Mig langar að spyrja ykkur um orðið læðing. Mér finnst ómögulegt að það tengist ekki því að læðast eins og hlaup tengist því að hlaupa eða róður tengist því að róa. Ég kíkti í orðabók og þar var bara talað um fjöturinn Læðing og skafrenning. Þá prófaði ég að gúggla læðing og fann orðasambandið „laum og læðingur“ á vef Árnastofnunar. Má tala um þörf sé fyrir læðing þegar maður ætlar sér að læðast?Orðið læðingur er til annars vegar sem afleiðsla af sögninni að læða og merkir „það að læðast; smá skafrenningur; lautardrag“. Hins vegar er læðingur nafn á fjötri þeim sem Fenrisúlfur var bundinn með en uppruni þess orðs er umdeildur (sjá Íslenska orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon, 1989:591). Þar sem læðingur merkir „það að læðast“ er ekki rangt að tala um að „þörf sé fyrir læðing“ en ekki er það fallegt mál. Nafnorðastíll þykir ekki fallegur íslenskur stíll. Betra er einfaldlega að segja: „það er nauðsynlegt að læðast“, „við skulum læðast“ eða eitthvað í þá veru. Mynd:
- Leopard - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 08.04.2015).