Öldum saman var hann [rabarbari] eingöngu ræktaður vegna rótarinnar, sem notuð var í lækningaskyni og var um tíma m.a. álitin koma að gagni við kynsjúkdómum. Kínverjar fluttu þurrkaðar rætur til Evrópu fyrir meira en tvö þúsund árum og voru þær í háu verði. Snemma á sautjándu öld var þó ræktað fram afbrigði í Padúa á Ítalíu sem hentaði vel til átu og þaðan breiddist jurtin út. Það var þó varla fyrr en í byrjun nítjándu aldar sem almennt var farið að nota rabarbaraleggi að ráði til matar.Hægt er að nota rabarbara á ýmsan hátt, hann hefur til dæmis verið borðaður nýr, soðinn í sultu, niðursoðinn, þurrkaður, hafður í saft og notaður í bakstur. Hann inniheldur mikið af C-vítamíni, járni og kalki, en oxalsýran í honum gerir það að verkum að líkaminn getur ekki tekið upp kalkið. Einn og sér er rabarbari hitaeiningalítill en á móti kemur að hann er oftast borðaður með miklum sykri til þess að draga úr súra bragðinu. Fyrir þá sem hafa áhuga á að fræðast meira um rababara má benda á skemmtilega samantekt í Bændablaðinu undir heitinu Rabarbarinn rifjaður upp. Heimildir og mynd:
- Haukur Már Helgason og Þorsteinn Vilhjálmsson. Vísindavefurinn: Hver er munurinn á ávöxtum og grænmeti?
- Nanna Rögnvaldardóttir. Matarást: alfræðibók um mat og matargerð. Reykjavík: Iðunn, 2002.
- Rhubarb - Wikipedia, the free encyclopedia.
- Rhubarb Botanical Information | The Rhubarb Compendium.
- Vilmundur Hansen. Rabarbarinn rifjaður upp. Bændablaðið.
- Mynd: Rhubarb Fest.