Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaðan kom hefðin að halda upp á afmælið sitt og hvað hefur hún tíðkast lengi?

Árni Björnsson

Fyrsta afmælishald sem spurnir eru af voru burðardagar konunga og annarra leiðtoga austur við Miðjarðarhaf þar sem menn komust fyrst upp á lagið með nákvæma tímatalsútreikninga og fóru að geta búið til almanök. Vitneskja um nákvæma dagsetningu fæðingar sinnar varð til þess að konungar og aðrir höfðingjar á þessum slóðum tóku að auka dýrð sína í augum þegnanna með því að halda árlega upp á afmælið sitt. Þá var einnig minnst forfeðra og persónulegra verndarguða. Afmælið varð einskonar þjóðhátíðardagur líkt og siður var síðar í einvaldsríkjum Evrópu.

Þessi siður að halda upp á afmæli sýnist ekki hafa viðgengist meðal Gyðinga hinna fornu. Katólska kirkjan gerði einnig lítið úr jarðneskum fæðingardögum en taldi skírnina mikilvægari, því þá fæddust menn til samfélags kristinna.



Þótt kirkjan hampaði yfirleitt ekki fæðingardögum þá gegndi öðru máli um fæðingu frelsarans.

Dagatöl á miðöldum voru Evrópumönnum heldur ekki mjög hjálpleg við að muna nákvæman fæðingardag. Þau voru sjaldan í höndum almennings og auk þess voru þau einkum ætluð til minnis fyrir klerka um messu daga dýrlinga og aðrar kirkjuhátíðir. Fæðingardagur eins og fleiri dagsetningar var því einatt tilgreindur sem ákveðinn vikudagur fyrir eða eftir næsta helgidag, til dæmis „fimmtudagurinn eftir krossmessu á vori“ eða „mánudagurinn fyrir uppstigudag“. Af þessum sökum varð afmælisdagur manns fremur dagur þess dýrlings sem barnið fæddist á eða var haldið undir skírn. Það hlaut einnig ósjaldan nafn dýrlingsins og því varð til hugtakið nafndagur (þ. Namenstag, e. nameday), sem kom í stað hins eiginlega afmælis.

Með endurreisninni á 15. og 16. öld varð nokkur breyting á hugmyndum manna um stöðu einstaklingsins og tekið var að líta svo á að jarðlífið hefði nokkurt gildi í sjálfu sér. Dagatöl urðu einnig smám saman aðgengilegri, útbreiddari og skiljanlegri eftir að prentlistin kom til sögunnar. Með siðbreytingu mótmælenda á 16. og 17. öld voru flestir dýrlingadagar auk þess afnumdir. Í stað þeirra komu að nokkru leyti afmælisdagar einvaldskonunga og ýmissa fursta sem þóttust hafa þegið vald sitt frá Guði.

Eiginlegt afmælishald meðal alþýðu manna á sér hins vegar hvergi langa sögu. Á þýsku menningarsvæði varð það til að mynda ekki almennt fyrr en nokkuð var liðið á 20. öld þótt það þekkist að sjálfsögðu fyrr meðal hinna betur stæðu.

Afmælishald meðal almennings á sér heldur ekki langa sögu á Íslandi, og nafnadagar virðast aldrei hafa fest hér neinar rætur að marki. Hvors tveggja var reyndar enn síður að vænta á Íslandi en annars staðar vegna þess hve lengi menn héldu fast við gamla misseristalið og vikutalninguna. Menn vissu því yfirleitt helst hvaða dag í hverri vikur sumars eða vetrar, þorra eða góu, þeir voru fæddir en ekki nákvæman mánaðardag. Margir miðuð aldur sinn blátt áfram við það hvað þeir hefðu lifað margar jólanætur og ýmsir könnuðust við þá aldursgreiningu fram eftir 20. öld þótt hún væri ekki lengur viðhöfð í reynd.

Á Íslandi sést naumast minnst á afmæli fyrr en á 18. öld. Hið elsta af þeim toga er afmæliskvæði til Þrúðar Þorsteinsdóttur biskupsfrúar á Hólum árið 1709. Þegar kemur fram á 19. öld sjást nokkur dæmi þess að auðugir menn halda upp á afmælið sitt og fái sendar afmæliskveðjur í ljóðum, og um miðja öldina hefur siðurinn breiðst nokkuð út meðal stúdenta.



Til að byrja með var aðallega haldið upp á afmæli barna en eftir miðja 20. öld hefur færst í aukana að fagna einnig afmælum fullorðinna.

Seint á 19. öld er tekið að halda upp á afmæli barna og fram um miðja 20. öld voru afmælisveislur aðallega haldnar fyrir börn innan fermingar en ekki fyrir fullorðna nema á stórafmælum og þá yfirleitt ekki fyrr en þeir urðu fimmtugir. Þetta aldursmark hefur þó lækkað á seinustu áratugum.

Afmælisgjafir eru að sjálfsögðu ekki eldri í hettunni en annað afmælishald og hafa hvarvetna farið mjög eftir samfélagsstéttum og efnahag. Nefna má þann miðevrópska sið að leggja þrjá hluti fyrir framan barnið á fyrsta afmælisdegi þess, til dæmis egg, skilding og bók. Sá hlutur sem barnið greip fyrst eftir átti að segja fyrir um hneigðir þess og framtíð.

Afmælisgjafir til barna á Íslandi virðast fyrir alvöru koma til sögunnar á seinasta fjórðungi 19. aldar eins og margt annað með þeirri kynslóð sem komst á legg eftir að Íslendingar öðluðust verslunarfrelsi árið 1854.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum

Myndir:

  • Mynd af Jesúbarni og fleirum: Daily Mail. Sótt 10.11.2010.
  • Mynd úr barnaafmæli: Green Prophet. Sótt 10.11.2010.

Þetta svar er stytt útgáfa af umfjöllun um afmæli í bók Árna Björnssonar Merkisdagar á mannsævinni, Reykjavík, Mál og menning 1996.

Höfundur

Árni Björnsson

dr. phil. í menningarsögu

Útgáfudagur

29.11.2010

Spyrjandi

Unnur Birna Reynisdóttir, Ragnheiður, Salvör Sólnes, Steinunn Hákonardóttir

Tilvísun

Árni Björnsson. „Hvaðan kom hefðin að halda upp á afmælið sitt og hvað hefur hún tíðkast lengi?“ Vísindavefurinn, 29. nóvember 2010, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=55392.

Árni Björnsson. (2010, 29. nóvember). Hvaðan kom hefðin að halda upp á afmælið sitt og hvað hefur hún tíðkast lengi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=55392

Árni Björnsson. „Hvaðan kom hefðin að halda upp á afmælið sitt og hvað hefur hún tíðkast lengi?“ Vísindavefurinn. 29. nóv. 2010. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=55392>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaðan kom hefðin að halda upp á afmælið sitt og hvað hefur hún tíðkast lengi?
Fyrsta afmælishald sem spurnir eru af voru burðardagar konunga og annarra leiðtoga austur við Miðjarðarhaf þar sem menn komust fyrst upp á lagið með nákvæma tímatalsútreikninga og fóru að geta búið til almanök. Vitneskja um nákvæma dagsetningu fæðingar sinnar varð til þess að konungar og aðrir höfðingjar á þessum slóðum tóku að auka dýrð sína í augum þegnanna með því að halda árlega upp á afmælið sitt. Þá var einnig minnst forfeðra og persónulegra verndarguða. Afmælið varð einskonar þjóðhátíðardagur líkt og siður var síðar í einvaldsríkjum Evrópu.

Þessi siður að halda upp á afmæli sýnist ekki hafa viðgengist meðal Gyðinga hinna fornu. Katólska kirkjan gerði einnig lítið úr jarðneskum fæðingardögum en taldi skírnina mikilvægari, því þá fæddust menn til samfélags kristinna.



Þótt kirkjan hampaði yfirleitt ekki fæðingardögum þá gegndi öðru máli um fæðingu frelsarans.

Dagatöl á miðöldum voru Evrópumönnum heldur ekki mjög hjálpleg við að muna nákvæman fæðingardag. Þau voru sjaldan í höndum almennings og auk þess voru þau einkum ætluð til minnis fyrir klerka um messu daga dýrlinga og aðrar kirkjuhátíðir. Fæðingardagur eins og fleiri dagsetningar var því einatt tilgreindur sem ákveðinn vikudagur fyrir eða eftir næsta helgidag, til dæmis „fimmtudagurinn eftir krossmessu á vori“ eða „mánudagurinn fyrir uppstigudag“. Af þessum sökum varð afmælisdagur manns fremur dagur þess dýrlings sem barnið fæddist á eða var haldið undir skírn. Það hlaut einnig ósjaldan nafn dýrlingsins og því varð til hugtakið nafndagur (þ. Namenstag, e. nameday), sem kom í stað hins eiginlega afmælis.

