Mikilvægasta heimild um Jón lærða er ævikvæði hans, Fjölmóður, sem hann setti saman 1649 og Árni Magnússon átti í eiginhandarriti, en brann í Kaupmannahöfn 1728 ásamt fleiri ritum Jóns. Páll Eggert Ólason gaf Fjölmóð út.1
Jón lærði kvæntist haustið 1600 á Kirkjubóli í Steingrímsfirði og hét kona hans Sigríður Þorleifsdóttir, og hófu þau búskap í Stóra-Fjarðarhorni vorið eftir. Líklegast á árunum 1605-1611 var Jón viðloðandi á Skarði á Skarðsströnd. Þar getur hann um margt á skrifi og fleira. Það mætti láta sér detta í hug, að þangað hefði hann verið fenginn til smíða, málverks eða bókaskrifa, þótt það sé nú ekki kunnugt. Jón gat þess að hann hefði á þeim árum verið um tíma í Bjarneyjum og í Ólafseyjum. Árið 1611 gekk að sögn draugur ljósum logum á Stað á Snæfjöllum, og Jón átti að hafa komið honum fyrir með kvæðinu Fjandafælu, sem víða er í handritum. Veturinn eftir 1612 var annar draugur þar og kom Jón honum fyrir með Snjáfjallavísum hinum síðari. Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður gaf þær út og sagði: „Þær eru einkum merkilegar að því, að þær eru hið lang-rammasta særingakvæði, sem til er á íslenzku.“2 Í framhaldi af þeim orti Jón Umbót eður friðarhuggun, en aðeins er til upphafið. Eftir þetta var Jón um tíma í sinni gömlu heimasveit, en brátt gerðust atburðir sem gjörbreyttu lífshlaupi hans. Á árunum 1613-1615 voru hér við land baskneskir hvalveiðimenn, en haustið 1615 brutu þeir skip sín og voru flestir drepnir. Fyrir þessu stóð Ari Magnússon í Ögri sem var skyldur Jóni. Jón vildi ekki vera með í aðför að þeim og flúði þá suður á Snæfellsnes. Jón skrifaði sérstakt rit um atburðina: Sönn frásaga af spanskra manna skipbrotum og slagi. Jónas Kristjánsson gaf það út 1950 í ritinu Spánverjavígin 1615 ásamt öðrum heimildum um þessa atburði. Rit Jóns lærða er sérstakt af því að hann dregur taum Spánverjanna. Þegar Jón flúði af Ströndum urðu þáttaskil í lífi hans. Í stað dvalar í afskekktri sveit hefst tveggja áratuga þvælingur um landið og úr landi. Þótt hann færi ekki alltaf sem frjáls maður, gat ekki hjá því farið að jafnforvitinn maður og fróðleiksfús tæki eftir ýmsu, sem ekki hefði ella orðið á vegi hans. Jón getur þess víða í ritum sínum að hann missti eigur sínar 1616 og kennir Ara í Ögri um. Á Snæfellsnesi komst hann fljótlega í skjól Steindórs sýslumanns Gíslasonar, en hann og kona Ara í Ögri voru systrabörn. Ari var tengdasonur Guðbrands Þorlákssonar Hólabiskups. Um veru Jóns á Snæfellsnesi er margt óljóst og er orsökin meðal annars léleg varðveisla skjala. Jón segir að Guðbrandur biskup hafi aumkvað ástæður sínar og því tekið Guðmund son sinn í skóla, sem sannar, að Jón hefur fengið verulega uppreisn. Fyrir Hólamenn setti Jón lærði saman Grænlandsannál um 1623. Ólafur Halldórsson leiddi rök að þessu í doktorsriti sínu Grænland í miðaldaritum 1978. Öll varðveitt handrit annálanna eru frá endurskoðaðri gerð Björns Jónssonar á Skarðsá. Illa hefur þessari vitneskju um höfund Grænlandsannála gengið að komast inn í handbækur. Árið 1627, sem Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup dó, var Jóni afdrifaríkt, því að þá setti prófastur Snæfellinga, séra Guðmundur Einarsson á Staðarstað, saman rit er hann nefndi Hugrás og ástæðan var, að hann hefði fengið í hendur Fjandafælu Jóns lærða og væri hún talin góð til að fæla burt djöfulinn. Í fyrra parti Hugrásar eru kaflar, sem heita „Um réttan gang djöfulsins“ og „Um krókóttan gang djöfulsins“. Sá seinni er miklu lengri og margskiptur, en seinast í honum er kafli um galdrakver og innihald þeirra. Skrifara þeirra nefndi Guðmundur hvergi á nafn og alrangt er að eigna Jóni lærða þau. Aftarlega í þeim parti er þýtt kóngsbréf frá 1617, þar sem bönnuð var notkun ýmissa leynilegra lista og taldar upp: „signingar, særingar, rúnir, galdrastafir, útvalning vissra vikudaga“. Nú var slíkt talið „erting gjörð guði og viðurstyggð“ og varðaði þungum refsingum. Seinni hluti Hugrásar er gegn átta villukenningum í Fjandafælu og „fyrirboðinni lækningskonst“, en niðurstaðan að efnislega sé kvæðið í raun „Fjandahjúfran“. Guðmundi var mikið niðri fyrir í Hugrás og verður að álíta að það hafi verið orsök þess, að Jón fluttist sama ár, 1627, suður á Akranes og settist að hjá Árna Gíslasyni lögréttumanni á Ytra-Hólmi, sem var bróðir fyrrnefnds sýslumanns. Árið eftir eða 1628 var Guðmundur sonur Jóns vígður til Hvalsness á Miðnesi og virðist Jón hafa dvalist hjá honum. Guðmundur lenti í málaferlum við Ólaf Pétursson umboðsmann höfuðsmanns og var Guðmundur dæmdur frá embætti 1630. Ólafur dæmdi Jón lærða útlægan á leiðarþingi sama ár og skaut Jón máli sínu til Alþingis árið eftir eða 1631. Þar var hann ekki sekur fundinn en fluttur í járnum til Bessastaða og dæmdur útlægur þar 1. ágúst 1631 eftir fyrrnefndu kóngsbréfi frá 1617. Honum til dómsáfellingar var kver: Bót eður viðsjá við illu ákasti og eru 30 liðir þess taldir upp. Eru þar ýmis ráð: særingar og fleira.
Þann tíma var fríkennd, eins með galdraíþrótt sem sverð, utan að drepa með galdri eða gera skaða; það var forboðið og kallaðist fordæða meiri og minni, ... en reyna sig var frí; sá hafði prísinn, sem mest hafði lært. (s. 704)Hér var lýst atburðum á 15. öld, en á 17. öld voru tímar breyttir, því að það sem áður var talið saklaust kukl, var nú orðinn refsiverður galdur. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver var Jón lærði Guðmundsson? [sama spurning og Einar G. Pétursson svarar] eftir Ólínu Þorvarðardóttur
- Mats: Myndasafn © Mats Wibe Lund.
Neðanmálsgreinar: 1 Jón Guðmundsson lærði. „Fjölmóður. Ævidrápa.“ Með inngangi og athugasemdum eftir Pál Eggert Ólason. (Safn til sögu Íslands og ísl. bókmenta. V. nr. 3.) Rv. 1916. 2 Jón Guðmundsson lærði. „Snjáfjallavísur hinar síðari, í móti þeim síðara gangára á Snæfjöllum 1612.“ J[ón] Þ[orkelsson gaf út]. Huld. [V.] Rv. 1895; Endurpr.: Huld. II. 2. útg. Rv. 1936. bls. 86.