Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Geta kollagen og elastínþræðir í snyrtivörum haft áhrif á hrukkumyndun?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Kollagen og elastín eru byggingarprótín og meðal þeirra allra mikilvægustu í bandvefjum mannslíkamans, þar með talið í húðinni. Bandvefir tengja saman hina ýmsu vefi og líffæri líkamans og halda þannig skipulagi innan líkamans.

Kollagen er langalgengasta prótínið í rýmum utan frumna í bandvefjum og er því afar mikilvægt. Það kemur fyrir í mismunandi byggingarformum eftir því hvar í líkamanum það er og hvaða hlutverki það gegnir nákvæmlega, en oftast er það á formi þráða úr peptíðkeðjum sem vefjast hver um aðra og veita þannig styrk og þéttleika.

Elastín er ekki eins stíft og kollagen en er teygjanlegra. Það er í miklu magni í slagæðaveggjum þar sem það gegnir því hlutverki að miðla áfram þrýstingsbylgju hjartsláttarins til að blóðflæði frá hjartanu til líkamans verði jafnt og stöðugt. Það er sérlega mikið elastín í stórum teygjanlegum slagæðum, eins og ósæðinni. Einnig er elastín mjög mikilvægt í lungum, liðböndum, þvagblöðrunni og teygjanlegu brjóski, sem sagt líffærum sem þurfa að geta þanist út og svo skroppið saman aftur.

Kollagen og elastín eru mikilvæg prótín í miðlagi húðar okkar, leðurhúðinni. Kollagen er nauðsynlegt til að hún haldi stinnleika sínum og fyllingu, en elastín til að hún haldist teygjanleg, nái upprunalegri stöðu þótt potað sé eða klipið í hana.

Kollagen og elastín eru mikilvæg prótín í miðlagi húðarinnar, leðurhúðinni. Kollagen er nauðsynlegt til þess að hún haldi stinnleika sínum og fyllingu en elastín gefur henni teygjanleika.

Öll líffæri eldast, þótt ekki sé það augljóst í flestum tilfellum, en húðina berum við utan á okkur og er öldrun hennar vel sýnileg, ekki síst í andlitinu. Þess vegna er falleg og heilbrigð húð talin hraustleikamerki fyrir líkamann allan og einstaklinginn almennt. Á húðinni sjást einnig fyrstu greinanlegu merki þess að tíminn líður og líkaminn eldist. Helstu einkenni öldrunar húðar eru hrukkumyndun, elliblettir (hvítir flekkir vegna ójafnrar aflitunar í húðinni) og hún slappast.

Öldrun húðar er flókið líffræðilegt ferli sem bæði innri og ytri þættir hafa áhrif á. Innri áhrifaþættir eru þeir sem stuðla að náttúrulegri öldrun. Þeir eru erfðir, efnaskipti í frumum og líkamanum öllum, til dæmis hormónaferli. Ekki er hægt að breyta erfðum manna en með því að lifa heilbrigðu lífi er hægt að stuðla að því að lífeðlisfræðilegu ferlin starfi eðlilega. Ein leið til þess er að borða hollan mat svo að hráefni til viðhalds vefja séu næg og endurnýjun húðarinnar haldi í við eyðingu hennar. Þegar hollur matur er nefndur í þessu samhengi er aðallega átt við að borða mikið af grænmeti og ávöxtum, heilkornavörum, fiski, baunum og mögru kjöti.

Hins vegar getur hegðun okkar og lífsstíll ráðið talsverðu um hversu mikil áhrif ytri þættir hafa á öldrun húðar. Jafnvel er mögulegt að koma algjörlega í veg fyrir ótímabæra öldrun af þeirra völdum. Meðal þessara þátta eru langvarandi útsetning fyrir sólarljósi, mengun, jónandi geislun og alls konar efnum, þar á meðal eiturefnum. Samanlögð áhrif þessara þátta valda smám saman breytingum í uppbyggingu og lífeðlisfræði húðarinnar sem koma fram sem útlitsbreytingar, einkum á þeim svæðum sem eru óvarin fyrir sólarljósi, eins og andliti, hálsi og höndum. Í húð sem orðið hefur fyrir miklum ljósskemmdum hafa teygjanlegu prótíntrefjarnar í leðurhúðinni, elastíntrefjar, þykknað og flækst saman og marktækt minna er af kollagen-prótínþráðum en í húð sem hefur elst án ljósskemmda. Ólíkt húð sem eldist á eðlilegan hátt og er þurr, þunn og með fíngerðar hrukkur einkennist húð sem eldist ótímabært vegna sólarljóss af þykkri yfirhúð, djúpum hrukkum, hvítum flekkjum og er líflaus og gróf.

Þegar við eldumst tapar húðin bæði kollageni og elastíni. Afleiðingin eru hrukkur og slappari húð.

