Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er heilalömun?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Heilalömun (e. cerebral palsy) er hugtak sem nær yfir flokk taugafræðilegra kvilla sem koma fram við fæðingu eða snemma í bernsku og hafa varanleg áhrif á líkamshreyfingar og samhæfingu vöðva en versna ekki með tímanum. Þótt heilalömun hafi áhrif á hreyfingar vöðva stafar hún ekki af vandamálum í vöðvum eða taugum, heldur af skaða sem hefur orðið við þroska í þeim hlutum heilans sem stjórna vöðvahreyfingum. Skaðinn getur einnig komið fram sem vandamál við skynjun, svo sem dýptarskynjun, og sem samskiptavandamál. Þótt sjúkdómurinn versni ekki með tímanum geta einkennin breyst, ýmist til hins betra eða verra. Heilalömun er ein helsta orsökin fyrir varanlegri fötlun barna og talið er að tíðnin sé almennt 2,1 tilfelli af hverjum 1.000 lifandi fæðingum. Samkvæmt íslenskri rannsókn frá 2007 var tíðnin hér á landi svipuð eða 2,3 tilfelli af hverjum 1.000 lifandi fæðingum.

Heilalömun er ein helsta orsökin fyrir varanlegri fötlun barna.

Í flestum tilfellum er heilalömunin meðfædd þótt hún greinist kannski ekki fyrr en nokkrum mánuðum eða jafnvel árum eftir fæðingu. Fyrstu merki um sjúkdóminn birtast oftast fyrir þriggja ára aldur. Algengustu einkennin eru skortur á vöðvasamhæfingu (e. ataxia) þegar reynt er að framkvæma viljastýrðar hreyfingar, stífir eða spenntir vöðvar (e. spasticity) og óeðlilegt göngulag, til dæmis þar sem annar fótur eða fótleggur er dreginn eða gengið er á tánum, í hnipri (e. crouched) eða með skæragöngulagi (e. scissored gait). Enn fremur getur vöðvaspenna (e. muscle tone) verið óeðlilega lítil eða óeðlilega mikil. Ýmislegt gefur til kynna að 35-50% af börnum með heilalömun hafi einnig flogaeinkenni og eitthvert stig af andlegri þroskaskerðingu sem getur komið fram í námsörðugleikum og vandamálum með sjón, tal, heyrn eða mál.

Meðfædd heilalömun stafar af skaða sem verður á heilanum á meðgöngunni og er hún til staðar við fæðingu, þótt hún komi ekki alltaf strax fram. Um 70% af börnum með heilalömun hafa meðfædda heilalömun. Til viðbótar eru 20% greind með meðfædda heilalömun vegna heilaskaða sem verður við fæðingu.

Í flestum tilfellum er orsök meðfæddrar heilalömunar ekki þekkt. Nokkrar mögulegar orsakir má þó nefna, til dæmis sýkingar á meðgöngu sem skemma taugakerfi fósturs sem er að þroskast (til dæmis rauðir hundar), slæm ungbarnagula, ósamræmi í rhesusblóðflokkum móður og barns, erfiðleikar í fæðingu hjá veikburða barni og súrefnisskortur í fæðingu.

Þekktir eru nokkrir áhættuþættir sem auka möguleika á að barn greinist síðar með heilalömun. Þar eru helst sitjandi fæðingar, líkamlegir fæðingargallar eins og gölluð myndun hryggjarbeina, kviðslit í nára, lág einkunn úr nýburaprófi sem mælir almennt líkamlegt ástand eftir fæðingu, lág fæðingarþyngd, að vera tvíburi eða einn fjölbura, smátt höfuð, eða flog. Einnig er meiri hætta á að móðir eignist barn með heilalömun ef hún fær blæðingar eða prótín í þvag í lok meðgöngu og sömu sögu er að segja um konur með van- eða ofvirkan skjaldkirtil, andlega vanþroskun eða flog.

Í aðeins um 10% tilfella verður heilalömunin eftir fæðingu og þá oft í kjölfar slæmrar sýkingar á fyrstu mánuðum eða árum í lífi barnsins. Þar getur til dæmis verið um að ræða heilahimnubólgu af völdum bakteríu eða heilabólgu af völdum veiru. Einnig getur heilalömun komið í kjölfar höfuðáverka.

