Hver er munurinn á merkingu orðtakanna 'að ganga af göflunum' og 'að ganga berserksgang'?Orðið gafl er notað um vegginn fyrir enda húss, hússtafn, endafjalir í kassa, kistu eða rúmi og fleira af þeim toga. Orðasambandið að ganga af göflunum, sem notað er í merkingunni að 'missa stjórn á sér, verða vitlaus' er þekkt að minnsta kosti frá lokum 18. aldar. Elsta dæmi Orðabókar Háskólans er úr riti sem gefið var út 1799. Þar er gafl reyndar án greinis, það er ganga af göflum. Algengara verður að nota gafl með greini þegar kemur fram á 19. öld, það er ganga af göflunum. Líkingin er sennilega sótt til þess að hús getur liðast í sundur í miklum vindi. Veggir og þak losna frá göflunum, ganga af göflunum. Í yfirfærðri merkingu ætla menn oft alveg að ganga til dæmis af göflunum af hrifningu eða æsingi á tónleikum eða á knattspyrnuleik. Þá ætlar allt um koll að keyra.
Berserksgangur þekktist þegar í fornum ritum um það er æði rann á suma menn (berserki) í bardaga og þeir urðu viti sínu fjær, gersamlega óðir. Orðið berserkur er sett saman úr ber-, sem er rót orðsins björn (klofning e > jö), og serkur 'kyrtill, skyrta', eiginlega 'sá sem klæðist bjarndýrsham' og vísar til þeirrar trúar manna að sá taki hamskiptum sem gengur berserksgang. Í nútímamerkingu er yfirleitt átt við þann sem fær æðiskast sakir ölvunar eða stundarbræði, brýtur allt og bramlar og lúskrar á viðstöddum. Hægt er að lesa meira um berserksgang í svari við spurningunni: Mynd: