Það var ekki fyrr en árið 1889 sem vatnið fékk nafnið Langisjór. Nafngiftin er komin frá Þorvaldi Thoroddsen (1855-1921), náttúruvísindamanni með meiru, en hann var sonur hins þekkta skálds Jóns Thoroddsen. Um Þorvald má lesa nánar á vefsetrinu Ormstunga.is. Þegar Þorvaldur kom að Langasjó var hann jökullón, mórautt og kalt, en í dag er hann blár og tær. Ástæðan fyrir þessari breytingu er sú að á tímum Þorvalds náði skriðjökull milli Tungnárjökuls og Skaftárjökuls niður að Langasjó og litaði hann með framburði sínum.
Séð yfir Langasjó með Sveinstind aftast fyrir miðri mynd.
Þegar Björn Gunnlaugsson (1788-1876), landmælingamaður og kennari við Bessastaðaskóla, gerði uppdrátt sinn af Íslandi um miðja 19. öld (1844-48) var lítið vitað um hálendið. Björn merkti Langasjó inn á kortið en kom þó aldrei þangað sjálfur, heldur studdist hann við lýsingar sveitafólks. Björn þekkti landið ekki jafn vel og jöklarannsóknarmaðurinn Sveinn Pálsson (1762-1840) en Sveinstindur við Langasjó er kenndur við hann. Kort Björns markaði tímamót í kortagerð á Íslandi. Nýjustu tækni þeirra tíma var beitt við gerð þess og hafði aldrei áður svo nákvæmt kort verið gert af Íslandi. Þetta var í fyrsta sinn sem Langisjór fékk raunhæfa stærð og staðsetningu á Íslandskorti.
Hér sést Langisjór merktur inn á kort Björns Gunnlaugssonar frá 1848. Mýrdalsjökull er einnig merktur svo að menn átti sig betur á kortinu.
Vegna fjallanna umhverfis Langasjó sést hann ekki fyrr en komið er alveg að honum. Áform voru um það fyrir nokkru að veita Skaftá í Langasjó, en við það hefði hin tæra ásýnd vatnsins breyst aftur í mórauða jökullónið sem áður var. Nú hefur verið fallið frá þessari hugmynd. Á vef Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns má skoða fleiri forn Íslandskort. Heimildir og mynd:
- Guðmundur Páll Ólafsson. Hálendið í náttúru Íslands 2000. Langisjór, bls. 92-97. Mál og menning, Reykjavík.
- Þorvaldur Thoroddsen: Ormstunga.is
- Langisjór á Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
- Mynd:Langisjor_2006.jpg. Wikimedia Commons. Myndin er birt undir Creative Commons leyfi.
- Kort: Hálendið í náttúru Íslands 2000. Miðlandið kannað, bls. 37. Mál og menning, Reykjavík.