Ekki er hægt að lækna heilalömun. Gott mæðra- og ungbarnaeftirlit er mikilvægt til að draga úr áhættu á að börn fái heilalömun. Hægt er að grípa til ýmiss konar meðferða og úrræða til að draga úr áhrifum afleiðinga sjúkdómsins og gera börnunum lífið bærilegra. Þar má nefna iðju- og sjúkraþjálfun til að þjálfa þau og auka færni, notkun hjálpartækja, lyf við til dæmis flogaköstum og krömpum og skurðaðgerðir til að auka hreyfifærni. Birtingarmyndir sjúkdómsins eru mjög einstaklingsbundnar. Sumir einstaklingar þurfa enga sérhæfða hjálp á meðan aðrir þurfa mikla. Fer það meðal annars eftir hvaða flokki heilalömunin tilheyrir.

Heilalömun er flokkuð eftir vöðvaspennu, eðli hreyfinga og útbreiðslu einkenna. Langalgengasta form (70-80%) er spastíska lömunin. Spastísk form af heilalömun eru nánar flokkuð eftir útbreiðslu einkenna. Í helftarlömun (hemiplegia) er hreyfihömlunin bundin við annan líkamshelminginn, handlegg og fótlegg öðrum megin. Einkennin eru yfirleitt meiri í handleggnum en fótleggnum. Helftarlömunin getur verið mjög væg, greindarþroski er oft góður og fylgiraskanir fáar. Talað er um tvenndarlömun (diplegia) ef einkenni eru í öllum útlimum en alvarlegri í fótleggjum en handleggjum. Fyrirburar greinast oft með þetta form af heilalömun. Fjórlömun (quadriplegia) er alvarlegasta formið af heilalömun. Áhrifa fötlunarinnar gætir í öllum útlimum og bol, auk þess í vöðvum á munnsvæði, tungu og koki.

Heimildir, frekari fróðleikur og myndir:

Höfundur

Útgáfudagur

13.3.2015

Spyrjandi

Hulda Valdís Önundardóttir, Guðrún Pétursdóttir

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað er heilalömun?“ Vísindavefurinn, 13. mars 2015, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68021.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2015, 13. mars). Hvað er heilalömun? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68021

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað er heilalömun?“ Vísindavefurinn. 13. mar. 2015. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68021>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er heilalömun?
Heilalömun (e. cerebral palsy) er hugtak sem nær yfir flokk taugafræðilegra kvilla sem koma fram við fæðingu eða snemma í bernsku og hafa varanleg áhrif á líkamshreyfingar og samhæfingu vöðva en versna ekki með tímanum. Þótt heilalömun hafi áhrif á hreyfingar vöðva stafar hún ekki af vandamálum í vöðvum eða taugum, heldur af skaða sem hefur orðið við þroska í þeim hlutum heilans sem stjórna vöðvahreyfingum. Skaðinn getur einnig komið fram sem vandamál við skynjun, svo sem dýptarskynjun, og sem samskiptavandamál. Þótt sjúkdómurinn versni ekki með tímanum geta einkennin breyst, ýmist til hins betra eða verra. Heilalömun er ein helsta orsökin fyrir varanlegri fötlun barna og talið er að tíðnin sé almennt 2,1 tilfelli af hverjum 1.000 lifandi fæðingum. Samkvæmt íslenskri rannsókn frá 2007 var tíðnin hér á landi svipuð eða 2,3 tilfelli af hverjum 1.000 lifandi fæðingum.

Heilalömun er ein helsta orsökin fyrir varanlegri fötlun barna.

Í flestum tilfellum er heilalömunin meðfædd þótt hún greinist kannski ekki fyrr en nokkrum mánuðum eða jafnvel árum eftir fæðingu. Fyrstu merki um sjúkdóminn birtast oftast fyrir þriggja ára aldur. Algengustu einkennin eru skortur á vöðvasamhæfingu (e. ataxia) þegar reynt er að framkvæma viljastýrðar hreyfingar, stífir eða spenntir vöðvar (e. spasticity) og óeðlilegt göngulag, til dæmis þar sem annar fótur eða fótleggur er dreginn eða gengið er á tánum, í hnipri (e. crouched) eða með skæragöngulagi (e. scissored gait). Enn fremur getur vöðvaspenna (e. muscle tone) verið óeðlilega lítil eða óeðlilega mikil. Ýmislegt gefur til kynna að 35-50% af börnum með heilalömun hafi einnig flogaeinkenni og eitthvert stig af andlegri þroskaskerðingu sem getur komið fram í námsörðugleikum og vandamálum með sjón, tal, heyrn eða mál.

