Hringur eða hringferill er mengi þeirra punkta í sléttu eða plani sem eru í tiltekinni fjarlægð frá gefnum punkti. Sá punktur nefnist miðja eða miðpunktur hringsins.Samkvæmt þessu „byrjar“ hringur hvergi. Allir punktarnir sem mynda hringinn eru jafngildir og koma til sögu á sama tíma og því mætti líta svo á að mengi allra punktanna sem mynda hringinn sé upphaf hringsins.
Oft getur þó verið gagnlegt, í ýmsu öðru samhengi, að hugsa sér tiltekinn „upphafspunkt“ á hring, til dæmis þegar reikna skal bogalengd (e. arc length) á einingarhringnum, en það er hringur með geisla (e. radius) = 1. Upphafspunkturinn væri þá á þeim stað á hringnum þar sem hringurinn sker x-ás eða lárétta ásinn, hægra megin við y-ásinn. Þessi punktur hefur hnitin x = 1 og y = 0. Hann væri þá upphafspunktur hringsins sambærilegur við núllpunkt talnalínu. En ef haldið er af stað frá upphafspunkti hringsins, þá líður ekki á löngu þangað til komið er aftur að upphafspunktinum. Ef við hugsum okkur hringinn teiknaðan í hnitakerfi þá má hefja þessa „hringferð“ frá hvaða punkti á hringnum sem er, því hnitakerfinu má snúa eins og mann lystir. Upphafspunkturinn getur því í raun verið hvaða punktur sem vera skal á hringnum. Upphaf og endir hrings er því ekki til, fræðilega séð. En hringur samkvæmt skilgreiningunni hér á undan er ekki heldur til í náttúrunni, hann er aðeins ímyndun. Allir hringir í náttúrunni eru því í raun „eftirlíkingar“ af hinum stærðfræðilega fullkomna hring.
Mynd: JGÞ