Hvenær varð Jörðin til og hvaða afmæli Jarðarinnar var þetta sem Ævar vísindamaður talaði um í þættinum sínum?Jörðin varð til fyrir um það bil 4.500 milljónum ára en það er ekki hægt að tilgreina aldur hennar mikið nákvæmar en það. Jörðin á því engan afmælisdag, ekki frekar en flest í heiminum fyrir utan fólk. Hins vegar tíðkast það iðulega að velja einhvern ákveðinn dag og gera hann að eins konar „afmælisdegi“ hugmynda, hluta eða fyrirbæra, manngerðra eða í náttúrunni. Þannig mætti allt eins líta á Dag Jarðar sem afmælisdag Jarðarinnar. Þann 22. apríl ár hvert er haldið upp á Dag Jarðar um allan heim, en dagurinn er tileinkaður náttúruvernd og fræðslu um umhverfismál. Upphafið má rekja til ársins 1970 þegar 20 milljónir manna um öll Bandaríkin sameinuðust um að vekja athygli á hnignandi ástandi náttúru og umhverfis. Skólar á öllum skólastigum tóku virkan þátt en þarna lögðust líka á eitt grasrótarhópar sem höfðu til dæmis barist gegn olíumengun, skolpmengun, losun spilliefna, notkun skordýraeiturs, mengun frá iðnaði og orkuverum, ágangi á búsvæði villtra dýra og svo framvegis.

Frá upphafi hafa skólar tekið virkan þátt í Degi Jarðar. Þessir nemendur í Oceanway Middle School í Bandaríkjunum fögnuðu Degi Jarðar árið 2010 með útikennslu.
- The History of Earth Day | Earth Day Network. (Skoðað 17. 4. 2017).
- Parísarsamningur: almenningur þrýsti á stjórnvöld | Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu. (Skoðað 17. 4. 2017).
- Guðrún Arndís Tryggvadóttir: „Dagur Jarðar“, Náttúran.is: April 22, 2015. (Skoðað 17. 4. 2017).
- Mynd: Oceanway Middle School on Earth Day with new outdoor class… | Flickr. (Sótt 18. 4. 2017).