Þau efni í húðinni sem eru mikilvægust til að hún haldist falleg eru fyrst og fremst þrjú efnasambönd í leðurhúðinni; prótínin kollagen og elastín og svokölluð GAG-efni sem binda raka. Þar er hýalúrónsýra (HA) algengust og þekktust sem innihaldsefni í andlitskremum. HA bindur ekki aðeins raka heldur örvar einnig endurnýjun kollagens og hindrar eyðingu þess. Heildarkollageninnihald á hverja flatarmálseiningu á yfirborði húðar minnkar árlega um 1% við eðlilega öldrun en líklega mun meira ef mikið er dvalið í sól. Eyðing kollagens er eitt skrefið í hrukkumyndun því að þá myndast til dæmis bil milli húðþekju og leðurhúðar.

Snyrtivöruiðnaðurinn hefur lengi leitað leiða til að hægja á öldrun og óeðlilegum breytingum húðar, helst í andlitinu. Hér er um að ræða ýmis læknisfræðileg inngrip, andlitskrem og aðrar húðvörur sem sagðar eru hægja á öldrun húðar og jafnvel hindra hrukkumyndun eða eyða þeim sem hafa þegar myndast. Það getur vel verið að þau hafi góð áhrif á útlit húðarinnar, að minnsta kosti tímabundið. Þetta á þó eingöngu við þau efni sem eru úr nægilega litlum sameindum til þess að þau komist í gegnum húðina og virki þá helst með því að örva efnaferla í frumum sem mynda ný byggingarefni í húðinni, eins og kollagen- og elastínþræði í leðurhúðinni. Í þessum flokki eru ýmis næringarefni, til dæmis A-, B3-, C- og E-vítamín sem eru öll andoxunarefni. Kollagen, elastín og önnur peptíð í andlitskremum komast hins vegar ekki í gegnum húðina vegna þess hversu stórar sameindir þeirra eru. Þær koma því ekki í staðinn fyrir samsvarandi sameindir í leðurhúðinni sem hafa eyðst, en geta þó verið svolítið rakabindandi og komið þannig að gagni í yfirhúðinni, þar sem þau eru borin á yfirborðið í kremum.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Útgáfudagur

9.1.2017

Síðast uppfært

9.3.2022

Spyrjandi

Bryndís Malana

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Geta kollagen og elastínþræðir í snyrtivörum haft áhrif á hrukkumyndun?“ Vísindavefurinn, 9. janúar 2017, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68109.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2017, 9. janúar). Geta kollagen og elastínþræðir í snyrtivörum haft áhrif á hrukkumyndun? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68109

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Geta kollagen og elastínþræðir í snyrtivörum haft áhrif á hrukkumyndun?“ Vísindavefurinn. 9. jan. 2017. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68109>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Geta kollagen og elastínþræðir í snyrtivörum haft áhrif á hrukkumyndun?
Kollagen og elastín eru byggingarprótín og meðal þeirra allra mikilvægustu í bandvefjum mannslíkamans, þar með talið í húðinni. Bandvefir tengja saman hina ýmsu vefi og líffæri líkamans og halda þannig skipulagi innan líkamans.

Kollagen er langalgengasta prótínið í rýmum utan frumna í bandvefjum og er því afar mikilvægt. Það kemur fyrir í mismunandi byggingarformum eftir því hvar í líkamanum það er og hvaða hlutverki það gegnir nákvæmlega, en oftast er það á formi þráða úr peptíðkeðjum sem vefjast hver um aðra og veita þannig styrk og þéttleika.

Elastín er ekki eins stíft og kollagen en er teygjanlegra. Það er í miklu magni í slagæðaveggjum þar sem það gegnir því hlutverki að miðla áfram þrýstingsbylgju hjartsláttarins til að blóðflæði frá hjartanu til líkamans verði jafnt og stöðugt. Það er sérlega mikið elastín í stórum teygjanlegum slagæðum, eins og ósæðinni. Einnig er elastín mjög mikilvægt í lungum, liðböndum, þvagblöðrunni og teygjanlegu brjóski, sem sagt líffærum sem þurfa að geta þanist út og svo skroppið saman aftur.

Kollagen og elastín eru mikilvæg prótín í miðlagi húðar okkar, leðurhúðinni. Kollagen er nauðsynlegt til að hún haldi stinnleika sínum og fyllingu, en elastín til að hún haldist teygjanleg, nái upprunalegri stöðu þótt potað sé eða klipið í hana.

Kollagen og elastín eru mikilvæg prótín í miðlagi húðarinnar, leðurhúðinni. Kollagen er nauðsynlegt til þess að hún haldi stinnleika sínum og fyllingu en elastín gefur henni teygjanleika.

