Er munur á því að segjast slátra dýri eða lóga því? Með öðrum orðum nýtir maður dýr til matar sem hefur verið "lógað"?Sögnin slátra er einkum notuð um að fella dýr sem hafa á til matar. Dýrin eru þá aflífuð og hlutuð sundur í hæfilega skammta og seld í matvöruverslunum. Slátrunin fer nú orðið fram í sláturhúsi og hana annast slátrarinn.
Sögnin lóga er aftur á móti notuð um að aflífa dýr sem orðið er gamalt eða haldið einhverjum sjúkdómi. Heimilishundinum er lógað ef hann er kominn til ára sinna og oft verður að lóga ketti sem hlaupið hefur fyrir bíl og meiðst illa. Dýr, sem þarf að lóga, er ekki ætlað til matar. Gömlum reiðhesti þarf stundum að lóga og varla fara menn að leggja hann sér til matar. Fleiri svör um tengd efni á Vísindavefnum:
- Mega bændur slátra heima hjá sér til einkanota? eftir Halldór Gunnar Haraldsson
- Hvaðan kemur íslenski siðurinn að þakka fyrir matinn? eftir Árna Björnsson
- Hvað endist matur lengi? eftir Franklín Georgsson
- Wikipedia.org. Myndin er birt undir Creative Commons Attribution-leyfi.