Með endurreisninni á 15. og 16. öld varð nokkur breyting á hugmyndum manna um stöðu einstaklingsins og tekið var að líta svo á að jarðlífið hefði nokkurt gildi í sjálfu sér. Dagatöl urðu einnig smám saman aðgengilegri, útbreiddari og skiljanlegri eftir að prentlistin kom til sögunnar. Með siðbreytingu mótmælenda á 16. og 17. öld voru flestir dýrlingadagar auk þess afnumdir. Í stað þeirra komu að nokkru leyti afmælisdagar einvaldskonunga og ýmissa fursta sem þóttust hafa þegið vald sitt frá Guði.

Eiginlegt afmælishald meðal alþýðu manna á sér hins vegar hvergi langa sögu. Á þýsku menningarsvæði varð það til að mynda ekki almennt fyrr en nokkuð var liðið á 20. öld þótt það þekkist að sjálfsögðu fyrr meðal hinna betur stæðu.

Afmælishald meðal almennings á sér heldur ekki langa sögu á Íslandi, og nafnadagar virðast aldrei hafa fest hér neinar rætur að marki. Hvors tveggja var reyndar enn síður að vænta á Íslandi en annars staðar vegna þess hve lengi menn héldu fast við gamla misseristalið og vikutalninguna. Menn vissu því yfirleitt helst hvaða dag í hverri vikur sumars eða vetrar, þorra eða góu, þeir voru fæddir en ekki nákvæman mánaðardag. Margir miðuð aldur sinn blátt áfram við það hvað þeir hefðu lifað margar jólanætur og ýmsir könnuðust við þá aldursgreiningu fram eftir 20. öld þótt hún væri ekki lengur viðhöfð í reynd.

Á Íslandi sést naumast minnst á afmæli fyrr en á 18. öld. Hið elsta af þeim toga er afmæliskvæði til Þrúðar Þorsteinsdóttur biskupsfrúar á Hólum árið 1709. Þegar kemur fram á 19. öld sjást nokkur dæmi þess að auðugir menn halda upp á afmælið sitt og fái sendar afmæliskveðjur í ljóðum, og um miðja öldina hefur siðurinn breiðst nokkuð út meðal stúdenta.



Til að byrja með var aðallega haldið upp á afmæli barna en eftir miðja 20. öld hefur færst í aukana að fagna einnig afmælum fullorðinna.

Seint á 19. öld er tekið að halda upp á afmæli barna og fram um miðja 20. öld voru afmælisveislur aðallega haldnar fyrir börn innan fermingar en ekki fyrir fullorðna nema á stórafmælum og þá yfirleitt ekki fyrr en þeir urðu fimmtugir. Þetta aldursmark hefur þó lækkað á seinustu áratugum.

Afmælisgjafir eru að sjálfsögðu ekki eldri í hettunni en annað afmælishald og hafa hvarvetna farið mjög eftir samfélagsstéttum og efnahag. Nefna má þann miðevrópska sið að leggja þrjá hluti fyrir framan barnið á fyrsta afmælisdegi þess, til dæmis egg, skilding og bók. Sá hlutur sem barnið greip fyrst eftir átti að segja fyrir um hneigðir þess og framtíð.

Afmælisgjafir til barna á Íslandi virðast fyrir alvöru koma til sögunnar á seinasta fjórðungi 19. aldar eins og margt annað með þeirri kynslóð sem komst á legg eftir að Íslendingar öðluðust verslunarfrelsi árið 1854.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum

Myndir:

  • Mynd af Jesúbarni og fleirum: Daily Mail. Sótt 10.11.2010.
  • Mynd úr barnaafmæli: Green Prophet. Sótt 10.11.2010.

Þetta svar er stytt útgáfa af umfjöllun um afmæli í bók Árna Björnssonar Merkisdagar á mannsævinni, Reykjavík, Mál og menning 1996....