Öll líffæri eldast, þótt ekki sé það augljóst í flestum tilfellum, en húðina berum við utan á okkur og er öldrun hennar vel sýnileg, ekki síst í andlitinu. Þess vegna er falleg og heilbrigð húð talin hraustleikamerki fyrir líkamann allan og einstaklinginn almennt. Á húðinni sjást einnig fyrstu greinanlegu merki þess að tíminn líður og líkaminn eldist. Helstu einkenni öldrunar húðar eru hrukkumyndun, elliblettir (hvítir flekkir vegna ójafnrar aflitunar í húðinni) og hún slappast.

Öldrun húðar er flókið líffræðilegt ferli sem bæði innri og ytri þættir hafa áhrif á. Innri áhrifaþættir eru þeir sem stuðla að náttúrulegri öldrun. Þeir eru erfðir, efnaskipti í frumum og líkamanum öllum, til dæmis hormónaferli. Ekki er hægt að breyta erfðum manna en með því að lifa heilbrigðu lífi er hægt að stuðla að því að lífeðlisfræðilegu ferlin starfi eðlilega. Ein leið til þess er að borða hollan mat svo að hráefni til viðhalds vefja séu næg og endurnýjun húðarinnar haldi í við eyðingu hennar. Þegar hollur matur er nefndur í þessu samhengi er aðallega átt við að borða mikið af grænmeti og ávöxtum, heilkornavörum, fiski, baunum og mögru kjöti.

Hins vegar getur hegðun okkar og lífsstíll ráðið talsverðu um hversu mikil áhrif ytri þættir hafa á öldrun húðar. Jafnvel er mögulegt að koma algjörlega í veg fyrir ótímabæra öldrun af þeirra völdum. Meðal þessara þátta eru langvarandi útsetning fyrir sólarljósi, mengun, jónandi geislun og alls konar efnum, þar á meðal eiturefnum. Samanlögð áhrif þessara þátta valda smám saman breytingum í uppbyggingu og lífeðlisfræði húðarinnar sem koma fram sem útlitsbreytingar, einkum á þeim svæðum sem eru óvarin fyrir sólarljósi, eins og andliti, hálsi og höndum. Í húð sem orðið hefur fyrir miklum ljósskemmdum hafa teygjanlegu prótíntrefjarnar í leðurhúðinni, elastíntrefjar, þykknað og flækst saman og marktækt minna er af kollagen-prótínþráðum en í húð sem hefur elst án ljósskemmda. Ólíkt húð sem eldist á eðlilegan hátt og er þurr, þunn og með fíngerðar hrukkur einkennist húð sem eldist ótímabært vegna sólarljóss af þykkri yfirhúð, djúpum hrukkum, hvítum flekkjum og er líflaus og gróf.

Þegar við eldumst tapar húðin bæði kollageni og elastíni. Afleiðingin eru hrukkur og slappari húð.

Þau efni í húðinni sem eru mikilvægust til að hún haldist falleg eru fyrst og fremst þrjú efnasambönd í leðurhúðinni; prótínin kollagen og elastín og svokölluð GAG-efni sem binda raka. Þar er hýalúrónsýra (HA) algengust og þekktust sem innihaldsefni í andlitskremum. HA bindur ekki aðeins raka heldur örvar einnig endurnýjun kollagens og hindrar eyðingu þess. Heildarkollageninnihald á hverja flatarmálseiningu á yfirborði húðar minnkar árlega um 1% við eðlilega öldrun en líklega mun meira ef mikið er dvalið í sól. Eyðing kollagens er eitt skrefið í hrukkumyndun því að þá myndast til dæmis bil milli húðþekju og leðurhúðar.

Snyrtivöruiðnaðurinn hefur lengi leitað leiða til að hægja á öldrun og óeðlilegum breytingum húðar, helst í andlitinu. Hér er um að ræða ýmis læknisfræðileg inngrip, andlitskrem og aðrar húðvörur sem sagðar eru hægja á öldrun húðar og jafnvel hindra hrukkumyndun eða eyða þeim sem hafa þegar myndast. Það getur vel verið að þau hafi góð áhrif á útlit húðarinnar, að minnsta kosti tímabundið. Þetta á þó eingöngu við þau efni sem eru úr nægilega litlum sameindum til þess að þau komist í gegnum húðina og virki þá helst með því að örva efnaferla í frumum sem mynda ný byggingarefni í húðinni, eins og kollagen- og elastínþræði í leðurhúðinni. Í þessum flokki eru ýmis næringarefni, til dæmis A-, B3-, C- og E-vítamín sem eru öll andoxunarefni. Kollagen, elastín og önnur peptíð í andlitskremum komast hins vegar ekki í gegnum húðina vegna þess hversu stórar sameindir þeirra eru. Þær koma því ekki í staðinn fyrir samsvarandi sameindir í leðurhúðinni sem hafa eyðst, en geta þó verið svolítið rakabindandi og komið þannig að gagni í yfirhúðinni, þar sem þau eru borin á yfirborðið í kremum.

Heimildir og myndir:

...