Hvað er átt við þegar talað er um bólgur í líkamanum? Eins og er svo mikið talað um varðandi allskonar mat sem á að vera bólgumyndandi eða bólgueyðandi. Og er það virkilega rétt að tómatar eða ómega6 fita sé bólgumyndandi ?Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar til að skoða hvort ákveðin fæðutegund eða næringarefni hafi áhrif á bólgu. Niðurstöður þessara rannsókna benda til þess að sumar fæðutegundir og næringarefni geti ýtt undir bólgu og að aðrar geti stuðlað að minni bólgu. Sumar þessara rannsókna hafa verið gerðar í frumuræktun þar sem skoðað er hvort ákveðin næringarefni auki eða minnki myndun frumnanna á bólguhvetjandi eða bólguhamlandi sameindum. Slíkar rannsóknir segja ekki til um hvað gerist í líkamanum við inntöku en geta verið fyrsta skref áður en farið er í frekari rannsóknir á tilraunadýrum eða á mönnum. Rannsóknir á tilraunadýrum geta gefið haldbetri upplýsingar, þó þær geti aldrei sagt nákvæmlega til um hvað gerist í mönnum. Kosturinn við dýrarannsóknirnar er að það er hægt að koma af stað bólgu í tilraunadýrum en það er yfirleitt ekki gert í mönnum.

Það er líklegt að sumar tegundir af mat geti ýtt undir bólgu á meðan aðrar geti mögulega hamlað bólgu en þörf er á frekari rannsóknum á þessu efni.
- Good Food In Dishes - NCI Visuals Online.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 13. 11. 2018).