Meðfædd heilalömun stafar af skaða sem verður á heilanum á meðgöngunni og er hún til staðar við fæðingu, þótt hún komi ekki alltaf strax fram. Um 70% af börnum með heilalömun hafa meðfædda heilalömun. Til viðbótar eru 20% greind með meðfædda heilalömun vegna heilaskaða sem verður við fæðingu.

Í flestum tilfellum er orsök meðfæddrar heilalömunar ekki þekkt. Nokkrar mögulegar orsakir má þó nefna, til dæmis sýkingar á meðgöngu sem skemma taugakerfi fósturs sem er að þroskast (til dæmis rauðir hundar), slæm ungbarnagula, ósamræmi í rhesusblóðflokkum móður og barns, erfiðleikar í fæðingu hjá veikburða barni og súrefnisskortur í fæðingu.

Þekktir eru nokkrir áhættuþættir sem auka möguleika á að barn greinist síðar með heilalömun. Þar eru helst sitjandi fæðingar, líkamlegir fæðingargallar eins og gölluð myndun hryggjarbeina, kviðslit í nára, lág einkunn úr nýburaprófi sem mælir almennt líkamlegt ástand eftir fæðingu, lág fæðingarþyngd, að vera tvíburi eða einn fjölbura, smátt höfuð, eða flog. Einnig er meiri hætta á að móðir eignist barn með heilalömun ef hún fær blæðingar eða prótín í þvag í lok meðgöngu og sömu sögu er að segja um konur með van- eða ofvirkan skjaldkirtil, andlega vanþroskun eða flog.

Í aðeins um 10% tilfella verður heilalömunin eftir fæðingu og þá oft í kjölfar slæmrar sýkingar á fyrstu mánuðum eða árum í lífi barnsins. Þar getur til dæmis verið um að ræða heilahimnubólgu af völdum bakteríu eða heilabólgu af völdum veiru. Einnig getur heilalömun komið í kjölfar höfuðáverka.

Ekki er hægt að lækna heilalömun. Gott mæðra- og ungbarnaeftirlit er mikilvægt til að draga úr áhættu á að börn fái heilalömun. Hægt er að grípa til ýmiss konar meðferða og úrræða til að draga úr áhrifum afleiðinga sjúkdómsins og gera börnunum lífið bærilegra. Þar má nefna iðju- og sjúkraþjálfun til að þjálfa þau og auka færni, notkun hjálpartækja, lyf við til dæmis flogaköstum og krömpum og skurðaðgerðir til að auka hreyfifærni. Birtingarmyndir sjúkdómsins eru mjög einstaklingsbundnar. Sumir einstaklingar þurfa enga sérhæfða hjálp á meðan aðrir þurfa mikla. Fer það meðal annars eftir hvaða flokki heilalömunin tilheyrir.

Heilalömun er flokkuð eftir vöðvaspennu, eðli hreyfinga og útbreiðslu einkenna. Langalgengasta form (70-80%) er spastíska lömunin. Spastísk form af heilalömun eru nánar flokkuð eftir útbreiðslu einkenna. Í helftarlömun (hemiplegia) er hreyfihömlunin bundin við annan líkamshelminginn, handlegg og fótlegg öðrum megin. Einkennin eru yfirleitt meiri í handleggnum en fótleggnum. Helftarlömunin getur verið mjög væg, greindarþroski er oft góður og fylgiraskanir fáar. Talað er um tvenndarlömun (diplegia) ef einkenni eru í öllum útlimum en alvarlegri í fótleggjum en handleggjum. Fyrirburar greinast oft með þetta form af heilalömun. Fjórlömun (quadriplegia) er alvarlegasta formið af heilalömun. Áhrifa fötlunarinnar gætir í öllum útlimum og bol, auk þess í vöðvum á munnsvæði, tungu og koki.

Heimildir, frekari fróðleikur og myndir:

...