Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Brennur og álfadans settu svip á hátíðahöld um áramót á 19. og 20. öld. Elsta þekkt frásögn um slíkt er frá árinu 1791 er Sveinn Pálsson segir frá því í Ferðabók sinni að piltar í Hólavallaskóla í Reykjavík hafi haldið brennu „á hæð einni skammt frá skólanum, sem þeir kalla Vulcan.“ Hæð þessi er að líkindum Landakotshæð.
Á 19. öld breiðist þessi siður út um land frá Reykjavík, fyrst í bæjum og þorpum, og fyrir aldamót er vitað að farið var að hafa brennur á einstökum sveitabæjum. Sums staðar á Suður- og Vesturlandi var reynt að haga svo til að kveikt væri í bálkestinum á sama tíma á öllum bæjum í byggðarlaginu svo að hver sæi til annars. Algengt var að brennu væri frestað til þrettánda ef ekki viðraði vel á gamlárskvöld. Brennurnar voru oft kallaðar vitar kringum Breiðafjörð og jafnvel víðar. Það orð var áður haft um elda sem menn kveiktu í sérstökum tilgangi. Í orðabókum segir að viti sé ‘bál á hæðum eða fjallatoppum kynt til viðvörunar’ en af Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er ljóst að viti var einnig kyntur sem annars konar merki. Í Vestfirzkum sögnum, 1. bindi, er sagt frá því að Mosdælingar í Arnarfirði kyntu vita á Reykhól þegar þeir þurftu eitthvað á presti að halda. Vitinn sást vel frá prestssetrinu Rafnseyri og komu prestar þaðan strax og merki var gefið.
Það fór auðvitað ekki hjá því að þessi siður kveikti af sér örnefni þar sem brennur voru haldnar eða vitar brenndir heima á sveitabæjum. Skal nú litið á nokkur dæmi.
Vitaklettur er í landi Skóga á Fellsströnd, Dalasýslu, hár klettur og nokkuð sléttur að ofan. Voru þar hafðir vitar á gamlárskvöld og þrettánda. Á Skriðnafelli á Barðaströnd, Vestur-Barðarstrandarsýslu, heitir Vitahryggur, lítill grjóthryggur. Þar var oft kyntur viti á gamlárskvöld. Viti var einnig kyntur á Vitamel í landi Hreggstaða, næsta bæjar utan Skriðnafells.
Víða um land er hefð að halda brennur um áramót eða á þrettándanum.
Í örnefnaskrá Voga, Vatnsleysustrandarhreppi, er nefndur lítill hóll, Brennuhóll, og sagt að þar hafi verið haldnar brennur í gamla daga. Ekki er tekið fram hvort það voru áramóta- og þrettándabrennur en líklegt að svo sé. Annar Brennuhóll er í Fremri-Hundadal í Miðdölum, rétt við bæ, þar sem kvíarnar voru. Þar voru haldnar brennur í seinni tíð. Brennuhóll hét á Suðureyri við Súgandafjörð. Þar voru hafðar brennur, fyrst aldamótaveturinn og fékk hann þá nafnið, segir í örnefnaskrá, og hlýtur þar að vera átt við aldamótin 1900. Í annarri skrá er nefndur Skothóll, upp af Hlíðarvegi 4, ofan við þorpið, sem að öllum líkindum er sami hóllinn. Þar voru lengi haldnar áramótabrennur sem sást vel til og lagði þaðan bjarma yfir byggðina. Það heyrir nú sögunni til því að háspennulína liggur yfir hólinn. Brennuhóll hét efsti hlutinn af svonefndu Klifi í landi Kálfaness við Steingrímsfjörð, þar sem nú er kauptúnið Hólmavík. Þar voru haldnar brennur á gamlárskvöld þar til hús höfðu verið byggð að hólnum á þrjá vegu. Nú stendur þar Hólmavíkurkirkja. Á Búðum í Staðarsveit á Snæfellsnesi heitir Brennuholt þar sem voru álfabrennur áður fyrr. Þangað var eitt sinn borið brennivín í vatnsfötum til frekari fagnaðar.
Brenniklettur er upp af húsinu Grund á Djúpavogi; þar voru álfabrennur á þrettándanum. Á Skriðufelli í Gnúpverjahreppi er Brennuklettur og á honum er stór stakur steinn. Við steininn var haldin brenna á gamlárskvöld í æsku skrásetjara (f. 1928).
Brennitjörn er í Brennitjarnarnesi á Ásunnarstöðum í Breiðdal, Suður-Múlasýslu. Fyrir löngu var haldinn álfadans og brenna á frosinni tjörninni á góðu og kyrru vetrarkvöldi; við það fékk tjörnin nafn og nesið líka.
Örnefnið Brenna er til víða um land, á nokkrum stöðum bæjarnafn en að auki heiti landsvæða þar sem ekki er vitað til að byggð hafi staðið. Örnefnið Brenna er að líkindum oft sprottið af gróðurbruna einhvers konar. Menn brenndu áður fyrr skóg og kjarr af landi sem taka skyldi til ræktunar og fyrir kom að land brann fyrir slysni eins og enn gerist. Þá geta einhver þessara nafna verið runnin frá kolagerð. Bæjarnafnið Brennistaðir er á nokkrum stöðum á landinu og ekki ólíklegt að það sé af svipuðum rótum runnið og heitið Brenna, og sama má eflaust segja um önnur Brennu- og Brenni-nöfn sem víða finnast.
Heimildir og mynd:
Árni Björnsson: Saga daganna. Reykjavík 2007.
Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
Grímnir. Rit um nafnfræði 1. 1980. Örnefnastofnun Þjóðminjasafns.
Jónína Hafsteinsdóttir. „Eru til örnefni sem tengjast brennum?“ Vísindavefurinn, 31. desember 2015, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=66611.
Jónína Hafsteinsdóttir. (2015, 31. desember). Eru til örnefni sem tengjast brennum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=66611
Jónína Hafsteinsdóttir. „Eru til örnefni sem tengjast brennum?“ Vísindavefurinn. 31. des. 2015. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=66611>.