Vestur í gömlu Múlasveit, nánar tiltekið á Svínanesinu, er örnefnið Gormur. Þetta er mjög blautur mýrarfláki ofan við Berufjörð. Í Reykhólasveit er mýrarfláki með sama nafni. Nú langar mig að vita hvort þessi örnefni gætu verið komin úr keltnesku?Með örnefninu Gormur er líklega átt við blautt mýrarstykki á Svínanesi í Múlasveit í Austur-Barðastrandarsýslu. Orðið gormur merkir ‚leðja, leir, leirborið vatn; rótlaust mýrarfen‘. Fleiri dæmi eru á þessum slóðum um örnefnið Gorm. Þannig segir sr. Friðrik Eggerz frá því í sóknarlýsingu frá 19. öld að í Gilsfjarðarbotni sé engjastykki og síki hjá, sem frá fornöld sé kallað Gormur. Hann segir enn fremur að sumir staðir á landinu og landspartar kennist líka af lögun sinni við ýmsa hluti, gormur sé kallaður í flyðrunni og lögunin sýnist ekki óáþekk (Dalasýsla,107). Þar á hann við að garnir fiska eru oft hringvafðar. Ekki er ástæða til að halda að orðið gormur sé keltneskt. Í norrænum málum er sami stofn og í svipaðri merkingu og hér hefur verið reifuð. Þannig er í nýnorsku orðið gorm eða gurm í merkingunni ‚leðja, draf‘, og í sænskum mállýskum gorm eða gurma ‚forarbleyta‘ (ÁBlM, 270). Heimildir og mynd:
- Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
- Dalasýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Reykjavík 2003.
- Mynd: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 2. 10. 2014).