum á sömu slóðum og fyrr. Svipað framhlaup varð 1929, er unnið var að lagningu símalínu yfir Skeiðarársand. Árnar á sandinum breyttu þá oft um farveg, svo að símamenn vissu ekki, á hverju þeir áttu von. Á árunum 1784 til 1890 fór Skeiðarárjökull fjórum sinnum fram um 1 km í hvert sinn og hopaði þess á milli. Þessi framskrið tóku 5 til 10 ár og voru væntanlega framhlaup.

Myndir:
  • © Snævarr Guðmundsson. Myndirnar voru teknar 17. ágúst 2006 og eru birtar hér með góðfúslegu leyfi.


Þetta svar er úr bókinni Jöklar á Íslandi og birt með góðfúslegu leyfi. ...