Hraundrangi hefur hlotið frægð sína aðallega af lögun sinni. Hann er gífurlega oddhvass en uppi á toppnum er innan við hálfs fermetra flötur og því tæplega pláss fyrir einn mann að standa. Hraundrangi myndaðist skömmu eftir ísöld í miklu berghlaupi, en í berghlaupi hrynur hlíðin bókstaflega utan af fjalli og eftir stendur harðara berg sem í þessu tilfelli er Hraundrangi.
Berghlaup myndaði ekki bara Hraundranga. Þegar hlíðin ruddist fram Öxnadal lokaðist afrennsli Öxnadalsvatns og því lokuðust fiskitegundir þar inni. Nánar má lesa um það í svari Bjarna E. Guðleifssonar við spurningunni: Hvernig hefur fiskur komist í stöðuvötn eins og Hraunsvatn í Öxnadal þar sem ekkert afrennsli er ofanjarðar?
Afleiðingar berghlaupsins hafa einnig orðið skáldum að yrkisefni en síðasta veturinn sem Jónas Hallgrímsson lifði (1844-45) orti hann þessa vísu um Öxnadal:
Þar sem háir hólarHólarnir sem Jónas yrkir um urðu til þegar hlíðin féll vegna berghlaupsins. Það sem eftir stóð var Hraundranginn en til hans vísar Jónas í þriðju línu sem hamrahillu.
hálfan dalinn fylla
þar sem hamrahilla
hlær við skini sólar
árla fyrir óttu
enn þá meðan nóttu
grundin góða ber
græn í faðmi sér...
Hér sjást háir hólar fylla hálfan dalinn og Hraundrangi er fyrir miðju
Lesefni um berghlaup:
- Hvernig mynduðust Vatnsdalshólar? eftir Höskuld Búa Jónsson.
- Stærstu berghlaup Íslandssögunnar á vef Guðbjarts Kristóferssonar, kennara við MR
- „Íslandshandbókin: Náttúra, saga og sérkenni - Fyrra bindi.“ 1989. Hraundrangi, bls. 438. Ritstj.: Tómas Einarsson og Helgi Magnússon. Örn og Örlygur, Reykjavík.
- Vefur Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns um Jónas Hallgrímsson
- Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund