Efedrín er efni af flokki lýtinga (e. alkaloids) og það er unnið úr plöntum af ættkvíslinni Ephedra en þaðan dregur efnið nafn sitt. Grunnuppbygging þess er sú sama og amfetamíns, það er fenetýlamín-sameindin, en munurinn felst í að í stað annarrar vetnisfrumeindarinnar í amínhópnum (NH2) á amfetamínsameindinni er kominn svokallaður metýlhópur (CH3). Þar að auki hefur einum OH-hóp verið bætt við í efedrínsameindinni.
Vellíðunartilfinningin sem fylgir neyslu amfetamíns og efedríns er skýrð með þeim hætti að efnin auka flæði dópamíns og serótóníns í heilanum. Vegna þessa geta þau orðið ávanabindandi líkt og alkóhól. Amfetamín er mun „hættulegra“ en efedrín. Amfetamínið veldur hvort tveggja hættulegum lífeðlis- og sálfræðilegum breytingum á neytandanum eftir að hann hefur tekið út örvun og vellíðan við neyslu. Algengar aukaverkanir eru skjálfti, kvíði og örari öndun eftir neyslu. Hjartsláttartruflanir, heilablóðfall og sjúkdómar sem leggjast á nýru, lifur og lungu eru líka alvarlegir fylgifiskar misnotkunar á amfetamíni og auk þess veikist ónæmiskerfið. Sálræn áhrif geta komið fram sem ofskynjanir, svefnleysi og mikil reiði. Einkenni geðklofa (e. schizophrenia) og þunglyndis geta einnig gert vart við sig. Amfetamín er auk þess mun meira ávanabindandi en efedrín og myndar neytandinn fljótt mikið þol gegn efninu. Því þarfnast stórneytandi æ stærri skammta af efninu sem leiðir til enn meiri skaða. Afvötnun fíkils sem er langt leiddur er mjög óþægileg og henni getur fylgt ofsóknaræði, þunglyndi, mikil syfja og öndunarerfiðleikar.
Aukaverkanir efedríns eru talsvert vægari, en þau geta verið klígja, svitamyndun, útbrot, lystarleysi, aukin þvagmyndun og höfuðverkur. Alvarleg áhrif í ætt við amfetamínsaukaverkanir geta komið fram við ofneyslu þess. Efedrín er bannað í Evrópu en leyft í Bandaríkjunum. Þar í landi er alls ekki mælt með meira en 150 mg dagsskammti. Fjölmörg dauðsföll hafa verið rekin beint til efedrínsneyslu svo notkun þess ber að varast.
Amfetamín er meðal annars notað við meðhöndlun á ofvirkni og athyglisbresti, drómasýki og síþreytu. Það var áður fyrr notað til að draga úr matarlyst og halda þannig aukakílóunum í skefjum. Efnið er oft og tíðum misnotað á skemmtistöðum, til dæmis svo neytandinn geti „enst lengur“ eða aukið kynhvöt sína. Efnið er ólöglegt og skal alls ekki neytt nema samkvæmt læknisráði.

Höfundur þakkar Pétri Orra Heiðarssyni lífefnafræðingi fyrir yfirlestur. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Af hverju er orkugjafinn "Ripped fuel" á bannlista á Íslandi en seldur út úr matvöruverslunum í USA? eftir Ingibjörgu Gunnarsdóttur.
- Hvað gerir dópamín? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hver er eðlilegur blóðþrýstingur? eftur Magnús Jóhannsson
- Amphetamine. Wikipedia: the free encyclopedia.
- Ephedrine. Wikipedia: the free encyclopedia.
- Phenylethylamine. Wikipedia: the free encyclopedia.
- Mynd:Ephedra distachya. Wikimedia Commons. Myndin er birt undir Creative Commons leyfi.
- Mynd:Ephedrine structure. Wikipedia.
- Mynd:Phenethylamine structure. Wikipedia.
- Mynd:Amphetamine structure. Wikipedia.